Fimmtudagur, 3. maí 2007
Kosningavíxlar ráðherranna upp á 440 milljarða!
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar, sem missa umboð sitt eftir 10 daga, hafa verið ötulir við að gefa út kosningavíxla undanfarið. Má fullyrða, að aldrei hafi annað eins átt sér stað í þeim efnum. Ráðherrarnir hafa gefið út hvern kosningavíxilinn á fætur öðrum og ekki neina smávíxla, heldur upp á marga milljarða suma þeirra. Þetta eru skuldbindingar langt fram í tímann, jafnvel svo mörgum árum skiptir. Alls er hér um 440 milljarða króna skuldbindingar að ræða. Það er að sjálfsögðu algerlega óheimilt að skuldbinda ríkið um háar fjárhæðir langt fram í tímann. Slíkar skuldbindingar hafa ekkert gildi fyrr en alþingi hefur samþykkt þær í fjárlögum. En þessir kosningavíxlar gegna því hlutverki að slá ryki í augun á kjósendum. Stjórnarflokkarnir voru orðnir svo hræddir um að missa meirihlutann, að þeir gripu til þess örþrifaráðs að gefa út hvern kosningavíxilinn á fætur öðrum. Þetta eru mennirnir,sem segjast vera ábyrgir í fjármálum og gagnrýna Samfylkinguna og stjórnarandstöðuna fyrir að vera óábyrgir í fjármálum. Ef einhverjir eru óábyrgir í fjármálum eru það þeir sem gefa út kosningavíxla upp á 440 milljarða fyrir kosningar.Svar kjósenda við slíkri óráðsíu er aðeins eitt: Að hafna stjórnarflokkunum í kosningunum og gefa þeim langt frí.
Björgvin Guðmundsson
Fimmtudagur, 3. maí 2007
Mikil sókn Samfylkingar í Reykjavík norður
Kosningafundur var á Stöð 2 í Reykjavík norður í gærkveldi. Í upphafi fundarins var birt ný skoðanakönnun.Samkvæmt henni er Samfylkingin í mikilli sókn í kjördæminu, er með tæp 30% atkvæða. VG eru með rúm 22% og Frjálslyndir með rúm 5%. En Framsókn fær aðeins 4,5% og engan þingmann kjörinn. Stjórnin er kolfallin í þessu kjördæmi.
Össur Skarphéðinsson var fulltrúi Samfylkingarinnar á kosningafundinum. Össur brilleraði á fundinum.Hann sagði, að ef kosningaúrslit yrðu eins og í þessu kjördæmi gætu Samfylking og VG myndað ríkisstjórn saman og kaffibandalagið færi einnig létt með það. Össur sagði,að Samfylkingin legði aðaláherslu á velferðarmálin.Samfylkingin ætlaði að eyða biðlistunum og bæta kjör aldraðra og öryrkja.
Björgvin Guðmundsson