Laugardagur, 30. júní 2007
Jón Ásgeir sýknaður
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í fyrradag Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformann Baugs af öllum ákæruatriðum,sem Hæstiréttur vísaði aftur heim í hérað sl. vor. Hins vegar var Jón Gerald Sullenberger dæmdur í 3ja mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Þessir dómar eru athyglisverðir m.a. fyrir þær sakir að Jón Gerald var upphafsmaður Baugsmálsins.Hann kærði Jón Ásgeir og aðra ráðamenn Baugs fyrir 5-6 árum fyrir að hafa látið Baug greiða einhverja einkaneyslu fyrir sig. Jón Gerald hafði verið viðskiptafélagi Jóns Ásgeirs en sinnaðist við hann og kærði hann þess vegna.Kreditnótann sem Jón Gerald framvísaði í upphafi reyndist tilhæfulaus og raunar má segja,að upphaflegt tilefni Jóns Gerald fyrir kæru sé löngu úr sögunni.En ríkislögreglustjóri og saksóknari lögðu ekki árar í bát þó upphaflegt ákæruefni stæðist ekki. Þeir tóku að grafa eftir nýjum ákæruatriðum. Í meira en 5 ár hafa þeir grafið og grafið og leitað að einhverjum atriðum sem kæra mætti Jón Ásgeir og Jóhannes í Bónus fyrir. Gefnar hafa verið út ákærur fyrir ýmis atriði,brot á bókhaldslögum,brot á hlutafélagalgum o.s.frv. Jóhannes í Bónus hefur þegar verið algerlega sýkaður. En enn er reynt að koma sök á Jón Ásgeir en það gengur illa eins og sést af dómi Héraðsdóms í fyrradag.Allt bendir nú til þess að Jón Ásgeir verði einnig algerlega sýknaður enda þótt málið fari ef til vill eina ferðina enn til Hæstaréttar. Hvers vegna er málið alltaf tekið upp aftur og aftur gegn Jóni Ásgeiri? Hvers vegna sættir ákæruvaldið sig ekki við sýknudóma dómskerfisins.Það er einsdæmi að forustumenn fyrirtækja hafi verið eins hundeltir og þeir Jón Ásgeir og Jóhannes.Mér þætti einnig fróðlegt að vita hvort eins yrði snúist gegn öðrum stórfyrirtækjum og gert var gegn Baugi.Segjum,að einhver starfsmaður Landsbankans kærði einn eigenda fyrir að hafa greitt sumarbústað sinn með peningum Landsbankans.Mundi þá ríkislögreglustjóri gera innrás í Landsbankann,taka bókhaldið og standa í málaferlum gegn þessum eiganda bankans í 5 ár með öllu því raski,sem því fylgdi fyrir bankann.Ég held ekki.
Björgvin Guðmundsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)