Þriðjudagur, 20. janúar 2009
Eru mótmælin að fara úr böndunum?
Það eru óskir fólksins að við kæmum þessu á framfæri þegar þing byrjaði, og við gerðum það. Þetta eru háværar kröfur sem hafa verið á Austurvelli undanfarnar vikur. Og hvað gerist veit ég ekki, segir Hörður Torfason, talsmaður samtakanna Raddir fólksins, spurður út í mótmælin í dag og hvort framhald verði á þeim á morgun.
Hörður tekur fram að mótmælin séu ekki skipulögð. Þarna er ekki verið að stjórna einu eða neinu, segir hann í samtali við mbl.is.
Fólk var að bíða eftir þessum degi, segir hann ennfremur.
Samkvæmt upplýsingum úr forsætisráðuneytinu mun Geir H. Haarde forsætisráðherra ekki tjá sig um mótmælin við fjölmiðla.
Hörður segir að tilgangurinn með mótmælunum sé að hafa áhrif á stjórnvöld. Fólk er orðið leitt á að vera kurteist og halda ræður [...] Ef stjórnvöld halda þessu striki þá verður allt vitlaust. Það er voðalega einfalt. Mótmælin eru að aukast um allt land, segir Hörður og bætir við að fólk sé reitt og það gangi ekki að stjórnvöld kalli mótmælendur skríl.
Mótmælin séu eðlileg viðbrögð við þeirri þöggun sem hafi átt sér og eigi sér stað.
Spurður út í það hvort hann hafi áhyggjur af því að ofbeldið muni koma til með að aukast segir hann: Við erum búin að vara alla ráðamenn við þessu.
Það eru stjórnvöld sem skapa þetta ástand, segir Hörður að lokum. (mbl.is)
Mótmælin í dag fóru á köflum úr böndunum. Reynt var að brjóta rúður á þinghúsinu og það tókst í einhverjum tilvikum.Skotið var flugeldum í bakgarði þinghússins og ýmsu kastað í þinghúsið. Lögreglan brást harkalega við og notaði piparúða. Ef mótmælendur brjóta rúður í þinghúsinu þá eru þeir komnir yfir strikið.´Ég held,að það séu mistök hjá Röddum fólksins að halda óskipulagða mótmælafundi. Það er mikið betra að láta mótmælafundina standa í ákveðinn tíma,þar eð ella fer allt úr böndunum.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 20. janúar 2009
Obama orðinn Bandaríkjaforseti
Barack Obama varð í dag fyrsti blökkumaðurinn til að taka við embætti forseta Bandaríkjanna. Hann sór embættiseið við hátíðlega athöfn við þinghúsið í Washington að viðstöddu fjölmenni.
Obama er 44. forseti Bandaríkjanna og tekur við af George Bush, sem setið hefur við völd í Hvíta húsinu undanfarin átta ár. Joe Biden verður varaforseti Obama. Obama ávarpaði mannfjöldann og kvaðst þjóð sinni þakklátur. Hann þakkaði svo Bush störf hans í Hvíta húsinu. Í ræðu sinni sagði Obama meðal annars að verkefnin væru ærin og mörg.
Bandaríkin væru í stríði og efnahagurinn hefði veikst verulega. Þetta væru verkefni sem ekki yrðu leyst á skömmum tíma en tekið yrði á þeim.
Obama hét því að bæta samskiptin við múslimaheiminn, leita nýrra leiða sem byggðu á sameiginlegum hagsmunum og virðingu. Þá hét hann samvinnu og aðstoð við fátæk ríki. Ríki eins og Bandaríkin sem hafi nóg, geti ekki sætt sig við afskiptaleysi og þjáningu annars staðar, né heldur geti auðug ríki nýtt sér auðlindir jarðar án þess að gæta áhrifanna. Veröldin væri breytt og Bandaríkin yrðu að breytast með. (ruv.is)
Ræða Obama var mjög góð. Hann sló nýjan og ferskan tón.Ég hefi mikla trú á honum.
Björgvin Guðmundsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 20. janúar 2009
Obama tekur við völdum í dag. Fagnaðardagur
Milljónir manna streyma nú til Washington höfuðborgar Bandaríkjanna þar sem Barack Obama sver embættiseið sem 44. forseti Bandaríkjanna í dag.
Búist er við að tvær milljónir manna verði viðstaddar athöfnina sem ber upp á almennan frídag til minningar um mannréttindabaráttumanninn Martin Luther King.Umferðaröngþveiti er á vegum og lestir eru yfirfullar. Vegum og brúm hefur verið lokað í miðborg Washington og allt að 40 þúsund manns sinna öryggisgæslu.Sjónvarpið sýnir beint frá embættistökunni í dag. Útsendingin hefst klukkan 16.
Hundruð þúsunda hafa streymt til borgarinnar síðustu daga og um 400 þúsund hlýddu á ávarp forsetans í brunagaddi á útifundi sem markaði upphaf hátíðar haldanna. Obama þakkaði fólki fyrir að koma langan veg og bauð það velkomið til Washington til að fagna endurnýjun Bandaríkjanna.
Þriðjudagur, 20. janúar 2009
Dómsmálaráðherra gerir athugasemdir við vinnubrögð sýslumanns á Selfossi
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, setur ofan í við Ólaf Helga Kjartansson, sýslumann á Selfossi vegna ákvörðunar um að gefa lögreglu fyrirmæli um að handtaka 370 einstaklinga í Árnessýslu sem höfðu hefðu ekki skilað sér í fjárnám hjá embætti hans.
,,Ákvörðun sína tók sýslumaður án samráðs við dómsmálaráðuneyti. Í tilefni hennar vill dómsmálaráðherra taka fram, að hann telur ekki skynsamlegt af sýslumanni að kynna ákvörðun sína með þeim hætti, sem hann hefur gert í fjölmiðlum," segir tilkynningu frá Birni.
Björn segir að það sé ekki í samræmi við ákvarðanir ríkisstjórnarinnar, að nú sé gripið til óvenjulegra og harkalegra innheimtuaðgerða af hálfu sýslumanns. Í því efni beri að gæta reglna stjórnsýsluréttarins um jafnræði og meðalhóf í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu.
Í samtali við fréttastofu segist Ólafur Helgi taka undir sjónarmið ráðherra. Aðspurður hvort hann hefði átt að tilkynna ráðuneytinu fyrst um ákvörðun sína segist hann ekki vilja svara því, en ítrekaði að hann taki undir umrædd sjónarmið. (visir.is)
Fagna ber afstöðu og aðgerðum dómsmálaráðherra. Einnig vil ég fagna sinnaskiptum sýslumanns
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 20. janúar 2009
Kaupmáttur minnkar um 13 % í ár
Atvinnuleysi verður vel yfir 10% í byrjun næsta árs, samkvæmt nýrri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins. Meðalatvinnuleysi þessa árs verður tæp 8%. Spáin gerir ráð fyrir því að verðbólgan verði 13,1% á þessu ári en verði komin niður í 2,7 prósent árið 2010. Kaupmáttur launa lækkar um rúmlega 13% á þessu ári, stendur svo í stað á næsta ári.
Þá er gert ráð fyrir að ríkissjóður verði rekinn með 155 milljarða króna halla árið 2010 en skili svo afgangi 2012. Forsendur spárinnar gera ráð fyrir framkvæmdum við álver í Helguvík.
Landsframleiðslan dragist saman um 9,6 prósent á þessu ári þrátt fyrir að afgangur verði af utanríkisviðskiptum og að þorskkvóti verði aukin. Þá dragist einkaneysla saman um tæplega fjórðung. Landsframleiðslan standi svo í stað á næsta ári en einkaneysla dragist áfram saman. Spáð er að gengi krónunnar styrkist lítillega á þessu ári en meira á því næsta (ruv.is)
Þetta er hrikaleg spá,13% lækkun kaupmáttar og 8% atvinnuleysi. Nauðsynlegt er að gera ráðstafanir til þess að draga úr atvinnuleysi. Það margborgar sig fyrir þjóðfélagið, ella lendir kostnaður margfaldur á þjóðfélaginu,í atvinnuleysisbótum,.örorkubótum og ýmsum öðrum kostnaði.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 20. janúar 2009
Þing kemur saman. Mótmæli fyrir utan þinghúsið
Alþingi kemur saman í dag eftir langt jólaleyfi,lengra en börnin fá.Menn horfa með eftirvæntingu til þingsins og vona að þingið taki til hendinni og leysi aðsteðjandi vandamál. Þar er númer eitt að leysa vanda heimilanna og fyrirtækjanna í landinu. Gera þörf bönkunum kleift að starfa en þeir hafa lítið sem ekkert lánað enn.
Um leið og þing hefst verða mótmæli fyrir utan þinghúsið.Það er eðlilegt. Það sýður á almenningi. Margir hafa tapað háum fjárhæðum á bankahruninu og enginn axlar ábyrgð á mistökum. Fjármálaeftirlitið brást við eftirlitið. Seðlabankinn brást. Stjórnvöld brugðust. Þeir,sem eru ábyrgir verða að axla ábyrgð.- En ekki má trufla störf þingsins. Þingið verður að hafa vinnufrið.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 20. janúar 2009
Landsframleiðsla dregst saman um 9,6% í ár
Í ár er gert ráð fyrir að landsframleiðslan dragist saman um 9,6%, þrátt fyrir áframhaldandi viðsnúning í þróun utanríkisviðskipta og aukinn þorskkvóta.
Þá er gert ráð fyrir áframhaldandi stóriðjuframkvæmdum í Helguvík en með minni umsvifum árið 2009 en meiri árið 2010. Árið 2010 er spáð að landsframleiðslan standi í stað en einkaneysla dragist áfram saman.
Þetta kemur fram í yfirliti fjármálaráðuneytisisn um stöðu þjóðarbúskpasins. Mat á stöðu ríkissjóðs er mikið breytt frá haustspá vegna áætlunar um meiri tekjusamdrátt, auknar skuldbindingar í tengslum við hrun bankakerfisins og umtalsverð útgjöld vegna vaxtakostnaðar og atvinnuleysisbóta á komandi árum.
Árið 2008 er áætlað tekjuafkoma ríkissjóðs verði lítið eitt neikvæðari en í haustspá, eða 1,5% af landsframleiðslu þegar sumir tekju- og gjaldaliðir hækka frá fyrri spá á meðan aðrir lækka. Hinsvegar er spáð að afkoma ríkissjóðs snúist í mikinn halla árið 2009, eða um 12,3% af landsframleiðslu.
Miðað við það mun ríkissjóður hafa umtalsverð sveiflujafnandi áhrif þegar þungi niðursveiflunnar er mestur. Sambærileg þróun átti sér stað í ríkisfjármálum Svíþjóðar í kjölfar bankakreppunnar þar í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að hallinn minnki árið 2010 og verði 10,1% af landsframleiðslu.
Lækkun á gengi krónunnar hefur orsakað aukna verðbólgu sem var 12,4% árið 2008. Áætlað er að verðbólga verði 13,1% árið 2009, sem er aukning um 7,4 prósent frá haustspá. Áætlað er að 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans verði náð árið 2010, þegar verðbólgan verði að meðaltali 2,7%.
Viðskiptahalli á árinu 2008 er nú talinn mun meiri en í fyrri áætlunum, eða um 22,2% af landsframleiðslu, aðallega vegna mun óhagstæðari þróunar þáttatekjujafnaðar sem endurspeglar tekjuflæði milli landa af eignum innlendra og erlendra aðila hér á landi og erlendis. Spáð er að viðskiptajöfnuðurinn snúist í afgang sem nemi 6,1% af landsframleiðslu árið 2009 og 5,6% árið 2010, en slík þróun styður við endurreisn gjaldeyrismarkaðarins. (visir.is)
Þetta er gífurlega mikill samdráttur. En strax árið 2010 er því spáð,að enginn samdráttur verði í þjóðarframleiðslu en að vísu engin aukning heldur.Þetta mun þýða mikla kjaraskerðingu en við getum breytt tekjuskiptingunni,tekið frá þeim,sem meira hafa og látið þá,sem hafa lítið fá meira. Slík tekjutilfærsla er nauðsynlegt við þessar aðstæður.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 20. janúar 2009
Kaupþing lánaði tugi milljarða án samþykkis lánanefndar rétt fyrir hrunið!
Morgunblaðið greinir frá því í dag að Kaupþing hafi lánað tugi milljarða króna áður en samþykki lánanefndar lá fyrir. Auk þess að hafa lánað útvöldum viðskiptavinum háar upphæðir hafi stjórnendur bankans keypt skuldabréf bankans á 180 milljónir evra.
140 milljarðar króna streymdu því út úr bankanum á nokkrum vikum. Á sama tíma var umhverfi fjármálafyrirtækja mjög fallvalt í heiminum og allt lausafé dýrmætt. Samkvæmt heimildum blaðsins fengu útvaldir viðskiptavinir Kaupþings, þar á meðal Ólafur Ólafsson, annar af tveimur stærstu eigendum bankans, milljarða króna að láni til að gera samninga sem þeir gátu ekki tapað á.
Kaupþing hafði lánað um 84 milljarða króna vegna þessara samninga til erlendra félaga sem voru í eigu viðskiptavinanna vikurnar áður en bankinn féll.
Morgunblaðið segir að áhættan af þessum viðskiptum hafi öll legið hjá Kaupþingi og hluthöfum bankans en ekki hjá fjárfestunum sjálfum. Þeir hafi hins vegar átt von á miklum fjárhagslegum ávinningi, allt að tíu milljörðum króna.
Samningarnir hafi verið gerðir með það að markmiði að styrkja fjárhag eigenda þessara félaga. Til stóð að greiða út hluta af reiknuðum hagnaði samninganna fyrirfram. Það náðist ekki.
Lánveitingarnar voru ekki samþykktar í lánanefnd áður en þær voru afgreiddar samkvæmt heimildum blaðsins. Sömu sögu sé að segja um fjármögnun Kaupþings á kaupum sjeiksins Al-Thani á 5% hlut í bankanum.
Í ljósi þess hve mikil áhætta var í þessum lánveitingum þurfti lánanefnd stjórnar Kaupþings að samþykkja þær. Það hafi hins vegar ekki verið gert fyrr en í vikunni áður en neyðarlögin voru sett og bankarnir féllu. (ruv.is)
Ráðstafanir stjórnenda Kaupþings rétt fyrir fall bankans eru mjög ámælisverðar og hljóta að verða rannsakaðar af rannsóknarnefnd alþingis og sérstökum saksóknara.Hátt á annað hundrað milljarðar streymdu út úr bankanum rétt fyrir fall hans.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 20. janúar 2009
Aukin harka í innheimtuaðgerðum.Nú handtökur!
Eftir bankahrunið lýstu stjórnvöld því yfir,að komið yrði til móts við heimilin í landinu á margvíslegan hátt og gefið var til kynna,að innheimtuaðgerðir yrðu mildaðar og frestir veittir. En nefna má mörg dæmi um það,að innheimtuaðgerðir hafi verið hertar.Það er í mörkum tilvikum gengið harðar að fólki í innheimtu í dag en fyrir hrunið. Var þá ekkert að marka yfirlýsingar ráðherra. Nú síðast gerist það,að sýslumaðurinn á Selfossi gefur út handtökuskipun á 370 manns vegna þess,að þeir mættu ekki í fjárnám! :Það er grófasta dæmið um aukna hörku í innheimtu og gengur algerlega í berhögg við yfirlýsingar ráðamanna sl. haust eftir hrun bankanna.
Allar aðgerðir ríkisins til þess að létta heimilunum í landinu róðurinn í kreppunni hafa gengið sorglega seint.Á meðan svo er er það lágmark,að innheimtuaðgerðir séu mildar og nauðsynlegir frestir veittir fólki,sem ekki getur greitt skuldir sínar.
Björgvin Guðmundsson