Þriðjudagur, 16. júní 2009
16 milljarða skattahækkanir
Átta prósenta hátekjuskattur verður lagður á tekjur umfram sjö hundruð þúsund krónur og 15 prósenta viðbótarskattur á fjármagnstekjur umfram tiltekna fjárhæð, samkvæmt efnahagstillögum ríkisstjórnarinnar sem hún stefnir á að leggja fyrir Alþingi á fimmtudag. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun, að hátekjuskatturinn gefi um 2,5 milljarða í tekjur á þessu ári og um fjóra milljarða á ársgrundvelli. Þá mun fjármagnstekjuskatturinn skila um sex milljörðum.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að fjármagnstekjur af hóflegum sparnaði fólks verði ekki skattlagður sérstaklega en hún og fjármálaráðherra vildu ekki gefa upp hvar mörkin komi til með að liggja í þeim efnum að svo stöddu. Mestu munar hins vegar um hækkun tryggingagjalds, sem er tekjustofn Atvinnuleysistryggingasjóðs. Áætluð hækkun gjaldsins mun skila ríkissjóði um 12 milljörðum króna á ársgrundvelli.
Þegar Steingrímur var spurður hvort fyrirtækin í landinu þyldu þennan viðbótarskatt, sagði hann þessa skattheimtu vissulega leggjast þungt á atvinnulífið. Þessi mál sem önnur hefðu verið rædd á sameiginlegum vettvangi stjórnvalda, Samtaka atvinnulífsins (SA) og Alþýðusambandsins (ASÍ) og forystumenn þeirra samtaka þekktu því vel til tillagna stjórnvalda.
Sjóðir Atvinnuleysistryggingasjóðs eru óðum að þorna upp. Forsætisráðherra segir að athugun hafi leitt í ljós að um 10 % þeirra sem eru á atvinnuleysisbótum ættu ekki að vera á bótum. Félagsmálaráðherra væri að vinna að úrbótum í þessum efnum sem kynntar yrðu bráðlega.
Samanlagt eiga aðgerðir stjórnvalda að skila með auknum tekjum og sparnaði ríflega 20 milljörðum í ríkissjóð á þessu ári og eiga breytingarnar að taka gildi frá og með 1. júlí. Reiknað er með að tillögurnar verði kynntar þingflokkum stjórnar og stjórnarandstöðu á fimmtudag og að umræður um þær geti hafist á föstudag. Mikil áhersla er lögð á að klára s.k. stöðugleikasamning stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins fyrir 25. júlí næst komandi, því um mánaðamót rennur út frestur til að segja upp gildandi kjarasamningum.
Hörð krafa hefur verið gerð af hálfu aðila vinnumarkaðarins um frekari lækkun stýrivaxta en Seðlabankinn ætlar ekki að tilkynna um vaxtaákvörðun fyrr en eftir mánaðmót. Fjármálaráðherra sagði að Seðlabankinn þekkti til þeirra umræðna sem átt hefðu sér stað að undanförnu, en vildi að öðru leyti ekki svara því hvort hann teldi að Seðlabankinn birti ákvörðun um stýrivexti fyrir mánaðamót.(visir)
Aðgerðir ríkisstjórnar í ríkisfjármálum eru smátt og smátt að skýrast.Mér líst ekki illa á skattahækkanir stjórnarinnar, 8% hækkun á skatt yfir 700 þús.,hækkun tryggingargjalds og hækkun fjármagnstekjuskatts.Þetta er allt nauðsynlegt og hinum lægst launuðu er að mestu hlíft.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 16. júní 2009
Lélegur árangur samninganefndar um Ice save
Árangur samninganefndar um Ice save er mjög lélegur.Samninganefndin var undir forystu Svavars Gestssonar sendirherra.Hann hefur enga sérþekkingu á fjármálum eða lögfræði og var þvi alls ekki hæfur til þess að leiða svo mikilvæga samninganefnd um alþjóðaviðskipti sem þessa. Er það furðulegt,að fjármálaráðherra skyldi skipa Svavar formann nefndarinnar. Hann hefði getað verið í nefndinni en alls ekki sem formaður.
Samið var um að Ísland ætti að greiða svo háar upphæðir til Breta og Hollendinga vegna Ice save,að litlar sem engar líkur eru á Ísland geti greitt þær.Það hefði verið lágmark,að lánið hefði verið vaxtalaust.Eg skal rökstyðja hvers vegna Ísland hefði getað farið fram á það: Það er ekkert í tilskipun ESB,sem segir,að ríki eigi að greiða spariinnlán, ef tryggingasjóður innistæðna getur ekki greitt. Með hliðsjón af því bar íslenska ríkinu engin skylda til þess að greiða Ice save reikningana.Ísland átti því aðeins að ljá máls á greiðslu eða ábyrgð, að samningur væri mjög hagstæður.t.d vaxtalaus. Einnig hefði átt af sömu ástæðu að setja í samninginn,að greiðslur mættu ekki vera meiri en t.d. 1% af landsframleiðslu á ári. Önnur ástæða fyrir því,að Island hefði átt að fá sérstaklega hagstæðan samning er sú,að Bretar stórsköðuðu ´´Island með setningu hryðjuverkalaga á landið. Sú gerð olli Íslandi ´ómældum skaða.
Í þessu máli hafði Ísland lögin ( reglurnar) sín megin.Það skiptir engu máli þó mörg ESB ríki hafi sagt,að íslenska ríkið ætti að borga. Þessi ríki áttu þá að finna því stað í tilskipun ESB,að kveðið væri á um ábyrgð ríkja.Þau ákvæði finnast ekki.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 16. júní 2009
Sparnaðartillögur lagðar fram í ríkisstjórn í dag
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra mun í dag kynna fyrir ríkisstjórninni aðgerðir í ríkisfjármálum sem miða að því að ná fram markmiðum sem sett voru fram í efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) og íslenskra stjórnvalda eftir hrun bankakerfisins síðastliðið haust.
Fyrsta skrefið af mörgum í ríkisfjármálunum verður þar með stigið. Fyrir liggur að brúa þarf um 20 milljarða gat á þessu ári miðað við það sem áður var áætlað. Á fjárlögum fyrir árið í ár var gert ráð fyrir að fjárlagahallinn yrði rúmlega 150 milljarðar en nú bendir allt til þess að hann verði milli 170 og 180 milljarðar.
Þennan mun ætlar ríkisstjórnin fyrst og fremst að brúa með skattahækkunum en einnig með því að skera niður útgjöld. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins verður ráðuneytum gert að draga saman rekstrarútgjöld um eitt prósent a.m.k. á þessu ári sem kemur til móts við hækkun skatta. Sé mið tekið af heildarrekstrargjöldum ráðuneyta ættu að sparast 2 til 3 milljarðar króna með þessum niðurskurði. Þar mun mest mæða á heilbrigðis- og menntamálaráðuneytinu enda útgjöldin þar mest.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa margir þeirra sem tekið hafa þátt í viðræðum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir í efnahagsmálum talið að lengra þurfi að ganga í niðurskurði. Þetta á ekki aðeins við um fulltrúa aðila vinnumarkaðarins, heldur einnig þingmenn í stjórnarflokkunum báðum.
Áherslan hefur hins vegar verið lögð á að halda áætluninni sem lagt var upp með í samstarfi við IMF. Samkvæmt henni er ráð fyrir því gert að ríkissjóður verði hallalaus í lok árs 2012. Niðurskurðaráform muni fyrst og fremst koma fram í fjárlögum næsta árs og árunum tveimur þar á eftir.
Skattahækkunum og þar með auknum tekjum ríkisins er því ætlað standa undir um 80% af því sem þarf til að brúa fyrrnefnt 20 milljarða bil á þessu ári.(mbl.is)
Hlutskipti ríkisstjórnarinnar er ekki öfundsvert. Það þarf að hækka skatta og skera niður til þess að loka fjárlagagatinu.Ég tel skynsamlegt að fara þá leið sem ríkisstjórnin ætlar að fara að taka sparnaðinn að mestu í auknum sköttum á þessu ári og hefja niðurskurð næsta ár. Þó mun einnig verða lítilsháttar niðurskurður á þessu ári eða um20% sparnaðarins.Alls á að spara um 20 milljarða í ár.
Björgvin Guðmundsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 16. júní 2009
Brown: Farið hefur fé betra
Gordon Brown,forsætisráðherra Breta er með allt niðrum sig.Hann sótti það fast að taka við leiðtogasæti breska Verkamannaflokksins af Tony Blair og hafði sitt fram en síðan hefur leiðin hjá Verkamannaflokknum legið niður á við.Fylgi Verkamannaflokksins hefur stöðugt dregist saman undir stjórn Brown.Blair gerði mikil mistök með því að styðja ´´Iraksstríðið en í innanlandsmálum stóð hann sig vel. Og hann hafði mikinn kjörþokka en sá þokki finnst ekki hjá Brown.
Ég tel,að best væri fyrir Brown að segja af sér og rýma fyrir nýjum leiðtoga,sem gæti rétt Verkamannaflokkinn við.Brown kom svínslega fram við Íslendinga,setti hryðjuverkalög á þá og skaðaði íslensku bankana mikið,einkum Kaupþing.Við eigum alveg eftir að fá bætur fyrir þann skaða sem Brown olli Íslendingum.Ekki kemur til greina að láta það mál niður falla,hvað sem líður Icesave samkomulaginu.Við eigum rétt á miklum skaðabótum og við eigum að sækja þær.
Brown hefur með atferli sínu spillt samstarfi Íslands og Bretlands um langa framtíð. Það tekur langan tíma að gróa milli landanna ef það gerir það nokkurn tímann.Brown á hér alla sök á. Þess vegna segi ég: Farið hefur fé batra.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 16. júní 2009
50 milljarða lán hjá Kaupþingi til hlutabréfakaupa algert hneyksli!
Stjórnendur og hluthafar Kaupþings létu greipar sópa um fjárhirslur bankans og tóku 50 milljarða að láni til hlutabréfakaupa.Þeir létu persónulegar tryggingar á móti lánunum.Rétt fyrir bankahrunið ákvað stjórn Kaupþings (bankastjórn) að fella persónulegu ábyrgðirnar niður.Sú ákvörðun sætti gífurlegri gagnrýni og þótti siðlaus með öllu. Lántakendur og hlutabréfakaupendur ákváðu þá að persónulegu ábyrgðirnar skyldu standa.En nú segir stjórn Kaupþings,að ekki sé unnt að breyta fyrri ákvörðun og persónulegu ábyrgðirnar séu því fallnar úr gildi. Þetta er algert rugl.Maður skyldi ætla,að lántakendur sjálfir réðu því hvort þeir væru með persónulegar ábyrgðir fyrir lánunum eða ekki.En í öllu falli hlýtur gerð fyrri stjórnar Kaupþings að vera ólögmæt með öllu.Með því að fella niður persónulegu ábyrgðirnar var verið að skaða bankann um 50 milljarða.En því virðast engin takmörk sett hvað stjórnendur gömlu bankanna gátu leyft sér,tekið sjálfir ofurlaun,lánað vinum og vandamönnum,tugi milljarða með litlum eða engum tryggingum og skuldsett bankana erlendis svo mjög,að þeir fóru í þrot.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 16. júní 2009
Þjóðverjar höfðu í hótunum við Íslendinga
Menn geta deilt um það hvort bréf þýskra stjórnvalda til skilanefndar Kaupþings sé hótunarbréf eða þrýstingur segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Í bréfinu, sem var birt í dag, kemur fram að það geti valdið gífurlegum stjórnmálalegum skaða fyrir orðstír Íslands, ekki bara í ljósi endurskoðunar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, fái þýskir innstæðueigendur ekki greitt.
Fréttastofa Stöðvar 2 greindi frá því fyrir um tveimur vikum að þýsk stjórnvöld hefðu sent hótunarbréf til skilanefndar Kaupþings eftir að ljóst var að breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki kæmu í veg fyrir að hægt væri að greiða þýskum sparifjáreigendum innstæður sínar á Edge reikningum. Í kjölfarið óskaði viðskiptanefnd Alþingis eftir því að sjá bréfið en það var birt á fundi nefndarinnar í dag.
Í bréfinu, sem er sent frá þýska fjármálaráðuneytinu,stendur: Það myndi valda gífurlegum stjórnmálalegum skaða fyrir orðstír Íslands sem ábyrgur og trúverðugur samstarfsaðili ef þetta bærist út, ekki bara í ljósi yfirstandandi endurskoðunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Við viljum ekki að svo fari en við þurfum trausta skuldbindingu frá félögum okkar á Íslandi."
Í samtali við fréttastofu í dag sagði Gylfi Magnússon að bréfið endurspegli bara að Þjóðverjar hefðu haft áhyggjur af stöðu mála og öllum hafi verið gerð grein fyrir þeim.(visir.is)
Mér virðist bréf Þjóðverja hreint hótunarbréf. Og nú alveg ljóst,að ekki aðeins Bretar höfðu í hótunum við Íslendinga heldur einnig IMF og Þjóðverjar.
Björgvin Guðmundsson