Laugardagur, 28. mars 2009
Eva Joly tekin til starfa
Eva Joly, sérstakur ráðgjafi í rannsókn á efnahagshruninu, hefur formlega tekið til starfa. Ráðning hennar sem ráðgjafi sérstaks saksóknara var formlega kynnt á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Joly sagðist reyna eftir fyllsta megni að opna dyr bankaleyndar hér á landi sem erlendis, það taki tíma og krefjist mikillar vandvirkni.
Hún hefur ekki áhyggjur af því að rannsóknargögn hafi skemmst frá því bankakerfið hrundi í haust.
Erfitt sé að hylja slóðir í rafrænu viðskiptaumhverfi og því sé hún bjartsýn á að málin verði upplýst. Hún segir mikilvægast að fylgja peningunum til að komast til botns í því sem hér fór úrskeiðis.
Joly segir vinnuna koma til með að taka tíma. Erfitt geti reynst að nálgast gögn erlendis sem muni tefja rannsóknina hér heima. Dæmi séu um að sambærilegar rannsóknir hafi tekið fimm til sjö ár.
Joly mun starfa hér á landi fjóra daga í mánuði en þess á milli mun hún sinna starfinu frá heimaborg sinni, París.
Laugardagur, 28. mars 2009
Jóhanna formaður,Dagur varaformaður
Dagur B. Eggertsson er nýr varaformaður Samfylkingarinnar. Dagur fékk 65,6% atkvæða en Árni Páll Árnason fékk 33,9%.
Við ætlum að sameina þjóðina sem eini flokkurinn með plan. Við ætlum að sækja um ESB strax eftir kosningar og bjóðum til samstarfs með það, sagði Dagur þegar úrslitin voru ljós.
Dagur sagði það sjaldgæf forréttindi að etja kappi við jafnmikinn heiðursmann og Árna Pál. Hann hefði fulla trú á að hann myndi leiða Samfylkinguna til sigurs í Suðvesturkjördæmi.
Á kjörskrá voru 1.067 fundarfulltrúar en af þeim kusu 993, eða 93,1% gesta.
Árni Páll sagði það forréttindi að fá að vera í þessum flokki. Hann hefði oft áður stutt Dag og hann væri mjög góður til þessa verks í erfiðri kosningabaráttu framundan.(mbl.is)
Jóhanna Sigurðardóttir var kosinn formaður með´ yfir 97% atkvæða.
Björgvin Guðmundsson
Laugardagur, 28. mars 2009
Jóhanna sammála Ingibjörgu Sólrúnu
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar gerði upp á hreinskilinn hátt samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn í ræðu sinni við setningu landsfundar Samfylkingarinnar í gær. Þetta segir Jóhanna Sigurðardóttir, arftaki Ingibjargar í formannssæti. Hún er sammála Ingibjörgu Sólrúnu að það hafi verið Sjálfstæðisflokkurinn sem brást en ekki fólkið í flokknum.