ESB:Fyrirvarar verða gerðir um grundvallarhagsmuni Íslands

Í stefnuræðu forsætisráðherra um Evrópusambandið á alþingi fyrir nokkkrum dögum sagði ráðherrann m.a. eftirfarandi:

Í þeirri þingsályktunartillögu sem utanríkisráðherra mun leggja fram verða gerðir fyrirvarar um grundvallarhagsmuni Íslands um forræði yfir vatns- og orkuauðlindum og ráðstöfun þeirra, um forræði þjóðarinnar yfir fiskveiðiauðlindinni, um öflugan landbúnað, almannaþjónustu og réttindi launafólks og vinnurétt.

 Evrópusambandsaðild merkir ekki afsal auðlinda, hvorki í sjávarútvegi, orkumálum né landbúnaði. Evrópusambandið hefur sameiginlegar reglur um nýtingu sameiginlegra auðlinda, svo sem sameiginlegra fiskstofna, en eignarhald á auðlindunum er hjá viðkomandi aðildarríkjum. Þess vegna mun Evrópusambandsaðild ekki hafa áhrif á eignarhald á fiski í sjó, á endurnýtanlegum orkuauðlindum eða olíu á landgrunninu.

Það þarf samkomulag og sátt á meðal aðildarríkjanna um nýtingu fiskstofna sem færast á milli lögsögu aðildarríkjanna, rétt eins og Ísland hefur hingað til gert samkomulag við nágrannaríki um nýtingu deilistofna. Sú sátt byggir á sögulegri veiðireynslu þar sem tryggt er að hvert og eitt aðildarríki njóti óbreyttrar hlutdeildar í fiskstofnum.

Reglur Evrópusambandsins um hlutfallslegan stöðugleika munu tryggja að Ísland muni sem áður sitja eitt að öllum kvóta í staðbundnum stofnum í íslenskri lögsögu eftir aðild að Evrópusambandinu.

Umræðan um aðild Íslands að Evrópusambandinu og sjávarútveg má því ekki aðeins snúast um vörn og varnarhagsmuni. Íslenskir sjómenn búa yfir gríðarlegri þekkingu og hér eru sjávarútvegsfyrirtæki sem hafa burði til þess að keppa á frjálsum markaði hvar sem er í heiminum. Við getum sótt fram og byggt upp innan Evrópusambandsins.

 Hvorki ég né aðrir á Alþingi geta sagt til um hver verður niðurstaða samningaviðræðna við Evrópusambandið um sjávarútveg en ég fullyrði að samningsstaða Íslands er sterk. Hún er m.a. sterk vegna þeirrar framsýni og þess hugrekkis sem íslenska þjóðin sýndi þegar landhelgin var færð út í áföngum í 200 mílur. 

Björgvin Guðmundsson


Komið með peningana heim! Annars verða innistæður ykkar frystar

Komið með peningana  heim,sem eru í skattaskjólum  erlendis ,annars verða innistæður ykkar frystar! Þetta sagði  kanslari  Þýskalands við þá Þjóðverja,sem höfðu komið fjármunum undan og komið þeim fyrir á bankareikningum erlendis m.a. í skattaskjólum.  Og það merkilega gerðist,að þetta virkaði.Fjöldinn allur kom með peningana heim til Þýskalands.Menn vildu ekki taka áhættuna af því að innistæðurnar yrðu frystar.

Ríkisstjórn Íslands ætti að taka kanslara Þýskalands sér til fyrirmyndar. Stjórnin ætti að tilkynna þeim Íslendingum sem komið hafa fjármunum undan á reikninga erlendis og m.a. í skattaskjól að þessir aðilar verði að koma með fjármuni sína heim,ella verði innistæður þeirra frystar. Það kann að vera að í Þýskalandi hafi verið ríkari lagaheimildir en hér fyrir hendi til þess að grípa til ráðstafana eins og kanslari Þýskalands gerði.Ef svo er þarf að samþykkja á alþingi þær lagaheimildir sem vantar. Það verður að ná fjármununum heim.

 

Björgvin Guðmundsson


Telur verulega hættu á klofningi VG vegna ESB máls

Stjórnarmaður í félagi Vinstri grænna í Ölfusi og Hveragerði, segir á bloggsíðu sinni að það geti leitt til alvarlegs klofnings innan raða VG ef einstakir þingmenn flokksins sitja hjá í atkvæðagreiðslu um Evrópusambandstillögu á Alþingi. Segist Rafn sjálfur líta á slíkt sem svik við stefnu flokksins.

Rafn Gíslason vísar til ályktunar, sem samþykkt var á landsfundi VG í vetur þar sem  segir m.a., að Vinstrihreyfingin-grænt framboð telji nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins.  Sjálfsagt sé og brýnt að fram fari opin og lýðræðisleg umræða um samskipti Íslands og sambandsins og landsfundur VG leggi áherslu á að aðild íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

„Nú í samningaviðræðum Vinstri Grænna og Samfylkingar bregður hinsvegar svo við að ákveðið er að leggja aðildar umsókn fyrir alþingi til ákvörðunar með fulltingi VG. Einnig var gefin út yfirlýsing af hálfu formanns Vinstri Grænna að flokkurinn færi óbundin í þá atkvæðagreiðslu og að þingmenn flokksins myndu greiða atkvæði eftir sannfæringu sinni. Þetta þykir mér heldur loðin svör svo ekki sé meira sagt. Hvað var verið að samþykkja á landsfundinum í mars varðandi afstöðu flokksins til ESB?  Ef ekki á að taka afgerandi afstöðu í þingflokknum með hliðsjón af stefnu hans og samþykktar landsfundarins í þessu máli þá þykir mér fokið í flest skjól og verið að hafa ályktun landsfundarins að engu," segir Rafn.

Hann bætir við að nú sé að koma í ljós að einhverjir þingmenn VG  telji sig ekki bundna af þessari ályktun og ekki sé annað að heyra í fréttum en að formaðurinn sé því samþykkur.

„Ég sem félagi og stjórnarmaður í félagi Vinstri grænna í Ölfusi og Hveragerði krefst þess að flokksforystan  og þingmenn gangi hreint til verks og skýri afstöðu sína fyrir okkur félagsmönnum sem höfum starfað fyrir félagið í þeirri góðu trú að flokkurinn stæði við gefnar yfirlýsingar. Ég mun líta svo á að ef einhverjir þingmenn VG ætla sér að sitja hjá við væntanlega atkvæðagreiðslu og ef að það verður til þess að af aðildarumsókn verður samþykkt í þinginu þá mun ég líta svo á að um svik við stefnu flokksins sé að ræða og þá kjósendur sem kusu VG á forsendum fyrri yfirlýsinga hans í garð ESB.

Ég hef þá trú að margur ESB andstæðingurinn muni eiga erfitt með að kyngja slíkri niðurstöðu og tel reyndar að veruleg hætta sé á að það geti leitt til alvarlegs klofnings innan raða VG ef sú yrði raunin. Ég ætla því að vona að þingmenn Vinstri Grænna hafi það í huga  þegar að atkvæðagreiðslu kemur," segir Rafn.(mbl.is)

Mér finnst  Rafn Gíslason taka nokkuð djúpt í árinni.Að sjálfsögðu  geta þingmenn greitt atkvæði eftir sannfæringu sinni og eru ekki bundnir af neinum flokkssamþykktum miðað við þann eiðstaf,sem þeir hafa undirritað.Ég fæ ekki séð að forustumenn VG séu að svíkja eitt eða neitt. Formaðurinn og fleiri hafa tekið það skýrt fram,að þeir telji að Ísland eigi að vera utan ESB en það er ekki þar með sagt,að þeir leggist gegn aðildarviðræðum.Aðildarvið'ræður leiða í ljós hvað er í boði fyrir Ísland og hugsanlegur aðildarsamningur fer  undir þjóðaratkvæði.Það er því þjóðin sem ræður.

 

Björgvin Guðmundsson

 


 


Það vantar nýtt úrræði fyrir skuldug heimili

 

Ríkisstjórnin hefur komið í framkvæmd mörgum úrræðum fyrir skuldug heimili og fyrirtæki,sem ráða illa við afborganir af lánum.Nú síðast kom til framkvæmda greiðsluaðlögun vegna veðskulda einstaklinga. (15.mai.sl.) En þó vantar enn eitt úrræði fyrir skuldug heimili. Það vantar úrræði fyrir heimili,sem ráða illa eða ekki við greiðslur afborgana af lánum en hafa með þrautseigju haldið lánum  sínum í skilum.´Greiðsluaðlögun,sem tók gildi 15.mai sl. gerir ráð fyrir,að menn séu komnir eða  að komast í þrot og þá eigi þeir að snúa sér til héraðsdóms,sem úrskurðar málinu.Margir eru neikvæðir gagnvart þessu úrræði og vilja ekki fara fyrir héraðsdóm. Það þarf nýtt úrræði,sem  gerir ráð fyrir niðurfellingu hluta skulda, ef skuldari getur sýnt fram á,að hann hafi ekki nægar tekjur til þess að standa undir afborgunum.Það á ekki að bíða eftir að menn komist í þrot,það á ekki að hrekja menn í þrot.

 

Björgvin Guðmundsson


Bloggfærslur 21. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband