Sunnudagur, 1. júlí 2007
Gaumur tók áhættuna fyrir Baug
Miklar umræður eru nú í fjölmiðlum um síðustu dóma í Baugsmálinu. Einkum verður mönnum tíðrætt um óheimilar lánveitingar hlutafélaga til tengdra aðila Héraðsdómur taldi,að Baugur hefði lánað tengdum aðilum til hlutafjárkaupa og að það hefði verið brot á hlutafélagalögunum.Hins vegar var ekki talið unnt að sakfella forstjórann,Jón Ásgeir,vegna þessa.Hann var sýknaður.Málið snérist einkum um lánveitingar Baugs til Gaums en Gaumur er hlutafélag í eigu Bonusfjölskyldunnar. Baugur hefði mátt veita Gaumi viðskiptalán en Héraðsdómur taldi,að ekki hefði hér verið um viðskiptalán að ræða. Getur þó verið mjótt á munum í því efni. Á meðan byrjunaruppbygging Baugs stóð sem hæst fór Gaumur oft á undan Baugi og tók áhættu við kaup á fyrirtækjum og við aðrar fjárfestingar. Þegar í ljós var komið,að um arðvænleg kaup var að ræða voru fyrirtækin og eignirnar fluttar yfir á Baug. Gaumur var því nokkurns konar brautryðjandi í fjárfestingum fyrir Baug. Í því ljósi ber að líta á fjárhagsleg samskipti félaganna.
Björgvin Guðmundsson