Laugardagur, 8. september 2007
Linkind Vinnumálastofnunar
Vinnumálastofnun sætir harðri gagnrýni fyrir linkind gagnvart þeim fyrirtækjum ,sem hafa ólöglega erlenda starfsmenn í sinni þjónustu.Verkalýðshreyfingin segir,að hér sé um þúsundir erlendra starfsmanna að ræða. Þessir starfsmenn fá ekki greitt rétt kaup samkvæmt íslenskum kjarasamningum og eru ekki tryggðir hér samkvæmt íslenskum lögum. Þetta kom m.a. í ljós,þegar rútan fór út af veginum í Fljótsdal en á þriðja tug erlendra starfsmanna voru í rútunni og meirihlutinn hafði ekki verið skráður löglega inn í landið.Vinnumálastofnun virtist taka rögg á sig eftir það slys og boðaði stöðvun á starfsemi verktakans,sem hafði umrædda menn í vinnu.En á síðustu stundu gugnaði Vinnumalastofnun og settist að samningum með verktakanum,sem brotið hafði af sér. Þannig vinna ekki opinberar stofnanir. Það á ekki að semja við lögbrjótana. Það á að stöðva þá og sekta. Það er það eina,sem þeir skilja. Sennilega hefur Vinnumálastofnun alltaf verið of lin gagnvart starfsemi við Káraknjúka. Það er vitað,að mikil brögð hafa verið að því að ólöglegir starfsmenn hafi verið í vinnu eystra en fyrst þegar framkvæmdum þar fer senn að ljúka ætlar Vinnumálastofnun að grípa á vandamálinu en gugnar svo á því. Þetta grefur undan trúverðugleika stofnunarinnar.
Björgvin Guðmundsson