Laugardagur, 16. júní 2007
Tugir milljarða hafðir af eldri borgurum
Stjórnarflokkarnir í fyrri ríkisstjórn höfðu 40 milljarða af eldri borgurum á tímabilinu 1995 til ársins 2007. Þetta er drjúgur hluti allra símapeninganna, sem ríkið geymir til ákveðinna verkefna.Það má því segja, að aldraðir eigi megnið af þessum peningum.En sömu peningarnir verða ekki notaðir tvisvar. Ef ríkið vill gera upp skuld sína við eldri borgara er ljóst, að alþingi verður að leggja fram nýja fjármuni til byggingar sjúkrahúss (hátæknisjúkrahús) þ.e. ef ætlunin er að halda við ráðagerð um byggingu þess.
Lífeyrir aldraðra hefur dregist aftur úr Árið 1995 voru sjálfvirk tengsl milli ellilífeyris og lágmarkslauna rofin.Fram að þeim tíma hækkaði lífeyrir aldraðra frá almannatryggingum sjálfvirkt um leið og lágmarkslaun verkafólks hækkuðu. Þáverandi forsætisráðherra lýsti því yfir 1995, að þessi breyting mundi ekki skerða kjör ellífeyrisþega. Því var sem sagt lofað, að kjör aldraðra yrðu ekki rýrð vegna þessarar breytingar.En það fór á annan veg: Lífeyrir aldraðra hefur stöðugt dregist meira og meira aftur úr lágmarkslaunum í kjaraþróuninni. Lífeyrir aldraðra hefur ekki hækkað nema um brot af því, sem lágmarkslaun hafa hækkað. Samkvæmt lágmarksútreikningum vantar 40 milljarða upp á, að lífeyrir aldraðra hafi hækkað eins mikið og hann hefði átt að hækka, ef hann hefði hækkað eins og lágmarkslaun verkafólks.Fyrri stjórnarflokkar hafa því haft 40 milljarða af öldruðum á 12 ára tímabili.
Björgvin Guðmundsson |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)