Þriðjudagur, 26. maí 2009
Rætt um að festa gengið
Á fundum aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda, og undirnefnda þeirra, um svonefndan stöðugleikasáttmála hefur verið um það rætt að festa gengi krónunnar miðað við gengisvísitöluna 160 til 170, samkvæmt heimildum mbl.is.
Er meðal annars horft til þess að fastgengisstefnan gæti auðveldað heimilum og fyrirtækjum að takast á við vandamál sem fylgt hafa gengisfalli krónunnar síðastliðið ár. Gengisvísitalan er nú 230. Miðað við hana kostar evran 177 en miðað við vísitöluna 160 til 170 myndi evran kosta um 125 krónur. Þetta myndi létta á skuldabyrði þeirra sem skulda í erlendri mynt og auðvelda nýju bönkunum að bregðast við gengisáhættu sem er á milli eigna þeirra og skulda.
Undirnefndir aðila vinnumarkaðarins, þ.e. atvinnulífsins og verkalýðsforystunnar, og stjórnvalda hafa að undanförnu kallað til sín sérfræðinga og fyrirtækjastjórnendur til þess að ræða það sem framundan er í íslensku efnahagslífi. Samkvæmt heimildum mbl.is hafa forystumenn í iðngreinum, þar á meðal Samtökum iðnaðarins, dregið upp dökka mynd af verkefnastöðu á næstu misserum og þá sérstaklega frá haustmánuðum. Þetta hefur valdið mönnum áhyggjum og er ríkur vilji til þess að bregðast við með aðgerðum, ef svigrúm verður til þess.
Þá hefur komið fram hjá fulltrúum Seðlabanka Íslands að nauðsynlegt sé að hraða vinnu við aðgerðaáætlun í ríkisfjármálum, samkvæmt heimildum mbl.is. Það sé forsenda þess að mögulegt verði að lækka vexti frekar til að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Stýrivextir eru nú 13 prósent.(mbl.is)
Þetta eru athyglisverðar hugmyndir.Ég tel það vel koma til greina að festa gengið í ákveðinn tíma.
Björgvin Guðmundsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 26. maí 2009
Þunnur þrettándi!
Þing Landssambands eldri borgara var haldið í Hveragerði í síðustu viku.Helgi K.Hjálmsson var endurkjörinn formaður sambandsins. Árni Páll Árnason nýr félagsmálaráðherra og Stefán Ólafsson formaður Tryggingaráðs fluttu ræður. Ég spurði einn þingfulltrúa hvort eitthvað markvert hefði komið fram í ræðunum.Hann svaraði: Þetta var þunnur þrettándi!
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 26. maí 2009
ESB:Grundvallarhagsmunir Íslands verði tryggðir
.Í greinargerð með tillögu um aðildarviðræður við ESB segir svo m.a.:
Ísland sem Evrópuþjóð vill leggja sitt af mörkum við uppbyggingu lýðræðislegrar Evrópu sem grundvallast á félagslegu réttlæti, jafnrétti og virðingu fyrir manngildi og umhverfi. Hlutverk Evrópu er að vera hornsteinn mannréttinda í heiminum og ýta undir stöðugleika, sjálfbæra þróun, réttlæti og velmegun um allan heim.
Málsaðilar áskilja sér rétt til að mæla með eða leggjast gegn samningnum þegar hann liggur fyrir enda eru settir margvíslegir fyrirvarar við hugsanlegan stuðning við málið.
Meðal grundvallarhagsmuna Íslands eru:
* Að tryggja forræði þjóðarinnar yfir vatns- og orkuauðlindum og ráðstöfun þeirra.
* Að tryggja forræði þjóðarinnar yfir fiskveiðiauðlindinni, sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar og hlutdeild í deilistofnum og eins víðtækt forsvar í hagsmunagæslu í sjávarútvegi í alþjóðasamningum og hægt er.
* Að tryggja öflugan íslenskan landbúnað á grundvelli fæðuöryggis og matvælaöryggis.
* Að tryggja lýðræðislegan rétt til að stýra almannaþjónustu á félagslegum forsendum.
* Að standa vörð um réttindi launafólks og vinnurétt.
* Að ná fram hagstæðu og vaxtarhvetjandi samkeppnis- og starfsumhverfi fyrir atvinnulíf á Íslandi um leið og sérstöðu vegna sérstakra aðstæðna er gætt.
Ljóst er af framansögðu,að ríkisstjórn Íslands er staðráðin i því að standa vörð um grundvallarhagsmuni Íslands í aðildarviðræðum við ESB.Ef ekki tekst að tryggja þessa hagsmuni verður ekkert af samningi eða þá að samningurinn verður felldur.
Björgvin Guðmundsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 26. maí 2009
Þjónustutilskipun ESB innleidd hér
Ríkisstjórn Íslands samþykkti í morgun að innleiða þjónustutilskipun Evrópusambandsins en skýr fyrirvari var settur við um að Íslendingar afsali sér ekki lýðræðislegu valdi yfir almannaþjónustunni í afgreiðslu ríkisstjórnar og er hann efnislega samhljóð fyrirvara sem Norðmenn gerðu.
Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra taldi afar brýnt að setja skýran fyrirvara í tengslum við samþykkt þjónustutilskipunarinnar, fyrirvara sem snýr sérstaklega að heilbrigðisþjónustunni og almannaþjónustu almennt.
Ennfremur telur heilbrigðisráðherra brýnt að við innleiðingu tilskipunarinnar hafi það ráðuneyti sem stýri innleiðingarferlinu hliðsjón af þessum áherslum ríkisstjórnarinnar og að tilskipunin verði því innleidd með þeim hætti sem skapi mest svigrúm íslenskra stjórnvalda til að hafa bein áhrif á ákvarðanir í málum sem ráðherra telur vera grundvöll velferðarþjónustunnar í landinu, að því er fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Ögmundur segir að það hafi því miður vilja brenna við í tímans rás, að tilskipanir frá Brussel væru samþykktar í ríkisstjórn án fyrirvara og, að því er honum hefur stundum virst, jafnvel án athugunar og ígrundunar.
Nú hefur verið innleitt nýtt vinnulag hvað þetta varðar og er það stórt skref fram á við. Hvað þjónustutilskipunina varðar þá hef ég komið að henni í langan tíma á vettvangi evrópskrar verkalýðshreyfingar. Þar tókst að koma fram lagfæringum frá upphaflegu útgáfunni.
Með fyrirvara Íslands á að vera girt fyrir ágang markaðsaflanna að heilbrigðisþjónustunni. Þess vegna stend ég ekki lengur í vegi fyrir innleiðingu hennar enda hefði slíkt í för með sér að þjónustusamningar við öll EES ríkin væru í uppnámi samkvæmt túlkun á EES samkomulaginu, segir Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra. (visir.is)
Það er gott,að ákveðið hefur verið að innleiða þessa þjónustutilskipun.Ef það hefði ekki verið gert hefði allur EES samningurinn verið í uppnámi.
Björgvion Guðmundsson
Þriðjudagur, 26. maí 2009
Nýr seðlabankastjóri skipaður í júní?
Það styttist í að skipaður verði nýr bankastjóri við Seðlabanka Íslands. Nefnd sem metur hæfi umsækjenda mun skila af sér þann 5. júní.
Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, segist ekki hafa upplýsingar um það hvenær skipað verði í stöðuna. Umsækjendur um stöðuna muni fá tækifæri á að tjá sig um þær umsagnir sem hæfisnefnd mun gefa um þá og það muni taka einhvern tíma. Þá muni forsætisráðherra þurfa einhvern tíma í að taka ákvörðun.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 26. maí 2009
Nýtt efnahags-og viðskiptaráðuneyti verður stofnað
Helstu breytingar sem gerðar verða á skipulagi innan stjórnarráðsins eru þær, að stjórn efnahagsmála verður færð frá forsætisráðuneyti og fjármálaráðuneyti til nýs efnahags- og viðskiptaráðuneytis. Þetta kom fram á blaðamannafundi forsætisráðherra, fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra með blaðamönnum fyrir hádegið í dag.
Efnahagsskrifstofa forsætisráðuneytisins, Hagstofan og Seðlabanki Íslands flytjast yfir á svið hins nýja ráðuneytis 1. september næstkomandi í fyrsta áfanga og um næstu áramót. Frá fjármálaráðuneytinu fara þangað gerð þjóðhagsáætlana og þjóðhagsspár frá efnahagsskrifstofu. Eignarhald ríkisins í opinberum hlutafélögum verður fært til hins nýja ráðuneytis sömuleiðis.
Frumvarp forsætisráðherra um þetta hefur nú verið samþykkt í ríkisstjórn og verður nú sent þingflokkum stjórnarflokkanna til meðferðar. Frumvarpið verður svokallaður ,,bandormur".
Önnur aðalatriði í frumvarpinu eru þau að menntamálaráðuneytið mun eftirleiðis heita mennta- og menningarmálaráðuneyti. Þá verða ýmsar menningarmálastofnanir fluttar frá forsætisráðuneytinu þangað, svo sem Gljúfrasteinn og Þjóðmenningarhúsið, Vesturfarasetur og Grænlandssjóður.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið mun eftirleiðis heita dóms- og mannréttindamálaráðuneyti og samgöngumálaráðuneytið mun eftirleiðis heita samgöngu og sveitarstjórnarmálaráðuneyti. Þessi tvö ráðuneyti eiga svo að flytjast í eitt ráðuneyti í lok kjörtímabilsins, innanríkisráðuneyti.
Þá verður Norðurlandaskrifstofa flutt úr forsætisráðuneytinu í utanríkisráðuneytið.
Neytendamál munu flytjast frá viðskiptaráðuneytinu til hins nýja dóms- og mannréttindamálaráðuneytis, svo sem ýmis verkefni Neytendastofu.
Eignarhald ríkisins í opinberum hlutafélögum verður fært frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu til fjármálaráðuneytisins. Sem dæmi um slík félög má nefna Íslandspóst, landskerfi bókasafna, þróunarfélag Keflavíkurflugvallar og Ríkisútvarpið. Fleiri atriði koma fram í frumvarpinu að sögn ráðherra.
Sagði Jóhanna Sigurðardóttir við blaðamenn að þessar breytingar myndu gera ráðuneytin mun skilvirkari og að viðkomandi verkefni myndu eiga mun betur heima á hinum nýju stöðum í stjórnkerfinu. (mbl.is)
Þessar breytingar í stjórnarráðinu eru sjálfsagt til bóta.Árið 1970 voru sett lög um Stjórnarráð Íslands og þá voru stór ráðuneyti klofin í sundur svo sem atvinnumálaráðuneytið.Nú eru ráðuneyti á ný sameinuð.Þannig er gangurinn.Sjálfsagt er gott að hafa öll efnahagsmál undir einum hatti.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 26. maí 2009
Taka bankarnir Exista?
Stjórnendur Exista og stærstu kröfuhafar félagsins deila nú um framtíð félagsins. Skilanefndir bankanna ásamt Nýja Kaupþingi mynda stærsta hóp kröfuhafa og vilja að Exista verði skipt upp í sjálfstæðar einingar.
Þetta myndi þýða að félög á borð við VÍS, Símann og Lýsingu yrðu tekin út úr Exista og rekin sem sjálfstæð fyrirtæki með eigin yfirstjórnir. Telja kröfuhafarnir að með þessu sé hægt að hámarka andvirði eignanna betur en ef núverandi fyrirkomulagi er haldið áfram. Málið mun hafa verið rætt við erlenda kröfuhafa Exista sem einkum eru bankar og fjármálastofnanir í London.
Stjórn Exista er alfarið á móti þessum hugmyndum og telur hag félagsins betur borgið ef fyrrgreind fyrirtæki verði áfram innan Exista. Nokkur bréfaskrif hafa verið milli aðila en engin niðurstaða fengin.
Árni Tómasson formaður skilanefndar Glitnis segir að menn séu einfaldlega að leita að bestu leiðunum til að hámarka andvirði eigna Exista. Ekki standi til að selja neitt af eignunum við núverandi markaðsaðstæður
Menn eru að skoða ýmsa möguleika og væntanlega finnst einhver lausn á málinu bráðlega," segir Árni en vill að öðru leyti ekki tjá sig um málið.
Skilanefnd Kaupþings vill heldur ekki tjá sig um málið og svarar fyrirspurn á þá leið að nefndin tjái sig ekki um viðskipti einstakra aðila og telji þetta Exista-mál vera þess eðlis.(visir.is)
Exista er í raun gjaldþrota og valið stendur um það hvort krafist verði gjaldþrots eða hvort kröfurkafar yfirtaka fyritækið. Bankarnir munu vilja setja stjórnendur Exista af strax þar eð þeir treysta þeim ekki.M.a. tóku stjórnendur stór lán til hlutabréfakaupa og hafa ekki greitt þau.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 26. maí 2009
Verðbólgan 11,6 %.minnkar aðeins
Tólf mánaða verðbólga mælist nú 11,6% sem er nokkru meira en greiningardeildir áttu von á. Verðbólgan minnkar þó frá í apríl er hún mældist 11,9%.
Flestir töldu að mælingin yrði undir 11% nema greiningardeild Kaupþings sem gerði ráð fyrir 11,1% verðbólgu.
Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 11,6% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 15,5%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,98% sem jafngildir 4,0% verðbólgu á ári (10,2% fyrir vísitöluna án húsnæðis).
Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í maí 2009 er 339,8 stig og hækkaði um 1,13% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 316,1 stig og hækkaði hún um 1,44% frá apríl.
Verð á bensíni og díselolíu hækkaði um 4,9% (vísitöluáhrif 0,22%) og verð á bílum um 4,9% (0,17%).
Kostnaður vegna eigin húsnæðis hækkaði um 1,0% (0,14%). Áhrif af hækkun markaðsverðs voru 0,18% en á móti komu áhrif af lækkun raunvaxta um -0,04%. Verð á mat og drykkjarvöru hækkaði um 0,8% (0,11%). Verð á flugfargjöldum til útlanda hækkaði um 22,6% (0,17%).
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 26. maí 2009
Ísland heldur auðlindum sínum við aðild að ESB
Margir andstæðingar aðildar Íslands að ESB hafa haldið því fram,að Ísland missti yfirráð yfir náttúruauðlindum sínum við aðild að ESB.Það er rangt.Auðlindanefnd Sjálfstæðisflokksins fjallaði um málið og sagði svo m.a. í áliti nefndarinnar: Niðurstaða undirritaðra er,að aðild að sambandinu muni ekki valda verulegum breytingum á málefnum er tengjast raforku,vatni,jarðvarma,olíu og gasi.Aðild að ESB hefði engin áhrif á yfirrráð Íslands yfir Drekasvæðinu.´
Til frekara öryggis er það tekið fram í tillögu ríkisstjórnarinnar um aðildarviðræður við ESB ,að áskilið sé að Ísland haldi fullum yfirráðum yfir náttúruauðlindum sínum,þar á meðal fiskimiðunum.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 26. maí 2009
Vilja fækka háskólum hér í tvo
Hagkvæmast væri að aðeins tveir háskólar starfi hér á landi í framtíðinni. Þetta er niðurstaða nefndar erlendra sérfræðinga sem skoðað hefur menntakerfið hér á landi.
Í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks var skipuð nefnd erlendra sérfræðinga til að fara yfir og reyna að meta hvernig best væri að skipuleggja menntun hér á landi í framtíðinni. Nefndin skilaði niðurstöðum í gær. Nefndarmenn leggja áherslu á að ekki verði skorið niður í menntakerfinu. Mesta möguleika á hagræðingu virðast þeir sjá á háskólastiginu. Í dag eru sjö háskólar starfræktir hér á landi en nefndin vill fækka þeim niður í tvo. Annarsvegar yrði það einkaháskóli þar sem Háskólanum í Reykjavík, Bifröst og Listaháskólanum yrði steypt saman. Hinsvegar yrði það ríkisskóli, byggður upp í kring um Háskóla Íslands. Þar inni yrðu allir núverandi ríkisháskólarnir. Með þessu næðist fram hagræðing, meðal annars hvað varðar yfirstjórn. Þetta þýðir ekki að skólar á landsbyggðinni yrðu lagðir niður. Þvert á móti er lögð áhersla á að útibú á landsbyggðinni verði starfrækt áfram.(ruv.is)
Sjálfsagt væri til bóta og fjárhagslega hagkvæmt að fækka háskólum eitthvað hér á landi.En ef til vill er of rótækt að fækka þeim úr 7 í 2. Hér mætti fara milliveg,.
Björgvin Guðmundsson