Miðvikudagur, 11. febrúar 2009
Svört skýrsla ASÍ
ASÍ telur horfur á vinnumarkaði dökkar fram til ársins 2011 og að útlit sé fyrir 8-9% atvinnuleysi næstu þrjú árin. Ólíklegt sé að dragi úr atvinnuleysi fyrr en á síðari hluta ársins 2011. Þetta kemur fram í Hagskýrslu ASÍ sem birt var í dag. ASÍ býst við að verðbólga gangi hratt niður á næstu mánuðum og verði komin undir 3% í lok þessa árs.
Samhliða lækkandi verðbólgu megi búast við að Seðlabankinn lækki stýrivexti. Þá telur ASÍ útlit fyrir að niðursveiflan verði bæði dýpri og lengri en spár í haust gerðu ráð fyrir.
Það er heldur dökk mynd sem dregin er upp af horfum í efnahagslífinu næstu misserin í nýrri skýrslu hagdeildar ASÍ. Þar segir að framundan sé mesta samdráttarskeið sem íslenskt efnahagslíf hefur gengið í gegnum á síðari árum. Ekki fari að rofa til fyrr en árið 2011.
Atvinnuleysi verði 8-9% næstu þrjú árin. Landsframleiðsla dragist saman um rúm 9% á næsta ári og tæp 2% árið þar á eftir. Talsvert muni draga úr kaupmætti. Í skýrslunni segir að útlit sé fyrir að niðursveiflan verði bæði dýpri og lengri en fyrstu spár í kjölfar bankahrunsins í haust gerðu ráð fyrir.
Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, segir að því miður sé þetta alveg kolsvört skýrsla. Smá ljóstíra felist í því að verðbólga geti gengið niður þegar líður á árið. Vonandi innan mjög fárra mánaða förum við að sjá 12 mánaða verðbólgu ganga mjög hratt niður. Verðbólgan gæti verið orðið skapleg í árslok 2009 eða í lok þessa árs. Á næsta ári verði verðbólga lítil sem engin og jafnvel gæti orðið verðhjöðnun.(visir.is)
Vonandi verður þróunon ekki alveg eins slæm og ASÍ spáir. Bankamálasérfræðingur ríkisstjórnarinnar var mun bjartsýnni.
Björgvin Guðmundsson
Miðvikudagur, 11. febrúar 2009
Meirihluti fyrir hvalveiðum á alþingi
Allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Frjálslynda flokksins, auk Jóns Magnússonar, sem er utan flokka, hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar þess efnis að veiðum á hrefnu og langreyði verði haldið áfram og veiðileyfi gefin út til næstu fimm ára.
Árlegur heildarafli verði eins og kveðið er á um í veiðiráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar. Þingmennirnir sem standa að tillögunni eru 36 talsins og því er ljóst að meirihluti er fyrir málinu á Alþingi, hver sem afstaða stjórnarflokkanna verður.
Auk þeirra hafa einstaka þingmenn Samfylkingarinnar lýst stuðningi við hvalveiðar. Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur tekið til endurskoðunar ákvörðun forvera síns í embætti um að heimila áframhaldandi veiðar. Hann mun kynna ákvörðun sína innan tveggja vikna.(visir.is)
Erfitt verður fyrir sjávarútvegsráðherra að ganga gegn þinginu. Hins vegar er það á valdi ráðherra hvernig veiðileyfum verður úthlutað og hvenær.
Björgvin Guðmmundsson
Miðvikudagur, 11. febrúar 2009
Leikaraskapur á alþingi
Landsmenn hafa getað fylgst með störfum alþingis að undanförnu eins og áður en sjónvarpað er frá öllum fundum alþingis.Það blasir ekki falleg mynd við: Stanslaus framíköll,hróp og hlátrar.Frá því að Sjálfstæðisflokkurinn fór í stjórnarandstöðu hefur verið hálfgert upplausnarástand á þinginu,þar eð flokkurinn gerir allt til þess að trufla þingstörfin. Við bætist ,að þingmenn flokksins eru farnir að nota þingið til undirbúnings prófkjörum og gera að umtalsefni ýmis smámál,sem þeir blása upp í auglýsingaskyni.Er ekki kominn tími til að þingmenn hætti þessum leikaraskap og snúi sér að alvarlegri málum. Þjóðin er á barmi gjaldþrots og það er kominn tími til að þingmenn snúi bökum saman og reyni að leysa vandamál þjóðarinnar.
Björgvin Guðmundsson
Miðvikudagur, 11. febrúar 2009
Markaðurinn: Ríkið ber ábyrgð á lágmarksvernd innstæðna
Markaðurinn í Fréttblaðinu fjallar um ábyrgð á innstæðum sparifjáreigenda í Bretlandi og víðar ( hjá Landsbanka).Markaðurinn ræðir við ýmsa um málið,þar á meðal Áslaugu Árnadóttur,skrifstofustjóra í viðskiptaráðuneytinu.Hún er formaður stjórnar Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.Hún segir: Helsta niðurstaðan er hins vegar að með því að gangast undir tilskipun ESB um innstæðutryggingar og leiða ákvæði hennar í lög hafi ríkið búið til réttmætar væntingar hjá sparifjáreigendum ( á EES )um að innstæður þeirra væru tryggðar upp að ákveðnu lágmarki.Þar af leiðandi standi krafan ekki einungis upp á innlánstryggingarkerfin heldur aðildarríkin.
Ég er ósammála þessu og bendi á,að hvergi í þessari grein er bent á neina grein eða ákvæði í tilskipun ESB,sem segir,að ríkin sjálf eigi að borga. Enda finnst ekki slík grein eða ákvæði.Það,sem sagt er um að ríki eigi að borga eru ályktanir,sem menn draga af tilskipuninni ( nánast tilbúningur).Og jafnvel þó unnt væri að gera því skóna,að ríki ættu að hlaupa undir banka við gjaldþrot eins eða tveggja banka gildir slíkt ekki þegar heilt fjármálakerfi fer á hliðina.
Björgvin Guðmundsson
Miðvikudagur, 11. febrúar 2009
Mats Josefsson: Bankastjórar og eigendur gömlu bankanna bera ábyrgð á hruni þeirra
Mats Josefsson er sænskur sérfræðingur í bankakreppum sem komið hefur að endurreisn fjármálakerfa í heimalandi sínu Svíþjóð, Noregi og víðar. Áður en hann tók við formennsku í samræmingarnefnd ríkisstjórnarinnar um endurreisn fjármálakerfisins var hann sérfræðingur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og var í hópi sérfræðinga sem hafði Ísland og önnur Norðurlönd á sinni könnu.
Á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu í morgun sagði hann bankakreppur ekki óþekkt fyrirbæri en algert hrun eins og í íslenska bankakerfinu væri nánast óþekkt. Ríkisstjórnin samþykkti áætlun samræmingarnefndarinnar á fundi sínum í gær. Á blaðamannafundinum í morgun fór Josefsson yfir áætlun og tilögur nefndarinnar. Hann sagði óþarfa að ætla sér að uppgötva hjólið í þessum efnum, vegna þess að til væru þekktar leiðir sem gefist hefðu vel.
Meðal þess sem nefndin leggur til er að sett verði á laggirnar eignaumsýslufélagi í eigu ríkisins, sem tæki yfir endurskipulagningu 10 til 15 stærstu fyrirtækjanna í landinu sem ættu í erfiðleikum og teldust verða þjóðhagslega mikilvæg. Bankarnir teldu að þeir gætu valdið þessu hlutverki en þeir gætu það ekki. Þá þyrftu stjórnendur nýju bankanna að átta sig á því að þeir gætu ekki rekið viðskipti eins og venjulega eða tíðkaðist fyrir tíma bankahrunsins. Þeir þyrftu líka að átta sig á því að nú væru bankarnir í ríkiseign.
Þá sagði Josefsson að ríkisstjórnin þyrfti líka að átta sig á nýju hlutverki sínu sem eigenda bankanna. Hún hefði ekki fyrr en nú sýnt að hún ætlaði að koma með meira stefnumarkandi hætti að rekstri og framtíðaruppbyggingu bankanna. Þá telur Josefsson bagalegt að ekki skuli hafa verið lagt fram yfirlit yfir eignir og skuldir nýju bakanna, en bjóst við að það yrði gert bráðlega. Mats Josefsson var þrátt fyrir allt bjartsýnn á að íslendingum og íslensku bankakerfi muni takast að endurheimta traust á alþjóðavettvangi ef stjórnvöldum og bankakerfinu tækist að vinna eftir þeim áætlunum sem lagðar hafa verið fram.(visir.is)
Miðvikudagur, 11. febrúar 2009
Eiríkur Guðnason samþykkir ósk Jóhönnu um að hætta í Seðlabankanum
Eiríkur Guðnason seðlabankastjóri ætlar að hætta í kjölfar áskorunnar Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Hún hvatti á dögunum seðlabankastjóranna þrjá til að víkja, svo ná mætti sátt um bankann.
Félagi Eiríks, Ingimundur Friðriksson, hefur þegar vikið úr stóli seðlabankastjóra en það hefur þriðji bankastjórinn, Davíð Oddsson, hins vegar ekki gert. Þeir Ingimundur og Eiríkur hafa átt í bréfaskiptum við Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra.
Eiríkur sendi henni nýtt bréf í gær. Þar segir hann meðal annars, og vísar til fyrra bréfs Jóhönnu.
,,Ég þakka fyrir það sem þér segið í framangreindu bréfi um mig. Ennfremur fagna ég því, sem segir í bréfinu, að forsætisráðherra vilji tryggja svo sem kostur er að sem minnst röskun verði á starfsemi Seðla-banka Íslands við fyrirhugaðar stjórnskipulagsbreytingar."
Hér vísar Eiríkur til fyrirhugaðra breytinga á yfirstjórn Seðlabankans, með nýjum lögum sem liggja fyrir Alþingi. Samkvæmt frumvarpinu á að fækka seðlabankastjórunum úr þremur í einn.
Eirkíkur heldur áfram: ,,Í ljósi þessa stefni ég nú að því að biðjast lausnar frá embætti bankastjóra frá og með 1. júní næstkomandi og mun bréf því til staðfestingar verða sent í tæka tíð.
Virðingarfyllst, Eiríkur Guðnason, bankastjóri."
Það er þakkarvert,að Eiríkur Guðnason skuli verða við ósk forsætisráðherra um að hætta í Seðlabankanum.Eiríkur vill hætta 1.júní.
Björgvin Guðmundsson
Miðvikudagur, 11. febrúar 2009
Nefnd um endurreisn fjármálalerfisins tekur til hendinni
Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að Josefsson hafi verið ráðinn til að aðstoða ríkisstjórnina við að takast á við vanda bankakerfisins og hefur nú verið skipaður formaður nefndar um endurreisn fjármálakerfisins. Nefndin ber ábyrgð á þróun heildarstefnu um endurbyggingu bankakerfisins, framkvæmd hennar og samræmingu. Í nefndinni sitja fulltrúar allra viðeigandi aðila sem koma að meðferð bankamála," segir einnig.
Fjallað er um þau grundvallaratriði, sem ríkisstjórnin þarf að takast á við, í starfsáætlun nefndarinnar, sem nefndarmenn hafa samþykkt og ríksstjórnin staðfest. Þar kemur fram að þau vandamál sem upp komu í kjölfar bankakreppunnar í upphafi október 2008 hafi haft áhrif á allar greinar efnahagslífsins og að þau muni áfram hafa áhrif á efnahagslífið.
Nefndin hefur lagt eftirfarandi til:
- Starfandi bankar verði endurreistir af ríkisstjórninni, bæði rekstrarlega og fjárhagslega.
- Komið verði á fót Eignasýslufélag, ESF, (á ensku: Asset Management Company - AMC) sem muni hafa það hlutverk, annars vegar, að styðja endurreisn stærri fyrirtækja sem gegna mikilvægu hlutverki í íslensku efnahagslífi og, hins vegar, að endurskipuleggja félög og bjarga verðmætum sem glatast ef félögum fara í þrot.
- Ríkisstjórnin taki við hlutverki eigenda bankanna og láti bankana vita að viðskipti eigi ekki að ganga fyrir sig með sama hætti og áður.
- Stjórnendur banka geri sér grein fyrir því nýja umhverfi sem þeir starfa í og leggi sitt að mörkum og styðji ríkisstjórnina við að koma stefnumálum hennar, varðandi endurreisn efnahagslífsins í framkvæmd.
- Endurbættur verði laga- og framkvæmdarammi varðandi uppgjör gömlu bankanna.
- Skipting verðmæta, sem fást við sölu eigna gömlu bankanna, á milli kröfuhafa verði sanngjörn, réttlát og gagnsæ.
- Íhugað verði að setja upp sjálfstætt eignarhaldafélag sem fari með hlutabréf ríkisins í bönkum og fjármálastofnunum.
- Mótuð verði afstaða til framtíðareignarhalds á fjármálastofnunum, m.a. hugsanlega sölu hlutabréfa.
- Settar verði reglur og eftirlitsrammi í samræmi við það sem gerist best alþjóðlega.(visir.is)
Hér eru margar athyglisverðar tillögur birtar.Eftir er að sjá hverjar þeirra verða framkvæmdar. En ljóst er,að hreyfing er komin á hlutina.
Björgvin Guðmundsson
Miðvikudagur, 11. febrúar 2009
Jón Baldvin og Björn Bjarnason deila um EES
Björn Bjarnason skrifaði harða árásargrein á Jón Baldvin í Mbl. í gær og sakaði hann um að eiga stóran þátt í bankahruninu með lögleiðingu EES samningsins hér á landi en vegna þess samnings var opnað fyrir frjálsa fjármagnsflutninga milli Íslands og EES.Sagt er,að vegna tilskipunar ESB þurfi Ísland að greiða Icesave reikninga. ( Ég er að vísu ekki sammála því)Jón Baldvin svarar Birni Bjarnasyni í Mbl. í dag og rifjar upp að Björn Bjarnason greiddi atkvæði með EES á alþingi. Björn er því í þessu efnui jafnsekur Jóni Baldvin ef um sekt er að ræða.
Björgvin Guðmundsson
Miðvikudagur, 11. febrúar 2009
Island getur ekki staðið við Icesave samkomulagið.Skv. tilskipun ESB á Ísland ekki að borga
Nýr viðskiptaráðherra,Gylfi Magnússon, gaf yfirlýsingu og lýsti því yfir,að stefna ríkisstjórnarinnar í Icesave málinu væri óbreytt eins og hún hefði verið mörkuð í nóv. sl. En þá gerði Ísland bráðabirgðasamkomulag við ESB ríki um málið og samkvæmt því samkomulagi átti Ísland að greiða rúmar 20 þús. evrur á hvern reikning.Mig undrar,að þessi yfirlýsing skuli vera gefin nú.Ég hefði haldið,að ný ríkisstjórn mundi endurskoða stefnuna í þessu máli.VG hefur verið frekar andsnúið því að greiða Icesave reikningana vegna þess m.a. að Ísland hefði ekki efni á því.
Ekkert kemur fram í tilskipun ESB um innistæðureikninga,sem segir,að ríki þurfi að greiða sparifjárinnstæður,ef bankarnir eða tryggingasjóður innistæðna geti það ekki.Þvert á móti er staðreyndin þessi: : Í 25. málsgr. aðfararorða tilskipunarinnar kemur fram,að aðildarríki geti ekki orðið ábyrg gagnvart innstæðueigendum,ef þau hafa komið upp tryggingakerfi í samræmi við tilskipunina eins og við gerðum á Íslandi á árinu 1999 og óumdeilt er. "
Ef fram er tekið,að aðildarríki geti ekki orðið ábyrg gagnvart innstæðueigendum hvers vegna ætlar íslenska ríkið þá að greiða fyrir einkabanka,sem fóru óvarlega.Hvers vegna ætlar íslenska ríkið fremur að greiða fyrir þessi einkafyrirtæki en önnur?
Ég skil vel,að ríkisstjórn Íslands vilji ekki hlaupa frá skuldbindingum sínum,þ.e. samkomulagi frá nóv. sl. En mér virðist samkomulagið hafa verið gert í fljótræði.Ísland ræður ekki við að greiða icesave reikningana með öllum vaxtakostnaði sem því fylgir og öllum kostnaði við IMF lánið.Það er að vísu ekkert farið að nota IMF lánið enn.Ég tel,að Ísland eigi að spretta upp Icesave samkomulaginu og segja einfaldlega:Ísland hefur ekki efni á því að greiða þessa reikninga.Íslandi ber ekki skylda til þess að greiða þá skv. tilskipun ESB.Ný ríkisstjórn hefur ákveðið að endurskoða samkomulagið frá nóv. sl. og getur ekki staðið við það.Þetta er betri kostur en að setja Ísland hugsanlega í þrot.
Björgvin Guðmundsson
Miðvikudagur, 11. febrúar 2009
Lögreglan bannar mótmæli við Seðlabankann
Um 30 manns eru við Seðlabanka Íslands og krefjast þess að Davíð Oddsson og Eiríkur Guðnason, seðlabankastjórar, segi af sér. Þetta er þriðji morgunninn í röð sem mótmælt er við bankann. Fólkið ber á potta og pönnur sem fyrr til að skapa sem mest læti. Lögreglan hefur dreift blaði til mótmælenda þar sem fram kemur að bannað sé að vera með læti á almannafæri og að sækja þurfi um leyfi til þess.(runv.is)
Ekki er gott,að mótmælendur trufli vinnu við vinnustaði eins og Seðlabankann.Því er eðlilegt að lögreglan bendi á,að slík truflun sé ekki heimil.Það þarf leyfi fyrir útifundum.
Björgvin Guðmundsson