Þriðjudagur, 27. janúar 2009
Góð aðgerðaráætlun Samfylkingarinnar
Samfylkingin lagði fram aðgerðaáætlun í 10 liðum fyrir Sjálfstæðisflokkinn um helgina, áður en stjórnarsamstarfinu var slitið. Helstu atriðin voru þau að breytingar yrðu gerðar í stjórnkerfinu, þar sem meðal annars yrði skipt um yfirstjórn Seðalbanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Einnig voru kynntar markvissar aðgerðir í þágu heimila og fyrirtækja auk breytinga á stjórnarskrá til að liðka fyrir aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Áætlunin fer hér á eftir.
1. Fylgt verði efnahagsáætlun ríkisstjórnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og framkvæmd hennar styrkt með framkvæmdanefnd undir forystu formanna stjórnarflokkanna. Jafnframt verði komið á fót upplýsingamiðstöð sem tryggi greiðari miðlun upplýsinga til almennings um aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að mæta afleiðingum bankahrunsins.
2. Gerðar verði breytingar á stjórnarskrá hvað varðar fullveldi og auðlindir þjóðar. Jafnframt verði lögð fram tillaga um stjórnlagaþing, sem verði kosið til samhliða þingkosningum.
3. Skipt verði um yfirstjórn Seðlabanka Íslands. Lögum um Seðlabanka Íslands verði breytt með þeim hætti, að yfir bankanum sé einn bankastjóri, skipaður út frá alþjóðlegum hæfniskröfum, og að komið verði á fót peningastefnuráði sem fari með ákvarðanir um beitingu allra stjórntækja bankans, þ.e. stýrivaxta, bindiskyldu og lausafjárreglna. Nefnd verði skipuð um endurskoðun peningamálastefnu Seðlabanka.
4. Skipt verði um yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins.
5. Sett verði lög sem tryggi niðurfærslu veðskulda að greiðslugetu óháð veðstöðu láns, bæti réttarstöðu skuldara við upphaf og lok gjaldþrotaskipta, m.a. með afskrift þeirra skulda sem ekki fást greiddar. Búsetuöryggi þeirra fjölskyldna sem missa íbúðarhúsnæði við gjaldþrot og nauðungarsölu tryggi lágmarksröskun á stöðu og velferð fjölskyldunnar.
6. Stofnaður verði Bjargráðasjóður heimilanna til að standa straum af björgunaraðgerðum í þágu heimila í landinu, sem m.a. feli í sér aðgerðir til að lækka greiðslubyrði almennings.. Leitað verði leiða um fjármögnun sjóðsins sem feli í sér aðkomu auðmanna, sem báru ábyrgð á hruni bankakerfisins og tímabundið viðlagagjaldi sem leggist á þá sem hafa háar tekjur.
7. Ákveðnar verði aðgerðir í þágu heimila og fyrirtækja í nánu samráði við aðila vinnumarkaðarins. Áhersla verði lögð á vinnumarkaðsaðgerðir, fjölgun starfa, endurmenntun, úrbætur á námslánakerfinu o.s.frv. Jafnframt komi fulltrúar ríkis og sveitarfélaga með viðræðuumboð að vinnu með öðrum aðilum vinnumarkaðarins um stöðu og horfur í efnahags- og kjaramálum, opinberum fjármálum, velferðar- og skattamálum.
8. Gripið verði til markvissra aðgerða í bankakerfinu til að tryggja þjónustu við skuldsett fyrirtæki. (sjá minnisblað)
9. Breytingar verði gerðar á skipan ráðherra og ráðuneyta.
10. Kosningar til Alþingis verði haldnar 30. maí 2009. Samhliða þingkosningum fari fram þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 27. janúar 2009
Viðræður Samfylkingar og VG halda áfram
Stjórnarmyndunarviðræður Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, munu halda áfram í fyrramálið en í kvöld fer fram vinna í málefnahópum. Hlé var gert á fundi flokkanna í Alþingishúsinu undir kvöld. Formenn flokkanna sögðust bjartsýnir á framhaldið.
Þegar málefnavinnunni er lokið munum við ræða verkaskiptinguna milli flokkanna, sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, en átti ekki von á að niðurstaða fengist fyrr en á morgun. Nefndi hún m.a. að ráðast þyrfti í miklar aðgerðir til að bæta hag heimilanna og fyrirtækja og að fara þyrfti fram einhvers konar siðbót. Í því sambandi nefndi hún m.a. að breyta þyrfti lögum um ráðherraábyrgð, setja siðareglur og tryggja faglega stjórn Seðlabankans.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, tók í sama streng og áréttaði að þingflokkar beggja flokkanna ættu aðkomu að málinu. Við nálgumst þetta þannig að draga fram mikilvægustu atriðin og hafa þetta fá, skýr og mikilvæg atriði sem mest liggur á að vinna og vera ekki að flækja málin með öðru, sagði Steingrímur.
Ljóst er orðið að Jóhanna Sigurðardóttir muni veita ríkisstjórninni forystu en að öðru leyti vildu formennirnir ekkert gefa uppi um önnur ráðherraembætti.(mbl.is)
Auk þess að Jóhanna verður forsætisráðherra mun Steingrímur J. verða fjármálaráðherra en þetta eru tvo valdamestu embættin.Ekki er unnt að slá neinu föstu um önnur ráðherraembætti.
Björgvin Guðmundsson

Þriðjudagur, 27. janúar 2009
Viðræður um stjórnarmyndun hafnar
Forystumenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna eru mættir á fund í Alþingishúsinu um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti laust fyrir hádegi í dag að hann myndi veita umboð fyrir þessari stjórnarmyndun. Steingrímur J. Sigfússon formaður VG sagði fyrir fundinn að lögð verði áhersla á að ljúka viðræðum sem fyrst.
Steingrímur sagði við fréttamenn að ætlunin væri að reyna að mynda ríkisstjórn og að taka eins skamman tíma og hægt er í það. Hann sagðist vonast til þess að þessir tveir flokkar, VG og Samfylking næðu saman um málefnin enda væru svipaðar áherslur í mörgum málum. Þó væri alls óvíst hve langan tíma það mun taka að mynda ríkisstjórnina.
Fyrir þennan fund hittist þingflokkur VG í Vonarstræti þar sem farið var yfir þau málefni sem flokkurinn ætlar að leggja áherslu á í viðræðunum.
Þau Ingibjörg Sólrún, Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður og Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra sitja fundinn fyrir hönd Samfylkginar.
Fyrir hönd Vinstri grænna eru á fundinum auk Steingríms þau Ögmundur Jónasson þingflokksformaður og Katrín Jakobsdóttir varaformaður flokksins. (visir.is)
Vonandi tekst þessi stjórnamyndun fljótt, Við megum engan tíma missa.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 27. janúar 2009
Ágúst Ólafur hættir
Ágúst Ólafur Ágústsson hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs við þingkosningarnar í vor.Þetta eru slæm tiðindi. Það er mikil eftirsjá af Ágústi Ólafi. Hann er mjög vel menntaður maður og hæfileikaríkur stjórnmálamaður. Hann var kosinn varaformaður Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins en honum hefur verið haldið niðri. Hann hefur ekki fengið að njóta sín sem skyldi. T.d. var gengið framhjá honum þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks var mynduð.Hann var ekki skipaður ráðherra. Í stjórnmálum verður að virða leikreglurnar. Við getum ekki reiknað með því að ungt fólk gefi kost á sér í stjórnmál,ef svo er ekki.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 27. janúar 2009
Hvernig stóð ríkisstjórnin sig?Stjórnin byrjaði með kossi og henni lauk með kossi
Stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hófst með kossi og henni lauk með kossi. Geir Haarde kyssti Ingibjörgu Sólrúnu við upphaf stjórnarinnar og hann kyssti hana á ný við stjórnarslit í gær.Samstarf þeirra leiðtoganna var með ágætum. En það var ekki nóg. Foringjarnir voru nokkuð einangraðir a.m.k var Ingibjörg Sólrún ekki í nægulegu sambandi við grasrótina í Samfylkingunni og því fór sem fór.
Hvernig stóð stjórnin sig? Framan af gekk stjórninni nokkuð vel. Hún tók ágæt skref í velferðarmálum og hækkaði skattleysismörk.Að vísu var eftir að gera betur í málefnum aldraðra og öryrkja, En eftir bankahrunið stóð ríkisstjórnin sig illa. Mál gengu hægt og ekki var tekið nægilega hart á misferli í bönkunum.Alltof seint var hreinsað til í Fjármálaeftirliti og ekki var búið að gera neinar breytingar í Seðlabanka ,þegar stjórnin féll. Þó voru þetta þær tvær stofnanir sem báru aðalábyrgð á bankahruninu.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 27. janúar 2009
Felldi Samfylkingarfélagið í Rvk. stjórnina?Minnihlutastjórn í fæðingu
Margt bendir til þess að ný ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, undir stórn Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra, verði mynduð í dag og að Framsóknarflokkurinn verji hana falli.
Jóhanna hefur fallist á að veita slíkri stjórn forystu og á þingflokksfundi Vinstri grænna í gærkvöldi voru línurnar lagðar fyrir samstarf í slíkri stjórn. Þá er ekki talið útilokað að frjálslyndir muni einnig verja slíka stjórn falli, þannig að Sjálfstæðisflokkurinn yrði í raun einn í minnihluta.
Frjálslyndir hefðu þó heldur viljað þjóðstjórn allra flokka, líkt og Sjálfstæðisflokkurinn hefði viljað, en þverrandi líkur eru á því eins og staðan er. Þess er nú beðið hverjum Ólafur Ragnar Grímsson forseti, veitir umboð til myndunar nýrrar ríkisstjórnar. Almennt er talið að hann geri það í dag þar sem mörg brýn verkefni bíði úrlausnar í þjóðfélaginu.(visir.is)
Þorsteinn Pálsson ritar leiðara um stjórnarslitin í Fréttblaðið
í dag. Hann segir,að örlög ríkisstjórnarinnar hafi verið ráðin þegar Samfylkingarfélagið í Reykjavík samþykkti stjórnarslit.Hann harmar fall stjórnarinnar og segir,að þessir tveir flokkar Samfylking og Sjálfstæðisflokkur hafi átt að geta náð saman um ýmis góð mál. Í leiðaranum er bent á,að ESB málinu hafi verið vikið til hliðar.
Björgvin Guðmundsson