Fimmtudagur, 23. apríl 2009
1 milljarður til byggingar hjúkrunarheimila o.fl.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur ákveðið að úthluta 952 milljónum króna úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Verður fénu varið til uppbyggingar hjúkrunarrýma, fækkunar fjölbýla á hjúkrunarheimilum, til endurbóta vegna öryggis- og aðgengismála, viðhalds á húsnæði og endurnýjun búnaðar og til uppbyggingar á félagsaðstöðu fyrir aldraða.
Alls voru um 1,4 milljarðar króna til ráðstöfunar í sjóðnum og er ráðgert að tæpum 450 milljónum verði úthlutað síðar á þessu ári.
Ákvörðun ráðherra er í samræmi við tillögur samstarfsnefndar um málefni aldraðra sem fer með stjórn sjóðsins og gerir tillögur til ráðherra um úthlutun samkvæmt lögum um málefni aldraðra, að því er segir á vef ráðuneytisins.
Hæstu framlögin renna til byggingar hjúkrunarheimilis við Suðurlandsbraut í Reykjavík, 341 milljón króna, hjúkrunarheimilis við Boðaþing í Kópavogi, 135 milljónir króna og hjúkrunarheimilisins Jaðars í Snæfellsbæ, 33 milljónir króna. Á öllum þessum stöðum er unnið að framkvæmdum. Auk þessa fara 115 milljónir króna í uppgjör vegna framkvæmda sem er lokið en voru óuppgerðar af hálfu heilbrigðisráðuneytisins, annars vegar 100 milljónir króna til hjúkrunardeildar á heilbrigðisstofnun Suðurlands og 15 milljónir króna til hjúkrunardeildar á Siglufirði.
Til verkefna sem miða að því að fækka fjölbýlum á hjúkrunarheimilum og bæta aðgengi og öryggismál verður varið 205 milljónum króna. Af þeirri upphæð eru um 80 milljónir króna sem greiddar eru vegna verka sem unnin hafa verið á undanförnum tveimur árum en reyndust dýrari en áætlað hafði verið, ekki síst vegna mikilla verðhækkana, samkvæmt vef ráðuneytisins.
Alls eru veittar 63 milljónir króna til bættar þjónustu- og félagsaðstöðu fyrir aldraða og 60 milljónir til ýmis konar viðhalds húsnæðis og endurnýjunar á búnaði. (mbl.is)
Framkvæmdasjóður er nú notaður til framkvæmda í þágu aldraðra eins og hann var stofnaður til.En á meðan Framsókn fór með þennan málaflokk var ráðstafað úr sjóðnum til alls konar gæluverkefna sem ekki var í samræmi við tilgang sjóðsins.
Björgvin Guðmundsson
Fimmtudagur, 23. apríl 2009
Gleðilegt sumar
Ég óska blokkvinum mínum og öðrum lesendum gleðilegs sumars og þakka fyrir veturinn.Nú er mikil þörf á góðu sumri og björtu.Við þurfum sól og gleði eftir drungalegan vetur og drunga í efnahagslífinu.Vonandi eru bjartari tímar framundan.
Hér ferá eftir fyrsta erindi í kvæði eftir Hörð Zophoníasson um vorið. Kvæðið heitir Vakandi vor:
Nú er langþráð blessað vorið vakandi
vorboðarnir úti í móa kvakandi.
Lífsglaðir
i hreiðri ungar iðandi
ár og lækir fara um gilin kliðandi.
Björgvin Guðmundsson
Fimmtudagur, 23. apríl 2009
Samfylkingin með 32,2% í Kraganum
Sterkasta vígi Sjálfstæðisflokksins, Kraginn, er hrunið samkvæmt nýrri könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins. Flokkurinn tapar nærri tuttugu prósentustigum í kjördæminu frá síðustu kosningum. Samfylkingin er stærst í Kraganum.
Það er ekki ofsagt að hið pólitíska landslag er að taka gríðarlegum breytingum þessar vikurnar. Þannig var samanlagt fylgi vinstri flokkanna í Kraganum minna en Sjálfstæðisflokksins í síðustu kosningum - í nýjustu könnun fréttastofu eru bæði Vinstri græn og Samfylking stærri en Sjálfstæðisflokkur.
Af þeim sem tóku afstöðu hyggjast 8,6% kjósa Framsókn sem heldur einum þingmanni. Fylgið heldur áfram að hrynja af Sjálfstæðisflokknum, sem fær í þessari könnun 23,1% - en fékk 42,6% í þessu kjördæmi fyrir tveimur árum. Kraginn var sterkasta vígi flokksins í síðustu kosningum og svo virðist sem nýr formaður sem leiðir listann þar hafi ekki náð að heilla kjósendur. Þeir missa þrjá af fimm kjördæmakjörnum þingmönnum. Frjálslyndir fá rúmt prósent en Borgarahreyfingin er í þessari könnun stærri en Framsókn og mælist hvergi sterkari, með 10,2 atkvæða og fengi einn mann á þing. Lýðræðishreyfingin fær innan við prósent, Samfylkingin bætir við sig frá síðustu kosningum og er stærsti flokkur kjördæmisins með 32,2% atkvæða. Vinstri grænir halda áfram að sópa til sín stuðningsmönnum og meira en tvöfalda fylgið frá síðustu kosningum og fengi nú 24,1 prósent atkvæða.
Án uppbótarmanna yrðu þetta þá þingmenn kjördæmisins.
Siv Friðleifsdóttir, Bjarni Benediktsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Þór Saari, Árni Páll Árnason, Katrín Júlíusdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Magnús Orri Schram, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Ögmundur Jónasson.
Björgvin Guðmundsson
Fimmtudagur, 23. apríl 2009
Vill ekki hækka skatta á fyrirtækjum
Össur Skarphéðinsson segir að ekki megi hækka skatta á fyrirtæki þrátt fyrir að rekstur ríkissjóðs sé erfiður um þessar mundir. Þetta kom fram í máli Össurar í þættinum Hvernig á að bjarga Íslandi" á Stöð 2 í dag. Össur, líkt og margir aðrir sem fram komu í þættinum, sagðist telja að nauðsynlegt væri að lækka stýrivexti Seðlabankans.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði kosningarnar sem framundan væru snerist fyrst um fremst um atvinnumálin. Það myndi ekki þýða að koma með skattahækkunartillögur sem myndu drepa fyrirtækin. Þorgerður sagði að sú tilraun sem hefði verið reynd árið 2001 með breytingum á Seðlabankanum hefði mistekist. Sjálfstæðismenn vildu reyna einhliða upptöku evru.
Atli Gíslason, frambjóðandi VG, sagði að Íslendingar þyrftu að halda yfirráðum yfir náttúruauðlindum sínum. Hann væri því á móti inngöngu í ESB. Hann sagði að hvert starf í Helguvík myndi kosta 150-200 milljónum. Hægt væri að skapa 10 störf önnur störf fyrir hvert starf í áliðnaði.(visir.is)
Það verður erfitt að leysa fjármálin,þegar ekki má hækKa skatta.Það er jafnerfitt að skera niður.
Björgvin Guðmundsson