Mánudagur, 4. júní 2007
Kolsvört skýrsla Hafró
Ný skýrsla Hafrannsóknarstofnunar um ástand fiskistofnanna var birt fyrir helgi.Samkvæmt henni er ástand þorstofnsins mjög slæmt og ef farið væri eftir ráðgjöf Hafró mundi þorskaflinn dragast saman um þriðjung á næsta fiskveiðiári. Það þýðir tekjusamdrátt upp á 20-30 milljarða.Þetta er enn ein staðfestingin á því,að kvótakerfið hefur algerlega mistekist. Aðalmarkmið kvótakerfisins var að vernda þorskstofninn. En það markmið hefur ekki náðst. Þvert á móti hefur ástand þorstofnsins stórversnað vegna kvótakerfisins og á sama tíma hefur skuldsetning útgerðarinnar stóraukist.
Sjávarútvegsráðherra er nú í algerum vandræðum vegna þessarar skýrslu Hafró.Hefur hann óskað eftir þverpólitískri samstöðu um viðbrögð við henni. Er það skynsamleg tillaga.Mikil og vaxandi gagnrýni kemur nú fram á kvótakerfið. Morgunblaðið hefur gagnrýnt það harðlega síðustu daga. Og nú hefur Framsóknarflokkurinn bætst við. Flokkurinn gagnrýnir nú kvótakerfið og vill breyta því. T.d. setti Björn Ingi Hrafnsson,borgarfulltrúi Framsóknar,fram gagnrýni á kerfið á sjómannadaginn og vildi m.a. að úthlutað yrði upp á nýtt þannig að meira kæmi í hlut sjávarbyggðanna,sem nú væru afskiptar.
Það verður ekki lengur vikist undan því að skera upp kvótakerfið og gerbreyta því. Banna á framsalið og leyfa nýjum aðilum að hefja veiðar. Það er ekki stætt á því að hafa greinina lokaða nýjum aðilum.
Björgvin Guðmundsson