Sunnudagur, 18. janúar 2009
Mun þetta hafa áhrif á aðra flokka? Fólkið kallar á breytingar
Úrslit formannskosningar Framsóknarflokksins komu á óvart.Landsfundur Framsóknarflokksins valdi þann frambjóðandann,sem var alveg nýr og hafnaði þeim sem höfðu starfað lengi áður í flokknum.Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var kosninn formaður. Hann gekk í flokkinn fyrir mánuði!
Mun þetta hafa áhrif inn í aðra stjórnmálaflokka? Það getur hæglega gert það. Forustumenn í öllum flokkum sjá,að fólkið í landinu vill breytingar. Það hefur komið fram á öllum mótmælafundunum og nú kemur það fram á landsfundi Framsóknarflokksins. Þar er 33ja ára gamall nýliði í flokknum valinn formaður. Hann er vel menntaður, aðhyllist félagshyggju og er góður Framsóknarmaður þó hann hafi ekki verið lengi í flokknum. Forustumenn í öðrum flokkum hljóta að íhuga í framhaldi af þessu,að breytinga er þörf. Það þýðir ekki að hanga á völdunum þegar fólkið í landinu kallar á breytingar.
Björgvin Guðmundsson
Sunnudagur, 18. janúar 2009
Sigmundur Davíð kosinn formaður Framsóknar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var kjörinn formaður Framsóknarflokksins nú fyrir stundu. Formaður kjörstjórnar gerði mistök fyrst þegar að hann kynnti úrslitin og kynnti Höskuld Þórhallsson sem nýjan formann. Þegar að Höskuldur var rétt í þann mund að stíga í pontu eftir að kjörið var kynnt var gert hlé á fundinum og formaður kjörstjórnar fór betur yfir stöðuna.
Í ljós kom að talningin hafði snúist við. Sigmundur var réttkjörinn formaður en ekki Höskuldur. Samkvæmt upplýsingum Vísis hlaut Sigmundur Davíð 449 atkvæði. Höskuldur hlaut 340 atkvæði. Alls var 801 atkvæði greitt. Fjögur voru ógild og átta voru auð.
Páll Magnússon hafði einnig gefið kost á sér í embætti formanns en hann heltist úr lestinni eftir fyrri umferð kosninganna.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er 33 ára gamall Reykvíkingur. Hann er skipulagshagfræðingur að mennt og hefur meðal annars starfað við dagskrárgerð hjá Ríkisútvarpinu. Sigmundur skráði sig nýlega í Framsóknarflokkinn og hefur ekki gegnt trúnaðarstörfum fyrir hann áður. vísir.is)
Þetta eru stórmerkileg úrslit. Þeir tveir,Páll Magnússon og Höskuldur Þóirhallsson,sem starfað hafa mikið í flokknum féllu.En maðurinn sem var að ganga í flokkinn og hafði ekkert starfað í honum var kosinn formaður! Þetta sýnir ef til vill,að fólk vill mikla breytingu. Fólk vill nýja menn til valda og áhrifa og vill gefa þeim gömlu frí.
Björgvin Guðmundsson
Sunnudagur, 18. janúar 2009
Hefur Samfylkingin náð árangri í stjórnarsamstarfinu?
Þegar Samfylkingin myndaði ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum eftir síðustu þingkosningar var sú ákvörðun mjög umdeild innan Samfylkingarinnar.Það var eðlilegt,þar eð það hafði verið aðalbaráttumál Samfylkingarinnar að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum og mynda hér félagshyggjustjórn. Það var því algert stílbrot að mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum.Það eina,sem gat réttlætt slíka stjórnarmyndun af hálfu Samfylkingarinnar var að það næðust fram mjög mikilvæg stefnumál Samfylkingarinnar. En hefur það gerst? Hefur Samfylkingin náð góðum árangri í stjórnarsamstarfinu? Tæplega. Samfylkingin fórnaði einu stærsta stefnumáli sínu,kvótamálinu,til þess að geta myndað stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Ég er mjög óánægður með það. Í staðinn ætlaði Samfylkingin að leggja áherslu á endurreisn velferðarkerfisins.En hefur hún tekist? Ég held ekki.Sáralítið hefur áunnist í að endurreisa almannatryggingakerfið,sem var komið í mikla niðurníðslu. Samfylkingin lagði áherslu á það fyrir síðustu kosningar að stórbæta kjör aldraðra og öryrkja en í stjórnarsáttmálanum er mjög óljóst orðalag um þetta efni . Framkvæmdin hefur verið eftir því. Kjör þeirra aldraðra,sem eru á vinnumarkaðnum hafa verið bætt en kjör þeirra,sem hættir eru að vinna hafa sáralítið breytst.Aldraðrir einhleypingar hafa aðeins 144 þús. á mánuði eftir skatta.Það er alltof lítið.Það eru óviðunandi kjör.Neysluútgjöld samkvæmt könnun Hagstofunnar eru í dag til jafnaðar 282 þús. á mánuði.Niðurstaða mín er þessi: Árangur af stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn er of lítill að hann réttlæti slíkt samstarf.
Björgvin Guðmundsson
Sunnudagur, 18. janúar 2009
Gylfi Magnússson vill,að konurnar taki við
Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, var meðal þeirra sem vöruðu við hruni bankanna. Hann segir nokkur atriði standa upp úr í því sem búið sé að gera. Í fyrsta lagi stofnun nýrra banka á rústum þeirra gömlu. Bráðnauðsynlegt hafi verið að halda greiðslumiðlun og lágmarksbankaþjónustu gangandi en nýju bankarnir séu reyndar ekki mjög burðugir.
Í öðru lagi nefnir hann stuðning Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og samninga sem gerðir voru við erlenda seðlabanka í tengslum við aðkomu sjóðsins. Það hafi verið mikilvægt og bráðnauðsynlegt skref.
Það er búið að berja saman einhver fjárlög fyrir þetta ár, sem eru líklega eins þokkaleg og hægt er að óska eftir. Hallinn á ríkissjóði er mikill en það hefði gert dýfuna enn skarpari ef reynt hefði verið að skila hallaminni eða jafnvel hallalausum fjárlögum. Þó er ljóst að enn á eftir að ganga mikið á í ríkisfjármálum á næstu árum, bæði vegna þess að koma þarf rekstrinum nálægt núllinu á 2-3 árum og síðan eru óhemju skuldir sem greiða þarf af.
Gylfi nefnir nokkur mál sem eru óleyst á þessum tíma síðan neyðarlögin voru sett. Lítið sé búið að gera í þeirri staðreynd að stór hluti fyrirtækja landsins sé með mjög slæma lausafjárstöðu og jafnvel neikvæða eiginfjárstöðu. Hið sama megi segja um fjölmörg heimili.
Stjórnvöld hafa þurft að glíma við hvern vandann á fætur öðrum og ekki séð mikið til sólar. Gylfi telur það geta verið gilda afsökun fyrir því að hafa ekki náð að leysa öll mál.
Fljótlega þarf að koma með einhverja trúverðuga áætlun um hvernig eigi að bregðast við, þannig að þeir sem eru í vandræðum sjái hvað er framundan og geti unnið úr sínum málum í samræmi við það. Þegar svona mörg fyrirtæki eru í vandræðum þá þorir í raun enginn að gera neitt. Allir eru að hugsa um að halda sér á floti og taka enga áhættu. Við þær aðstæður verður ekki mikil uppbygging. Stofnun nýrra fyrirtækja er eitt af því sem þarf að gerast til að allt það fólk sem missir vinnuna út af gjaldþrotum og samdrætti geti fengið vinnu aftur.
Til að atvinnuleysi verði ekki til langs tíma kallar Gylfi eftir frekari aðgerðum og skýrum línum um hvaða fjármagn verður hægt að fá, hvaða fyrirtækjum verður haldið á floti og hvernig tekið verður á fjármálum heimilanna.
Gylfi segir að íslenskt viðskipta- og stjórnmálalíf hafi vannýtt eina auðlind, þ.e.a.s. konur. Rannsóknir hafa löngum sýnt að konur eru alla jafna síður áhættusæknar en karlar. Eitt af því sem kom okkur í vandræði var að hagkerfinu var meira og minna stýrt af frekar áhættusæknum karlmönnum. Því getur verið tími til kominn að þeir stígi til hliðar og hleypi fleiri konum að sem eru með önnur sjónarmið og aðrar lausnir, segir Gylfi. (mbl.is)
Gylfi Magnússon var meðal þeirra hagfræðinga,sem héldu vel til haga þeirri miklu skuldasúpu,sem bankarnir voru komnir í og hann varaði við,að illa gæti farið.Hann segir nú,að betra hefði verið að fleiri konur hefðu verið viðstjórnvölinn,þær séu ekki eins áhættusæknar og karlar.Þetta er athyglisvert sjónarmið og vel má vera,að það sé rétt.
Björgvin Guðmundsson

Sunnudagur, 18. janúar 2009
Geir harmar,að ríkiskerfið skyldi ekki grípa inn í óhóflega stækkun bankanna
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir að árið í ár verði mjög erfitt, í viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins þar sem fjallað er tímann sem liðinn er frá hruni bankanna. Ríkiskerfið greip því miður ekki inn í óhóflega stækkun bankakerfisins, það er hið gremjulega í þessu máli."
Við höfum ekki dregið dul á það að árið 2009 verður mjög erfitt. Ef vel gengur gæti árið 2010 orðið auðveldara, sérstaklega þegar líður fram á árið. Þetta fer mikið eftir því hver þróunin verður í alheimsbúskapnum. Það er ekki okkur í hag að öðrum gangi illa. Gríðarlegir erfiðleikar eru framundan víða um lönd," segir Geir og nefnir bankakerfið í Bretlandi sem dæmi.
Þar hafi gífurlegum fjárhæðum verið dælt inn í bankana án þess að það hafi haft mikið að segja. Nýr forseti Bandaríkjanna, Obama, hafi jafnframt kynnt umfangsmiklar áætlanir til að örva hagkerfið og á meginlandi Evrópu sé stöðugt verið að grípa inn í hjá bönkunum."
Þetta er ekkert venjulegt ástand. Þegar þetta skall á okkur hér í september af fullum þunga þá voru okkar fjármálastofnanir ekki undir það búnar. Meðal annars vegna þess að þær höfðu hegðað sér gáleysislega, tekið mikla áhættu og ekki sýnt þá ábyrgð sem þarf í þessari starfsemi. Ríkiskerfið greip því miður ekki inn í óhóflega stækkun bankakerfisins, það er hið gremjulega í þessu máli, ekki að við skyldum hafa verið með opið bankakerfi og allt sem því fylgdi á evrópska efnahagssvæðinu. (mbl.is)
Það er athyglisvert,að í þessu viðtali skuli Geir harma,að ríkiskerfið skuli ekki hafa gripið inn í óhóflega stækkun bankanna, eða m.ö.o. stöðvað hana.Ég hefi margoft bent á þetta,að eftirlitsstofnanir og ríkisvaldið hafi átt að stöðva óhóflega stækkun bankanna.En þessar stofnanir sátu með hendur í skauti.Og því fór sem fór.
Björgvin Guðmundsson