Miðvikudagur, 13. maí 2009
Stjórnin kynnir skattabreytingar eftir helgi
Ríkisstjórnin ætlar að kynna áætlun sína um skattahækkanir fljótlega eftir að þing kemur saman. Jóhanna Sigurðardóttir sagði í gær að ríkisstjórnin myndi ekki taka hærra hlutfall af vergri landsframleiðslu til sín í gegnum skattkerfið en ríkisstjórn Geirs H. Haarde hefði gert í góðærinu.
Jóhanna sagði í samtali við mbl sjónvarp á Reykjavíkurflugvelli í gærmorgun að það væri ágætt að hafa til hliðsjónar að þótt skattar þurfi að hækka talsvert verði ríkið ekki að fá af því meiri tekjur en á síðustu árum. Unnið verði samkvæmt þeirri reglu að skattbyrði verði aukin hjá þeim sem megi við því frekar en þá sem hafi litlar og meðaltekjur. Sú regla verði líka höfð til hliðsjónar þegar komi að niðurskurði útgjalda. Aðspurð um hversu mikið tekjuskattur yrði hækkaður, svaraði Jóhanna að það muni liggja fyrir fljótlega eftir að þing kemur saman.(mbl.is)
Menn bíða spenntir eftir að heyra um skattatillögur ríkisstjórnarinnar. Búist er við að skattar á háum tekjum verði hækkaðir,einnig að fjármagsntekjuskattur hækki,jafnvel er hugsanlegt að virðisaukaskattur hækki eitthvað. En ekkert er þó víst í þessu efni enn.
Björgvin Guðmundsson
.
Miðvikudagur, 13. maí 2009
Fatnaður hefur hækkað um 50%. Gengið fallið um 80% á rúmu ári
Verð á fatnaði og skóm hefur hækkað um rúmlega 50 prósent frá því í janúar í fyrra. Brauð og kornvörur hafa hækkað um rúm 37 prósent á tímabilinu og mjólk, ostar og egg um tæp 32 prósent. Á sama tíma hefur kaupmáttur, það er munur á vísitölu neysluverðs og vísitölu launa, rýrnað um 9 til 10 prósent, að sögn Hennýjar Hinz, hagfræðings hjá Alþýðusambandi Íslands.
Þetta er þróun á einstökum liðum en hún segir manni auðvitað ekkert um einstök heimili. Það borga allir sama verð en afborganir af lánum hjá fólki og tekjur eru misjafnar. Ef við myndum skoða kaupmátt einhvers sem hefur misst vinnuna hefur kaupmáttur þess heimilis minnkað um tugi prósenta, bendir Henný á.
Hún segir gengisbreytingar skýra margt. Enginn efast um það. Áttatíu prósenta gengisfall frá því í upphafi árs 2008 segir sína sögu. Það má hins vegar ekki gleyma því að gengið skýrir ekki allt verðlag á vörum hér á landi. Verðlagið er samsett bæði úr innlendum og erlendum kostnaðarliðum. En laun hafa ekki hækkað á tímabilinu. Innlendur kostnaður, húsaleiga og annað vísar frekar niður á við núna þótt það hafi ekki gert það á öllu tímabilinu(mbl.is)
Þetta eru ljótar tölur.Matvörur hafa hækkað um 30-40% og skór og fatnaður um 50%. Kaupmáttur hefur minnkað um 10%. Þetta er mikil kjaraskerðing,sem bætist við hækkun afborgara og vaxta af húsnæðislánum en þar hefur allt hækkað bæði verðtryggð lán og myntkörfulán.
Björgvin Guðmuyndsson
Miðvikudagur, 13. maí 2009
Slakað á kröfum um klæðaburð á alþingi
Ekki verður lengur gerð sú krafa til alþingismanna að þeir séu með hálstau svo sem slifsi eða bindi. Það var forsætisnefnd Alþingis sem tók þessa ákvörðun. Nýir þingmenn sitja á skólabekk í dag þar sem þeir kynnast öllu því sem felst í þessu eftirsótta starfi, þingmennsku.Tuttugu og sjö nýir þingmenn taka sæti á Alþingi nú að loknum alþingiskosningum. Níu þingmenn eru nýir hjá Samfylkingu, sex þingmenn Vinstri grænna eru nýir og fimm hjá Framsókn. Þrír hjá Sjálfstæðisflokki og fjórir hjá Borgarahreyfingunni sem er nýtt stjórnmálaafl á Alþingi.
Björgvin Guðmundsson
Miðvikudagur, 13. maí 2009
Aldraðir og öryrkjar fái fulla verðlagsuppbót
Þing Landssambands eldri borgara er haldið í Hveragerði í dag og á morgun.Þar er m.a. fjallað um kjaramál eldri borgara..
Á aðalfundi Félags eldri borgara í Reykjavík í sl. mánuði var eftirfarandi samþykkt:
"Aðalfundurinn skorar á ríkisstjórnina að leiðrétta lífeyri aldraðra og öryrkja frá almannatryggingum þannig, að lífeyrir allra þessara lífeyrisþega fái fulla verðlagsuppbót frá 1. mars en um síðustu áramót fékk meirihluti lífeyrisþega skerta verðlagsuppbót og mátti því í raun sæta skerðingu á lífeyri sínum frá almannatryggingum. Um áramót fengu aðeins þeir, sem eru með lægstan lífeyri fullar verðlagsuppbætur, tæplega 20%, en aðrir lífeyrisþegar fengu aðeins 9,6% verðlagsuppbót."
Hér er aðeins farið fram á eðlilega leiðréttingu. Öryrkjabandalagið hefur haft það til athugunar hvort það væri lögbrot að svipta 3/4 hluta lífeyrisþega lögbundinni verðlagsuppbót.Hvað sem út úr þeirri athugun kemur er það sanngjarnt og eðlilegt að lífeyrisþegar fái verðlagsuppbót
Björgvin Guðmundsson
Miðvikudagur, 13. maí 2009
Steingrímur J.styður aðildarviðræður á þingi
Fjölmiðlar skýrðu frá því í gær,að Steingrímur J.Sigfússon formaður VG mundi að sjálfsögðu styðja tillögu á þingi um aðildarviðræður við ESB.Þetta var haft eftir Steingrími.Þetta eru góðar fréttir og styrkja málið verulega.Fréttablaðið segir frá því í dag,að meirihluti sé fyrir því á alþingi að samþykkja tillögu um aðildarviðræður við ESB.Blaðið hefur gert könnun á málinu.Þetta kemur ekki á óvart. Það er mikill vilji fyrir aðildarviðræðum.Þó er það svo,að yfirlýsingar formanns Framsóknar um málið hafa verið mjög loðnar enda þótt flokkurinn hafi um nokkurt skeið sagtst fylgjandi aðildarviðræðum., Nú er formaðurinn kominn í einhvern leik og segir alltaf að Framsókn ætli ekki að veita Samfylkingunni umboð til aðildarviðræðna. Hvað rugl er þetta. Það er ekki verið að veita neinum einum flokki umboð. Alþingi veitir að sjálfsögðu ríkisstjórn umboð til aðildarviðræðna nema annað sé tekið fram í tillögunni. En síðan er það ríkisstjórn sem ákveður viðræðurnefnd og sennilega verður það nefnd embættismanna með hliðsjón af því hvernig staðið var að málum við aðild að EES.
Þess verður að vænta,þegar um jafnstórt mál er að ræða og hugsanlega aðild að ESB,að stjórnmálamenn sýni ábyrgð í málinu og ekki síst stjórnmálaleiðtogar. Það er ekki unnt að vera alltaf í einhverjum leik.Málið er of alvarlegt til þess.
Björgvin Guðmundsson
Miðvikudagur, 13. maí 2009
Ísland styður Jóhönnu Guðrúnu
Það var mjög ánægjulegt,að Jóhanna Guðrún skyldi komast áfram í Eurovision í gærkveldi.Hún flutti íslenska lagið vel og stóð sig með prýði.Mér leist ekkert á blikuna,þegar búið var að draga út 9 umslög og Ísland var ekki komið á blað.En í 10.umslaginu kom nafn Íslands. Sagt var að dómnefndin hefði valið Ísland. Þetta voru miklar gleðifréttir og vonandi stendur Jóhanna Guðrún sig jafnvel í úrslitunum á laugardag. Ísland stendur með Jóhönnu Guðrúnu.
Björgvin Guðmundsson