Frv. um álver í Helguvík samþykkt. Þingi frestað

Frumvarp um heimild til samninga um álver í Helguvík var samþykkt á Alþingi nú í kvöld með þrjátíu og átta atkvæðum gegn níu en þrettán þingmenn voru fjarverandi. Þegar búið var að samþykkja frumvarpið var þinginu slitið af Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, bjallan glumdi og þingmenn féllust í faðma.

Þingmenn Vinstri grænna greiddu allir atkvæði á móti frumvarpinu en það gerði Mörður Árnason þingmaður Samfylkingar einnig. Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrrverandi umhverfisráðherra sat hjá.

Í lok þingsins tók Guðbjartur Hannesson forseti Alþingis til máls og hvatti alþingismenn og stjórnmálasamtök til þess að halda í góða og heiðarlega kosningabaráttu sem væri þingheimi til sóma. Hann þakkaði starfsfólki þingsins sem og þingmönnum samstarfið.

Því næst tók Arnbjörg Sveinsdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins til máls og þakkaði hlýjar kveðjur í sinn garð. Hún þakkaði starfsfólki þingsins sérstaklega það æðruleysi sem það sýndi þegar atburðirnir fyrir utan Alþingi stóðu sem hæst í janúar. Hún þakkaði þeim þingmönnum sem eru að láta af störfum samstarfið og óskaði þeim alls hins besta á nýjum vettvangi.

Arnbjörg sagði að kosningabaráttan sem nú væri framundan hafi verið gefinn óvernju stuttur tími. Hún vonaði hinsvegar að sú barátta yrði drengileg og þjóðinni allri til heilla. Hún bað þingmenn síðan að rísa úr sætum ef þeir tækju undir þessi orð hennar. Þingheimur reis úr sætum.

Því næst las Jóhanna Sigurðardóttir upp bréf sem hún ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni forseta rituðu í gær um að fresta þingstörfum. Hún óskaði þingmönnum og starfsmönum þingsins allra heilla og sagði þinginu frestað. Þá gall bjallan og þingmenn risu úr sætum og föðmuðu hvorn annan.(visir.is)

Þetta er óvenjulegt þing,sem nú hefur lokið störfum.Og styttsta kosningabaráttan er að hefjast,aðeins tæpir 8 dagar.

 

Björgvin Guðmundsson



Jóhanna:Næsta ríkisstjórn sæki um aðild að ESB

Forsætisráðherra sagði í ræðu sinni á ársfundi Seðlabankans í dag að sjaldan hefði slíkt ávarp verið haldið á meiri óvissutímum og rakti þær hugmyndir sem hún taldi skipta mestu til að eyða þeirri óvissu. Hún ítrekaði vilja sinn til að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu og sagðist þess fullviss að það yrði gæfuspor. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

,,Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína að eitt af forgangsverkefnum næstu ríkisstjórnar á að vera umsókn um aðild að Evrópusambandinu og upptaka Evru. Niðurstaða aðildarviðræðna mun leiða í ljós svart á hvítu þau tækifæri sem felast í aðild að Evrópusambandinu. Þá niðurstöðu
eigum við óhrædd að leggja í dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu," sagði forsætisráðherra orðrétt í ræðu sinni.

Og ráðherra bætti við: ,,Fyrir liggur að þjóðir sem ekki hafa tekið upp Evru, svo sem Danir, hafa notið aðstoðar Seðlabanka Evrópu og að bankinn hefur aðstoðað aðrar þjóðir svo sem Ungverja í þeirra erfiðu aðstæðum. Ég vil að samhliða aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði leitað
samninga um hvort og þá hvernig Seðlabanki Evrópu gæti komið að því að halda hér gengi stöðugu til skemmri tíma, eða þar til unnt væri að taka upp Evru hér á landi. Í Evrópuskýrslunni sem kynnt var fyrr í dag eru kostir og gallar þessara leiða reifaðar. Ljóst er að hvers kyns samvinna við Seðlabanka Evrópu myndi auka trúverðugleika Seðlabanka íslands og gera honum auðveldara að ná fram markmiðum sínum um stöðugleika."

Forsætisráðherra boðaði fækkun ráðuneyta og að þegar yrði á vegum forsætisráðuneytisins undirbúnar tillögur um að fækka þeim ráðuneytum sem hafa með löggjöf á sviði fjármálamarkaðar að gera og sem fyrst eftir kosningar sett á fót nefnd sem kanni nánar kosti og galla þess að auka samstarf milli Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins og eða sameina þessar tvær stofnanir. Í því starfi verði meðal annars metið hvernig megi stuðla að því að þessar stofnanir beiti eftirlitsheimildum sínum af fullum krafti.


Forsætisráðherra sagði einnig að nú væri tími til kominn að peningastefnun yrði endurskoðuð. Ráðerra sagði: ,,Ég hef því ákveðið að fela nýrri peningastefnunefnd Seðlabankans að fara yfir kosti og galla þess að breyta peningastefnunni og gera tillögu til stjórnvalda með hliðsjón af því
mati. (mbl.is)

Það var mikið efni í ræðu Jóhönnu: Boðuð aðild að ESB,fækkun ráðuneyta og ný peningastefna. Þetta eru allt stórfréttir.

 

Björgvin Guðmundsson

 


Eignir Kaupþings duga fyrir Edge- reikningum

Nú liggur fyrir að eignir Kaupþings eru nægar til að gera upp við þýska innstæðueigendur sem áttu fé inni á Kaupthing-Edge netreikningunum. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra tilkynnti þetta í framsögu sinni á ársfundi Seðlabanka Íslands rétt í þessu. Sagði hún þessa niðurstöðu vera mikið ánægjuefni.

Jóhanna sagði að heildarskuldir ríkisins yrðu nálægt 1.100 milljörðum króna í árslok 2009, en á móti kæmu miklar eignir. Neikvæð staða ríkissjóðs verði því um 150 milljarðar króna í lok árs 2009 ef spár ganga eftir. Hún varaði þó við því að brúttóskuldir ríkisins yrðu háar til skamms tíma vegna Icesave-skuldarinnar og vaxtagreiðslur háar.(visir.is)

Þetta eru ánægjulegar fréttir og áður hefur verið sagt,að sennilega muni eignir Landsbankans nægja  fyrir Icesave reikningunum.Vonandi verður svo.

 

Björgvin Guðmundsson

Fara til baka 


Jafnaðarstefnan veitir þau svör sem duga

Mikilvægasta verkefni næstu ríkisstjórnar er að tryggja aukna verðmætasköpun, atvinnu og velferð.

Íslenska þjóðin stendur á tímamótum. Að baki er hrun bankakerfisins og skipbrot efnahagsstefnu misskiptingar og sérhyggju. Við glímum einnig við afleiðingar verstu efnahagskreppu sem gengið hefur yfir heiminn í tæpa öld.
Við þessar aðstæður veitir jafnaðarstefnan ein þau svör sem duga. Jafnaðarmenn hafa lagt grunninn að velferðarsamfélögum Norðurlanda og tryggt meiri jöfnuð og betri samkeppnishæfni atvinnulífs en annars staðar þekkist.

Samfylkingin leggur áherslu á að jafnaðarstefnan verði það leiðarljós sem lýsi efnahagsstjórn okkar á næstu árum. Gætt verði fyllsta réttlætis við uppbyggingu efnahagskerfisins. Hagsmunum Íslendinga eftir kosningar 2009 verður best borgið með félagshyggjustjórn sem sækir um aðild að ESB og leggur samning í dóm þjóðarinnar.

Framangreint var samþykkt á síðasta landsfundi Samfylkingarinnar.

 

Björgvin Guðmundsson


Síðasti dagur alþingis fyrir kosningar?

Alþingi samþykkti í dag tillögu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra sem felur í sér að fundum þingsins verði frestað frá 16. apríl eða síðar ef nauðsyn krefur. Fjölmargir þingmenn kvöddu sér hljóðs í málinu en tillagan var að lokum samþykkt með 32 atkvæðum.

Á þessari stundu er óvíst hvenær þingfundi frestað en ekki hefur náðst samkomulag um þinglok og eru fjögur mál enn á dagskrá.

Alþingiskosningar fara fram eftir viku en Alþingi hefur aldrei áður starfað jafn nálægt kosningum og nú. (ruv.is)

Búist er við,að þingi verði frestað seinna í dag eða í kvöld.En þó er ekki loku fyrir það skotið,að þingið dragist fram á morgun.

 

Björgvin Guðmundsson


Ástþór fær að bjóða fram í öllum kjördæmum

Landskjörstjórn hefur úrskurðað að listar Lýðræðishreyfingarinnar í Reykjavíkurkjördæmum norður og suður séu báðir gildir. Lýðræðishreyfingin býður því fram lista í öllum kjördæmum landsins undir merkjum P-listans.

Yfirkjörstjórnir Reykjavíkurkjördæmanna úrskurðuðu listana ógilda, vegna þess að ekki var tekið fram í hvaða sæti frambjóðendur á listunum væru, en sá úrskurður var kærður til landskjörstjórnar sem úrskurðaði þá gilda.(visir.is)

Ég tel,að það hafi verið rétt að taka lista Lýðræðishreyfingarinnar gilda.Það styrkir lýðræðið að leyfa sem flestum að bjóða fram en vissulega verður að uppfylla lágmarksskilyrði.

 

Björgvin Guðmundsson


Atvinnuleysi mest meðal ungs fólks

Á fyrsta ársfjórðungi 2009 voru að meðaltali 12.700 manns án vinnu og í atvinnuleit eða 7,1% vinnuaflsins. Að sögn Hagstofunnar mældist atvinnuleysi 9,2% hjá körlum og 4,8% hjá konum. Þegar litið er til aldurs var atvinnuleysið mest meðal fólks á aldrinum 16-24 ára, eða 12,6%. Frá fyrsta ársfjórðungi 2008 til fyrsta ársfjórðungs 2009 fjölgaði atvinnulausum um 8.500 manns.

Á fyrsta ársfjórðungi 2008 voru að meðaltali 4200 atvinnulausir og mældist atvinnuleysi 2,3%. Atvinnuleysi mældist þá 2,5% hjá körlum og 2,2% hjá konum. Atvinnuleysi var mest meðal fólks á aldrinum 16-24 ára eða 6,5%.

Þeim sem hafa leitað að vinnu í einn mánuð eða meira hefur fjölgað frá fyrsta ársfjórðungi 2008 úr 1700 í 9900 á fyrsta ársfjórðungi 2009, eða um 8200. Á fyrsta ársfjórðungi 2009 leituðu 77,3% atvinnulausra að starfi einn mánuð eða lengur en 42,5% á fyrsta ársfjórðungi 2008.

Atvinnulausir teljast þeir sem ekki hafa atvinnu í viðmiðunarviku könnunarinnar, eru að leita að vinnu og geta hafið störf innan tveggja vikna eða hafa fengið vinnu sem hefst innan 3 mánaða.

 

Björgvin Guðmundsson

 

Fara til baka 


Sannleikurinn um kjör aldraðra

Stjórnmálamenn fara oft óvarlega með tölur. Þeim hættir til að nota þær til þess að fegra sinn málstað. Þannig segir Sjálfstæðisflokkurinn,að lífeyrir aldraðra hafi stórhækkað á 18 ára valdaferli flokksins en að raungildi hefur lífeyrir aldraðra rýrnað á þessu tímabili.Fulltrúar Samfylkingar segja,að lífeyrir aldraðara hafi hækkað um 42% á þeim tíma sem Samfylkingin hafi verið í stjórn.En þar af er 20% verðbólguhækkun.Auðvitað segir krónutöluhækkun lítið í 20% verðbólgu.Til viðbótar má nefna,að kaupmáttur launa  hefur  undanfarna mánuði lækkað um 10%. Það er  lítið eftir af 42% hækkun lífeyris.Það sem skiptir máli er kaupmáttur lífeyris og launa.Kaupmáttur lífeyris hefur sáralítið aukist og aðeins hjá þeim,sem hafa lægstan lífeyri og engan lífeyrissjóð.Sem betur fer er  það tiltölulega lítill hópur.Hinir hafa orðið fyrir kjaraskerðingu að raungildi til.Stjórnarflokkarnir báðir lofa að verja velferðarkerfið. Við skulum vona,að þeir leiðrétti kjaraskerðingu aldraðra og öryrkja og auki kaupmátt lífeyris

 

Björgvin Guðmundsson

 

 


Bloggfærslur 17. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband