Þriðjudagur, 12. maí 2009
12000 eru alveg atvinnulausir
Um 12.000 Íslendingar eru nú án nokkurrar atvinnu. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, upplýsti á blaðamannafundi eftir fyrsta fund ríkisstjórnarinnar á Akureyri í dag, að á atvinnuleysisskrá væru 16.750 en um 4.700 þeirra væru í hlutastörfum; í hlutastörfum á móti bótum, í átaksverkefnum ýmis konar, á starfsþjálfunar- og reynsluráðningarsamningum, í nýsköpunarverkefnum eða í námstengdu starfi.
Það eru um það bil 4.700 störf sem þessi ríkisstjórn hefur skapað, fyrir fólk sem er þá virkt á vinnumarkaðnum þó það sé ekki í fullu starfi, sagði Jóhanna í dag.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði ánægjulegt að vöxtur atvinnuleysis hefði stöðvast og sagði raunar að aðeins hefði fækkað á skrá milli mars og apríl. Skv. þjóðhagsspá sem kynnt var í dag er gert ráð fyrir að atvinnuleysið verði um 9% að meðaltali í ár og, 9,6% að meðaltali á árinu 2010 og lækki niður í 7,5% árið 2011. Þetta eru auðvitað mjög háar tölur og miklu, miklu hærri en við viljum sjá og erum vön, en þó er hægt að hafa til samanburðar að þetta er svipað eða jafnvel lægra atvinnuleysi en er að finna að meðaltali víða í Evrópu og var þar landlægt, sums staðar, fyrir efnahagshrunið, sagði fjármálaráðherra.(mbl.is)
Það er að sjálfsögðu ekki rétt að telja þá sem eru í hlutastörfum alveg atvinnulausa.Hvernig svo sem þetta er talið er atvinnuleysið algerlega óásættanlegt og það bætir ekkert fyrir okkur,að atvinnuleysi sé jafnmikið eða meira í Evrópu.Það verður að ná atvinnuleysinu niður.Það verður með öllum tiltækum ráðum að útvega fólkinu atvinnu.Hraða þarf vaxtalækkun og öðrum ráðstöfunum í efnahagsmálum.Bankarnir verða að fara að starfa eins og alvörubankar..
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 12. maí 2009
Samtök fiskvinnslustöðva á móti fyrningarleið
Stjórn Samtaka fiskvinnslustöðva leggst eindregið gegn öllum tillögum og hugmyndum í Samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri Grænna um svokallaða fyrningarleið í sjávarútvegi og innköllun á öllum fiskveiðiheimildum á næstu tveimur áratugum.
Samtök fiskvinnslustöðva neita að trúa því fyrr en á reyni að stjórnvöld fari þessa leið. Fyrningarleiðin feli í sér að afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og atvinnuöryggi starfsfólksins verði kippt í burtu á fáeinum árum. Komist fyrningarleiðin til framkvæmda muni hún leiða til fjöldagjaldþrota í sjávarútvegi með ófyrirséðum afleiðingum fyrir starfsfólk fyrirtækjanna og þau sveitarfélög þar sem útgerð og fiskvinnsla er burðarás atvinnulífsins.
Samtök fiskvinnslustöðva benda á að sjávarútvegur gegni nú á nýjan leik lykilhlutverki í íslensku atvinnulífi. Fyrirtæki í sjávarútvegi hafi tekið miklum breytingum á undanförnum árum og nái verksvið margra þeirra til fiskveiða, fiskvinnslu og markaðssetningar sjávarafurða.
Stjórn Samtaka fiskvinnslustöðva skorar á ríkisstjórnina að hverfa frá áformum um fyrningarleið í sjávarútvegi og setjast heldur niður með fulltrúum hagsmunaaðila í sjávarútvegi og ræða þau viðfangsefni sem brenni mest á atvinnugreininni. (ruv.is)
Hér kemur fram sama afstaða og hjá LÍÚ.Þessir aðilar reka hræðsluáróður Það má færa rök fyrir því,að það sé einmitt kvótakerfið sem steypt hafi útgerðinni í miklar skuldir.Á tímabili græðgisvæðingarinnar tóku útgerðirnar stanslaust lán til þess að kaupa kvóta og braska með þá.Þær vildu alltaf kaupa meira og meira og skuldsetja sig æ meira. Skuldir útgerðarinnar í ´ríkisbönkunum nema nú um 500 milljörðum.Útgerðin getur ekki greitt þessar skuldir.Í rauninni er hún gjaldþrota.Ástandið er ekki svona vegna fyrningarleiðar. Það er svona vegna kvótakerfisins.Eini aðilinn,sem getur skorið útgerðina niður úr snörunni er ríkið,sem nú á bankana.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 12. maí 2009
Ríkisstjórnin kynnir sóknaráætlun fyrir Ísland
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, fjallaði á fyrsta fundi nýrrar ríkisstjórnar í dag um sóknaráætlun fyrir Ísland en ríkisstjórnin hyggst efna til viðtæks samráðs undir forystu forsætisráðuneytisins um sóknaráætlanir fyrir alla landshluta til eflingar atvinnulífs og lífsgæða til framtíðar.
Fundurinn var haldinn á Akureyri. Þar lagði Jóhanna fram hugmyndir um hvernig háttað verður málsmeðferð stórra mála á Alþingi, sem varða lýðræðisumbætur, t.d. frumvarps um persónukjör, frumvarps um þjóðaratkvæðagreiðslu og frumvarps um ráðgefandi stjórnlagaþing.
Hún kynnti jafnframt áform um vinnslu gagna sem skilgreina eiga stöðu lykilstærða í samfélags- og efnahagsmálum en þessi úttekt er hluti af 100 daga áætlun ríkisstjórnarinnar.
Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, kynnti þrjú frumvörp, sem lögð verða fyrir vorþing og Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, lagði fram fimm mál. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, lagði fram á ný frumvarp um eignaumsýslufélag en umfjöllun um það lauk ekki á síðasta þingi. Ennfremur fjallaði Steingrímur um Þjóðarbúskapinn, vorskýrslu ráðuneytisins um stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 12. maí 2009
Er Jón Bjarnason að gugna á innköllun?Brot á stjórnarsáttmála
Á vef RUV er skýrt frá viðtali við Jón Bjarnason,nýjan sjávarútvegsráðherra.Þar segir m.a.:
Hann vill ekki slá neinu föstu um innköllun aflaheimilda.Ef þetta er rétt eftir haft ætlar Jón að ganga gegn stjórnarsáttmálanum.Þar segir skýrum stöfum að leggja eigi grunn að innköllun aflaheimilda í áfönguml Jóhanna forsætisráðherra hefur talað mjög skýrt um þetta ákvæði sáttmálans og sagt,að aflaheimildir verði innkallaðar en haft verði náið samráð við hagsmunaaðila. .
Hér fer á eftir frásögn RUV af málinu:
Jón Bjarnason landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra boðar víðtækt samráð um endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar með það að markmiði að ná góðri sátt um sjálfbærar veiðar og trygga atvinnu fólks í sjávarbyggðunum. Hann vill ekki slá neinu föstu um innköllun aflaheimilda.
Stjórnarflokkarnir héldu hinni svonefndu fyrningarleið á lofti í aðdraganda kosninganna í vor. Hún byggist í grófum dráttum á því að veiðiheimildir verði innkallaðar í áföngum og endurútdeilt eftir nýjum reglum. Jón Bjarnason var á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun spurður hvað liði áformum um fyrningarleið. Hann ítrekaði að mikið samráð verði haft um fyrningarleiðina. Farið verði hægt í því máli. Jón lagði áherslu á að enginn ætti fiskveiðiauðlindina nema þjóðin. Núgildandi fiskveiðistjórnkerfi sé gallað og hafi leitt mikinn vanda yfir byggðir landsins í kjölfar kvótasölu. Taka verði á vandamálunum í samstarfi við alla hlutaðeigandi.
Jón Bjarnason er tekinn við af Steingrími J. Sigfússyni sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Fyrsti starfsdagur hans í embætti var í gær. Hann segist ætla að efna heit Steingríms um strandveiðar. Mikilvægt sé að opna möguleika fólks til að komast inn í fiskveiðarnar meðfram ströndinni. Veiðarnar yrðu stundaðar frá byggðunum, yrðu tengdar þeim og myndu færa aukið líf í sjávarbyggðirnar í kringum landið.
Jón segir að nú hljóti menn að leggja aukna áherslu á landbúnaðarframleiðslu til að tryggja fæðuöryggi, spara gjaldeyri og eiga möguleika á útflutningi. Ferðaþjónusta sé hluti af landbúnaðinum. Þar séu sóknarfæri og þar gegni sjálfseignarbóndinn lykilhlutverki.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 12. maí 2009
Laun toppanna hjá ríkinu verða lækkuð
Laun bankastjóra Íslandsbanka og Kaupþings munu lækka um að minnsta kosti 815 þúsund krónur verði launum starfsmanna ríkisins breytt þannig að engin hafi hærri laun en forsætisráðherra. Laun þeirra nema nú 1750 þúsund krónum eftir því sem komið hefur fram í fjölmiðlum, en forsætisráðherra hefur 935 þúsund krónur á mánuði samkvæmt upplýsingum úr ráðuneytinu. Laun bankastjóra Landsbankans nema 1500 þúsund krónum og eru því 565 þúsund krónum hærri en laun forsætisráðherra.
Hulda Gunnlaugsdóttir, forstjóri Landspítalans, hefur rétt rúmar 1390 þúsund krónur í laun á mánuði samkvæmt upplýsingum frá Kjararáði og er því með um 455 þúsund krónum meira en forsætisráðherra.
Samkvæmt upplýsingum frá Guðmundi Bjarnasyni, framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs, eru laun hans um 1218 þúsund krónur á mánuði og er því munur á launum hans og forsætisráðherra 283 þúsund krónur. Þá er Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, með 1250 þúsund krónur í laun eftir því sem fram kom í fréttum RÚV í gær. Það er 315 þúsund krónum meira en forsætisráðherra.
Fréttastofa hefur ekki fengið staðfest hver laun Páls Magnússonar útvarpsstjóra eru. Eftir að rekstrarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins var breytt í opinbert hlutafélag voru laun hans 1500 þúsund. Eftir það hafa stjórnendur upplýst að laun útvarpsstjóra hafi verið lækkuð um 15% eða 225 þúsund krónum. Laun hans gætu því verið um 1275 þúsund krónur sem myndi þýða 340 þúsund króna launalækkun fyrir hann, nái tillögur ríkisstjórnarinnar fram að ganga.
Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, treysti sér ekki til þess að gefa upp laun sín þegar fréttastofa hafði samband við hann í gær en sagði ljóst að hann væri með hærri laun en forsætisráðherra. (visir.is)
Ég tel,að lækka eigi laun toppanna hjá ríkinu mikið meira. Þeir eiga ekki að hafa laun eins og forsætisráðherra eða ráðherrar. Ég tel nóg,að topparnir hafi 5-700 þús. á mánuði og laun þeirra,sem eru næst fyrir neðan lækki hlutfallslega.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 12. maí 2009
Botninum náð á þessu ári
Það tekur Íslendinga 30 ár að uppfylla skilyrði Maastricht-sáttmála ESB um að heildarskuldir ríkissjóðs verði innan við 60% af landsframleiðslu. Þetta kemur fram í nýrri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins.
Skuldirnar eru nú 1500 milljarðar króna og nema ríflegri landsframleiðslu þessa árs. Gert er ráð fyrir álversframkvæmdum í Helguvík og í Straumsvík á næsta ári.
Fjármálaráðuneytið kynnti nýja þjóðhagsspá í morgun. Því er spáð að landsframleiðsla dragist saman um 10% í ár og þjóðarútgjöld um 20%. Þá er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði rúmt hálft prósent á næsta ári en í spánni er reiknað með því að ráðist verði í álversframkvæmdir í Helguvík og álverið í Straumsvík stækkað. Þannig verði hagvöxtur 5% árið 2011.
Atvinnuleysi verður 9% á þessu ári að jafnaði, samkvæmt spánni og 9,6% prósentustigum meira á næsta ári. Þá er því spáð að stýrivextir Seðlabankans verði að meðaltali rúm 4% á næsta ári og tæp 5% árið á eftir. Spáð er 10% verðbólgu í ár og að hún verði 1,6% á næsta ári.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði á blaðamannafundi um miðjan mars að íslenska ríkið skuldaði í heild 1100 milljarða króna. Þjóðhagsspá reiknast hins vegar þannig til að heildarskuldir ríkissjóðs verði á þessu ári tæpir fimmtán hundruð milljarðar króna. Þorsteinn Þorgeirsson skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu segir að mismunurinn kunni að felast í erlendum lánum.
í lok ársins verða skuldir ríkissjóðs eru 103% af landsframleiðslunni, samkvæmt þjóðhagsspá. Gert er ráð fyrir því að það taki 30 ár að koma skuldunum niður í sextíu prósent af framleiðslunni en það er eitt af Maastricth skilyrðunum.
Í spánni er ekki gert ráð fyrir mikilli styrkingu krónunnar. Því er spáð að gengisvísitalan verði 218 stig í ár á jafnaði svipuð á næsta ári en lækki í 203 stig árið 2011. Þá er gert ráð fyrir að botninum í íslensku efnahagslífi verði náð á þessu ári.(ruv.is)
Vonandi rætist það,að botninum í efnahagsmálum verði náð á þessu og síðan byrji hælgur bati.
Skuldir ríkisins eru aldrei reiknaðar eins. Nú eru reiknaðar með lántökur frá Norðurlöndum,sem ekki er búið að nota nema að litlu leyti.Ekki veit ég hvort lán IMF er reiknað með en það liggur óhreyft á banka í New York. Það væri til bóta ef opinberir aðilar gætu komið sérr saman um eina reikningsaðferð við útreikning skulda ríkisins.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 12. maí 2009
Það versta afstaðið?
Mögulega er það versta í íslensku efnahagslífi afstaðið og horfur gætu verið orðnar talsvert betri um næstu áramót. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli sérfræðinga á efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins, þegar þeir kynntu nýja þjóðhagsspá ráðuneytisins fyrir árin 2009 til 2014 í morgun.
Í þjóðhagsspánni segir, að sveigjanleg aðlögun í efnahagslífinu hér á landi sé stryrkur. Raunlaun hafi lækkað og verðsamkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja sé með besta móti. Aukin eftirspurn erlendis muni hjálpa til og stuðla að fjölgun nýrra starfa.
Þá segir í spánni að nauðsynlegt sé að ljúka endurreisn bankakerfisins, aflétta höftum á gjaldeyrismarkaði og treysta fjárhagsstöðu ríkissjóðs. Heimilin hafi orðið fyrir fjárhagslegu áfalli en yfir 90% séu enn í launaðri vinnu. Aðgerðir, sem ríkisstjórnin hafi ákveðið fyrir heimilin, hjálpi fjölskyldum í vandræðum yfir erfiðasta hjallann. Þá sé mikilvægt að liðka fyrir fyrirtækjarekstri og styðja við fjárfestingaráform til að auka atvinnu.
Efnahagsskrifstofa fjármálaráðuneytisins spáir því að verðbólga hér á landi verði 10,2% á þessu ári, en hún lækki hins vegar hratt og verði að jafnaði 1,6% á næsta ári og 1,9% árið 2011. Hins vegar gerir skrifstofann ráð fyrir því að atvinnuleysið aukist á næsta ári frá því sem nú er og verði þá að jafnaði 9,6% en 9,0% í ár. Draga muni úr atvinnuleysinu á árinu 2011 og að það verði þá að jafnaði 7,5%. Þessu spáir skrifstofan þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir því að ráðist verði í álversframkvæmdir í Helguvík og stækkun álversíns í Straumsvík. Ef ekki yrði hins vegar ráðist í þessar framkvæmdir myndi atvinnuleysið verða um 0,5 prósentustigum meira á árinu 2010 og liðla 1 prósentustigi meira á árinu 2011.
Í þjóðhagsspánni kemur fram að eiginfjárhlutfall Íslendinga í íbúðarhúsnæði hafi að jafnaði verið á bilinu 60-70% á umliðnum árum. Nú er hins vegar áætlað að þróun fasteignaverðs á árunum 2008 og 2009 leiði til þess að eiginfjárhlutfallið lækki í u.þ.b. 44% í árslok.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 12. maí 2009
Gleymum ekki málefnum eldri borgara
Þriðjudagur, 12. maí 2009
Vextir Íbúðalánasjóðs lækkaðir
Íbúðalánasjóður hefur lækkað vexti íbúðalána um 0,2 prósentustig. Lán með uppgreiðslugjaldi bera nú 4,7% vexti en lán án slíks gjalds 5,2% vexti.
Þetta er gert í kjölfar hagstæðs útboðs á íbúðabréfum.(ruv.is)
Þetta er góð þróun en vextir af íbúðalæanum þurfa að lækka mikið meira.Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir,að Íbúðalánasjóður eigi að starfa áfram í óbreyttri mynd.Sjálfstæðisflokkurinn vildi leggja sjóðinn niður eða breyta honum í heildsölubanka en sú hætta er nú úr sögunni.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 12. maí 2009
Jóhanna sýnir mikinn styrk og kjark
Kvótakóngar og aðrir fylgjendur kvótakerfisins sóttu hart að stjórnarflokkunum fyrir kosningar og áður en stjórnin var mynduð.Þeir beittu miklum hræðsluáróðri og reyndu að hrekja ríkisstjórnina af leið í kvótamálinu.Sögur voru komnar á kreik um að stjórnarflokkarnir væru fallnir frá innköllun veiðiheimilda. En svo var ekki. Jóhanna,forsætisráðherra,sýndi mikinn styrk og kjark í þessu máli.Hún lét ekki hrekja sig af leið. Hún heldur fast við innköllun veiðiheimilda en vill hafa samráð við hagsmunasamtök um framkvæmdina. Steingrímur stendur með henni í málinu.Hið sama má segja um ESB málið. Í því máli hefur Jóhanna einnig sýnt mikinn styrk og kjark. Það er erfitt að koma því máli í höfn með samstarfsflokkinn með aðra stefnu í málinu. En það fannst lausn og báðir stjórnarflokkarnir eru sammmála um hana,þ.e. að leggja tillögu um aðildarviðræður fyrir alþingi.
Mörg önnur stór mál bíða ríkisstjórnarinnar en þar ber hæst ríkisfjármálin.Í því máli eru þau Jóhanna og Steingrímur alveg samstíga.Þau vilja bæði skera niður ríkisútgjöld og afla nýrra tekna en standa vörð um velferðarkerfið eins og kostur er.Það þarf mikinn styrk og kjark til þess að takast á við öll þessi erfiðu verkefni en Jóhanna hefur sýnt hvort tveggja. Hún hefur vaxið sem stjórnmálamaður.
Björgvin Guðmundsson