Miðvikudagur, 4. júlí 2007
Hvað líður fjölgun hjúkrunarrýma?
Helgi Vilhjálmsson í Góu birti heilsíðuauglýsingu í Mbl. í gær,þar sem hann óskar eftir því að lífeyrissjóðirnir leggi 1% af innkomu sinni til byggingar hjúkrunarheimila.Þetta er róttæk og athyglisverð tillaga en hætt er við,að ekkert verði úr framkvæmd hennar. Lífeyrissjóðirnir telja sig hafa aðrar skuldbindingar en að fjármagna byggingu hjúkrunarheimila,þ.e.að standa við skuldbindingar um greiðslu lífeyris. Að vísu ávaxta lífeyrissjóðirnir fjármagn sitt með margvíslegum hætti og þar á meðal með kaupum skuldabréfa hér og erlendis. Hugsanlega gætu lífeyrissjóðir lánað fjármagn til byggingar hjukrunarheimila.En það er algerlega á valdi lífeyrissjóðanna sjálfra.
Þetta leiðir athyglina að því,að stjórnmálaflokkarnir gáfu mikil loforð fyrir síðustu kosningar um fjölgun hjúkrunarrýma. Lítið hefur heyrst um það mál síðan. Að vísu segir í stjórnarsáttmálanum að hraða eigi byggingu 400 hjúkrunarrýma en ekkert hefur heyrst um framkvæmdina. Mál þetta er á könnu Guðlaugs Þórs heilbrigðisráðherra til næstu áramóta en þá tekur Jóhanna Sigurðardóttir við þessum málum að því er varðar aldraða.Guðlaugur Þór hefur verið furðu þögull um mál þetta.
Björgvin Guðmundsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)