Skattar ekki hærri en 2005-2007

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að núverandi ríkisstjórn muni ekki auka tekjur ríkissjóðs í gegnum skatta meira en var gert á árunum 2005 til 2007. Þá hafi skatttekjur ríkissjóðs verið um 35% af vergri landsframleiðslu. Þetta kom fram í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld.

Við munum ekki auka tekjur ríkissjóðs - og þá í gegnum skattaöflun - meira heldur en var t.d á árunum 2005 til 2007. Það eru nú ákveðin skilaboð í því, vegna þess á árunum 2005 til 2007 þá voru tekjur ríkissjóðs, sem hlutfall af landsframleiðslu, um 35%. En í þeirri áætlun sem við erum að skoða núna alveg til ársins 2013 þá eru tekjurnar einhversstaðar á bilinu 30-35% sem við ætlum inn í ríkissjóð,“ sagði Jóhanna í viðtali við Kastljósið.

„Það er alveg klárt að við munum beita allt öðrum vinnubrögðum heldur en að hefur verið gert við að því er varðar að ná niður hallanum. Við munum fara út í að forgangsraða. Við munum ekki fara niður í flatan niðurskurð af því að við erum að verja ákveðna hluta af velferðarkerfinu. Grunnþjónustuna og stöðu þeirra sem verst eru settir. En til þess að ná niður halla þá eru bara þrjár leiðir. Að auka tekjurnar, fara í hagræðingu - sem við munum gera mjög mikið af - og síðan er það niðurskurður,“ sagði Jóhanna ennfremur.(mbl.is)

Það eru góðar fréttir,að skattar skuli ekki þurfa að vera hærri en 2005-2007. Menn hafa verið hræddir um að miklar skattahækkanir væru yfirvofandi en svo er ekki.

 

Björgvin Guðmundsson

 

 

 

Fara til baka 


Kommaáróður gegn krötum

Mér fannst eins og ég væri að lesa Þjóðviljann í gamla daga,þegar ég las  grein Guðmundar Andra Thorssonar í Fréttablaðinu í dag.Þarna var ljóslifandi kominn gamli kommaáróðurinn gegn krötum. Guðmundur Andri  segir um leiðtoga Alþýðuflokksins: Foringjarnir litu út sem lyddur gagnvart erlendu valdi. Og : Kratarnir voru deigir. Og fleira í þessum dúr mátti lesa í grein Guðmundar Andra.  Íslenskir kommar hafa löngum stimplað krata á Íslandi sem  lyddur gagnvart erlendu valdi.En það voru einmitt íslenskir kommar,sem tóku við fyrirskipunum frá Moskvu og vörðu Moskvu kommúnismann  allt til hins síðasta.Ég hefði í sporum Guðmundar Andra látið kyrrt liggja á  sögulegum degi  fyrstu meirihlutastjórnar jafnaðar- og félagshyggjumanna á Íslandi.

 

Björgvin Guðmundsson   


Tillaga um viðræður við ESB kynnt stjórnarandstöðu

Drög að þingsályktunartillögu um aðild Íslands að Evrópusambandinu verða kynnt leiðtogum stjórnarandstöðunnar í dag. Stjórnarandstæðingar eru ófúsir til að gefa upp afstöðu sína til málsins fyrr en þeir hafa séð ályktunardrögin.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í gær kemur fram að utanríkisráðherra muni leggja fram á Alþingi tillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu á vorþingi. Samkvæmt heimildum fréttastofu liggja ályktunardrögin nú fyrir og verða þau að líkindum kynnt leiðtogum stjórnarandstöðuflokkanna á fundi nú síðdegis.

Þar verður meðal annars lögð áhersla á víðtækt samráð við hagmunaðila og Alþingi á meðan samningaviðræðum stendur, þannig verður sett á fót sérstök Evrópunefnd sem verður utanríkisráðherra til ráðuneytis. Þá má búast við að ákveðnir grundvallarhagsmunir verði tilgreindir í ályktuninni sem standa á sérstakan vörð um.

Um afdrif málsins á þingi er erfitt að segja. Gera má þó ráð fyrir að þingmenn Samfylkingarinnar greiði allir atkvæði með málinu. Þuríður Backman, þingmaður VG, hefur hins vegar staðfest við fréttastofu að hún og að minnsta kosti fjórir aðrir þingmenn flokksins geti ekki hugsað sér að greiða atkvæði með tillögunni eins og sakir standa. Þinghópur Borgarahreyfingarinnar styður málið að uppfylltum ákveðnum skilyrðum en hvorki Framsóknarmenn né Sjálfstæðismenn vilja gefa upp afstöðu sína fyrr en tillagan liggur fyrir og búið er að ræða hana í þingflokkunum.(ruv.is)

Það er gott  að  ríkisstjórnin drífi í því að kynna þetta stóra mál fyrir stjórnarandstöðunni.Reikna má með að Framsókn styðji tillöguna ef hún er ánægð með hana. En væntanlega verður orðalagi breytt í samræmi við óskir Framsóknar,þar eð flokkurinn er hlynntur aðildarviðræðum



Er búið að bæta kjör eldri borgara nóg?

Hvers vegna er ekkert minnst á kjör eldri  borgara í stjórnarsáttmálanum?Er það vegna þess að búið sé að bæta kjör eldri borgara nóg?Lítum á það. Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks setti lágmarksframfærslumið fyrir lífeyrisþega 1.sept. 2008. Var þá ákveðið að telja 25 þús. kr. greiðslu fjármálaráðuneytis til lífeyrisþega,sem ekkert hefðu úr lífeyrissjóði, með bótum almannatrygginga og bæta 1500 kr. við  á mánuði.Við það fóru lágmarksbætur aldraðra og öryrkja (einhleypinga)í 150 þús. fyrir skatta,130 þús.eftir skatta á mánuði. Þessar lágmarksbætur eru í  dag 180 þús kr. fyrir skatta og 150 þús. kr. eftir skatta.Það er langur vegur frá,að þessar upphæðir dugi fyrir framfærslukostnaði og miðað við meðaltalsútgjöld einstaklinga skv. neyslukönnun Hagstofunnar vantar mikið upp á en samtök eldri borgara telja  að miða eigi lífeyri aldraðra við neysluykönnun Hagstofunnar.Um síðustu áramót voru kjör 3/4 eldri borgara skert.

Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks  dró úr tekjutengingum þeirra sem eru í vinnumarkaði og afnam skerðingu lífeyris vegna tekna maka.Hvort tveggja var til mikilla bóta.En ekkert var gert í að draga úr skerðingu tryggingabóta vegna tekna úr lífeyrissjóði og kjör þeirra,sem ekki eru á vinnumarkaði voru lítið sem ekkert bætt.Það er því undarlegt,að málefni aldraðra séu nánast strikuð út úr stjórnarsáttmálanum!

 

Björgvin Guðmundsson 


Ekkert um aldraða í stjórnarsáttmálanum!

Það vekur athygli,að það er ekkert um kjör aldraðra í stjórnarsáttmálanum. Þar segir að bæta eigi aðstöðu barna og  fjölskyldna þeirra og  um það segir svo:

 Mikilvægasta verkefni velferðarþjónustunnar og leiðarljós við forgangsröðun í núverandi aðstæðum er að vernda hag og stöðu barna og fjölskyldna þeirra, sem og þeirra sem lakast standa í samfélaginu. 
Það kann að vera meðvituð ákvörðun stjórnarinnar að nefna ekki aldraða á nafn og ræða í stað þess um þá,sem lakast eru settir.Það sjónarmið hefur svo sem heyrst áður,að ekki eigi að taka aldraða út úr.Sé svo er þetta ný nálgun hjá stjórninni. 
Meira að segja,þegar rætt er um að æskilegt sé ,að aldraðir búi sem lengst í heimahúsum er orðið fólk komið í stað  orðsins aldraðir og þar segir:         

.
.
Stefnt verði að því að fólk geti búið heima eins lengi og kostur og vilji er til, meðal annars með því að samþætta heimaþjónustu og heimahjúkrun. Staðið verði við framkvæmdaáætlun um ný hjúkrunarrými fyrir aldraða.
Það sem ég hefi nú rakið staðfestir,að aldraðir munu ekki sækja  kjarabætur til vinstri stjórnarinnar.Aldraðir munu þurfa að heyja harða baráttu til þess að vernda sín kjör.Hugmyndir munu uppi um það að fella niður grunnlífeyri aldraðra í tengslum við frítekjumark ( 30 þús. kr.)vegna tekna úr lífeyrissjóði, þ.e. að taka með annarri hendinni það sem látið er með hinni.Slíkar hundakúnstir leysa engan vanda.
Björgvin Guðmundsson

Er stefna stjórnarinnar skýr?

Nú hefur langur og ítarlegur stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar verið birtur.Hvað segir hann okkur? Hvað vill ríkisstjórnin? Í nokkrum mikilvægum atriðum er stefnan skýr en í öðrum ekki.Stefnan er skýr varðandi ESB.Stjórnin vill sækja um aðild að ESB og tillaga þar um verður lögð fyrir alþingi.Stefnan er einnig skýr varðandi fiskveiðikvótana.Stjórnin vill innkalla þá á 20 árum og láta áætlun þar um taka gildi haustið 2010.Haft verður samráð við hagmsunaaðila í sjávarútvegi um framkvæmd málsins. En í ríkisfjármálum er stefnan ekki skýr. Það á að vísu að spara og skera niður og afla aukinna tekna en ekkert er fjallað um leiðir í þessu efni.Þar treystir ríkisstjórnin mikið á samráð við aðila vinnumarkaðarins og vill framkvæma málin í samráði við þá. Talað er um að halda áfram apð gera ráðstafanir í þágu heimila og fyrirtækja og gera auknar ráðstafanir ef þörf krefur.  Ríkisstjórnin segist vilja standa vörð um velferðarkerfið eins og kostur er.Ljóst er að lífeyrisþegar munu ekki sækja neinar kjarabætur til vinstri stjórnarinnar.Það verður fyrst og fremst um varnarbaráttu að ræða. Það er slæmt að síðasta verk ríkisstjórnar Geirs H. Haarde í lífeyrismálum skyldi vera að skerða lífeyri 3/4 lífeyrisþega um síðustu áramót og einnig kemur það okkur í koll nú að í "góðærinu" voru kjör lífeyrisþega ekki bætt heldur rýrð þar eð þau héldu ekki í við verðbólguna. Einhverjar tilfærslur verða gerðar hjá almannatryggingum,þ.e. fært frá þeim sem meira hafa til þeirra sem hafa verst kjörin.Það getur hjálpað í kreppunni en það er samt slæmt ef kjör hjá vissum lífeyrisþegum verða skert. Ríkisstjórnin lofar samráði vð hagsmunaðila og það mun væntanlega gilda varðandi breytingar hjá lífeyrisþegum.

 

Björgvin Guðmundsson


Verðmæti útfluttra sjávarafurða nam 181 milljarði sl. ár.Mikil aukning

Á árinu 2008 nam verðmæti útflutningsframleiðslu sjávarafurða 181 milljarði króna og jókst um 42,3% frá fyrra ári.

Þetta kemur fram í ritinu Útflutningur og útflutningsframleiðsla sjávarafurða 2008 sem birt hefur verið á vefsíðu Hagstofunnar.

Í ritinu kemur m.a. fram að framleiðslan mæld á föstu verði dróst hins vegar saman um 1,5%. Fluttar voru út sjávarafurðir að verðmæti 171,3 milljarðar króna og jókst verðmæti þeirra milli ára um 34,3%, en í magni um 12,5%.

Útflutt afurðaverðmæti allra aflategunda nema skel- og krabbadýrum og flatfiski jókst frá fyrra ári.

Líkt og undanfarin ár skiluðu frystar afurðir um helmingi útflutningsverðmætis. Af einstökum afurðum var verðmæti blautverkaðs saltfisks úr þorski mest, 14 milljarða króna.

Af heildarútflutningi sjávarafurða fór 79% til Evrópska efnahagssvæðisins, 6,3% til Asíu 6,2% og 5,6% til Norður Ameríku.

 

Björgvin Guðmundsson


Aðilar vinnumarkaðar taka stjórnarsáttmála vel

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segist í meginatriðum sammála nýrri ríkisstjórn um áherslur í efnahagsmálum. Forseti Alþýðusambandsins fagnar sáttmálanum og segir stöðugleikasáttmála vera í undirbúningi.

Í stjórnarsáttmála nýju ríkisstjórnarinnar segir að hún fagni frumkvæði aðila vinnumarkaðarins að samráði og samstöðu með ríki og sveitarfélögum um stöðugleikasáttmála. Það sé forgangsmál að ná breiðri samstöðu um markvissa áætlun í efnahags-, kjara- og félagsmálum á þeim grunni sem þegar hefur verið lagður í sameiginlegri vinnu aðila vinnumarkaðarins. Ríkisstjórnin sé reiðubúin til viðræðna um þau meginmarkmið sem sett hafa verið fram í þeirri vinnu.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambandsins, fagnar því að ríkisstjórnin hafi tekið upp tillögu vinnumarkaðarins að stöðugleikasáttmála. Lagt sé af stað með þau verkefni sem mestu máli skipti, bæði bráðaaðgerðir til næstu 100 daga en einnig stefnumörkun lengra inn í framtíðina. Verkalýðshreyfingin hafi lengi lagt áherslu á að samfélagið verði byggt upp að norrænni fyrirmynd. Hann fagni því að það sé komin ríkisstjórn sem hafi það að meginverkefni.

Gylfi vonast hann til þess að fastar verði tekið á vanda heimilanna. Þá líst honum vel á það að Seðlabankinn leiti leiða til að draga úr vægi verðtryggingar þótt hann telji að besta leiðin til lengri tíma sé að komast í stærra myntsamstarf. Gylfi segir að aðilar vinnumarkaðarins undirbúi í þessari viku viðræður við stjórnvöld um stöðugleikasáttmála. Hann býst við að málið verði unnið hratt. Fundur með stjórnvöldum hafi ekki verið tímasettur.

Í sáttmálanum kemur meðal annars fram að mikilvægustu verkefni ríkisstjórnarinnar næstu 100 dagana í efnahagsmálum séu á sviði ríkisfjármála, bankamála og að greiða úr skuldavanda fyrirtækja og heimila. Skapa þurfi forsendur fyrir áframhaldandi og hraðri lækkun vaxta og vinna markvisst að því að draga úr höftum í gjaldeyrisviðskiptum.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, óskar eftir góðu samstarfi við nýja ríkisstjórn um lausn á bráðavanda atvinnulífsins. Þá sé mikilvægt að vinna að stöðugleikasáttmálanum. Vilji stjórnarinnar til þessi komi einnig fram í sáttmálaunum. Vilhjálmur er í meginatriðum sammála ríkisstjórninni um áherslur í efnahagsmálum.

Einkum því að skapa atvinnu, lækka vexti, afnema gjaldeyrishöft, koma fjárfestingum af stað og skapa þær aðstæður að fyrirtæki þori að ráða fólk í vinnu. Þetta sé brýnt að gera. Að því leytinu til sé stjórnarsáttmálinn ágætur.
Vilhjálmur segist þó vera ósammála þeim leiðum sem fara eigi í sjávarútvegi. Einnig því að stofna eigi eignaumsýslufélög um illa stödd fyrirtæki. (ruv.is)

Það er gott að aðilar vinnumarkaðarins taka stjórnarsáttmálanum vel. Ríkisstjórnin heitir víðtæku samráði við aðila vinnumarkaðarins og mikil ábyrgð er lögð á þeirra herðar. Er ljóst,að aðilar vinnumaraðarins geta haft mikil áhrif á efnahagsamál og Evrópumál  meðan núverandi ríkisstjórn er við völd.

 

Björgvin  Guðmundsson

 

 

frettir@ruv.is


Bloggfærslur 11. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband