Fimmtudagur, 11. júní 2009
Viðræður halda áfram í Karphúsinu
Viðsemjendur í Karphúsinu vilja fá nánari upplýsingar frá ríkisstjórninni um forgangsröðun aðgerða sem ráðast á í í ríkisfjármálum. Þeir vilja að ríkisstjórnin opni meira á það ferli sem í gangi er í ráðuneytum. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að ríkisstjórnin ætti að birta lista yfir hugmyndirnar á vefsíðum ráðuneytanna.
Viðsemjendur á vinnumarkaði áttu í dag langan fund með fjárlaganefnd um fjárlagagerðina fyrir 2009 og útlitið til næstu ára. Tóku fulltrúar stjórnarandstöðunnar þátt í viðræðunum.
Við höfum undirbúið okkur undir að sameinast í Karphúsinu um hvað okkur finnst mikilvægast og viðkvæmast, segir Gylfi. Það er víða verið að búa til einhverja lista yfir hvað væri hægt að gera, án þess að það séu beinar tillögur, segir hann og bendir á að sumar þessara hugmynda hafi lekið til fjölmiðla þó þar sé ekki um neinar ákveðnar tillögur að ræða.
Mér finnst alveg sjálfsagt að ráðherra kynni þetta fyrir helstu hagsmunaaðilum og þeim sem þessar hugmyndir hafa áhrif á. Þarna er eingöngu sett fram hvað er verið að skoða vegna þess að menn standa frammi fyrir erfiðum ákvörðunum, segir Gylfi. Hann bendir á að félags- og tryggingamálaráðherra hafi kynnt viðsemjendum í Karphúsinu ákveðnar hugmyndir um hvað hægt væri að gera án þess að hann hafi gert þær að sínum tillögum.
Mér finnst að ríkisstjórnin eða hvert ráðuneyti ætti að vinna svona lista og það eigi einfaldlega að birta þá á heimasíðum þeirra þannig að landsmenn geti séð hvað verið er að skoða. Það er alveg ljóst að sumt er viðkvæmara en annað. Einhverjir fara því í varnarstöðu en aðalatriðið er að mér finnst nauðsynlegt að opna þetta ferli svo þjóðin fái að vita út á hvað þetta gengur, að það geti verið opnari pólitísk forgangsröðun um hvar eigi að grípa niður og hvar ekki, segir Gylfi.
Hann segir að fréttir hafi borist af einstökum hugmyndum af kannski um 250 hugmyndum sem menn séu að skoða og engar tillögur verið gerðar um, eins og t.d. um sparnað hjá Fæðingarorlofssjóði. Það er mikilvægt að menn átti sig á því að ríkisstjórnin hefur ekki sett neitt af þessu fram sem tillögur, segir Gylfi. Á endanum beri þó stjórnarmeirihlutinn ábyrgð á því að draga saman niðurstöður úr þessu öllu.
Björgvin Guðmundsson
Fulltrúar launþegasamtakanna óskuðu eftir því á fundi í Karphúsinu í dag að fá að hitta fulltrúa fagráðuneytanna. Við viljum fá nánari fréttir af forgangsröðun í heilbrigðismálum og menntamálum, í samgöngumálum og fleiri málum. Það er líka gott að fá að vita hvað ríkisstjórnin sér fyrir sér að gert verði í utanríkismálum, gagnvart sendiráðum o.fl., segir Gylfi.
Formenn aðildarfélaga ASÍ hafa verið boðaðir til fundar á morgun til að fara yfir stöðuna í viðræðunum um stöðugleikasáttmála.