Laugardagur, 12. janúar 2008
Sþ.: Kvótakerfið byggir ekki á sanngjörnum grunni
Úrskurður Mannréttindanefndar Sþ. um kvótakerfið íslenska er umtalaður og hefur þegar valdið deilum.Sjávarútvegsráðherra talar varlega um úrskurðinn og er ljóst af orðum hans, að hann vill lítið gera. Aðrir eins og Jón Magnússon þingmaður frjálslyndra og Magnús Þór Stefánsson varaformaður frjálslyndra vilja fara eftir úrskurðinum.
Ragnar Aðalsteinsson hrl. segir, að ef Ísland taki ekki tillit til úrskurðarins verði Ísland úthrópað á alþjóðavettvangi. Mannréttindi eru nú forgangsmál hjá íslenska utanríkisráðuneytinu.Ekki þýðir því að horfa fram hjá úrskurðinum.Ef við viljum mannréttindi fyrir aðra viljum við þau einnig fyrir okkur.
Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna segir í úrskurði um íslenska fiskveiðikerfið, að það sé lögmætt markmið íslenskra stjórnvalda að vernda fiskistofna með kvótakerfi í fiskveiðum. Hins vegar hygli íslenska kerfið þeim sem upphaflega fengu úthlutað varanlegum kvóta og það byggist ekki á sanngirni.
Í tilfelli íslenska kvótakerfisins sé kveðið á um það í 1. grein laga um stjórn fiskveiða, að fiskistofnar við Ísland séu sameign íslensku þjóðarinnar. Hins vegar hafi sú viðmiðun, sem notuð var til að úthluta veiðikvótum í upphafi, og kunni að hafa verið eðlileg og hlutlaus aðferð þá, orðið varanleg þegar lögin tóku gildi og breytt upprunalegum nýtingarrétti á almannaeign í einkaeign. Kvótar, sem upprunalegir handhafar nýti ekki lengur, gangi kaupum og sölum á markaðsverði, og á leigumarkaði, í stað þess að þeir renni á ný til ríkisins og sé úthlutað að nýju með réttlátum og sanngjörnum hætti.
Segir mannréttindanefndin, að íslenska ríkið hafi ekki sýnt fram á, að þessi útfærsla á kvótakerfinu uppfylli sanngirniskröfur. Segir nefndin, að í þessu máli sé niðurstaðan sú að þau forréttindi, sem upprunalegir kvótahafar hafi notið, byggist ekki á sanngjörnum grunni.