Föstudagur, 10. júlí 2009
Steingrímur J. um ESB: Erfitt mál fyrir VG
Steingrímur J. Sigfússon sagði á Alþingi í dag að ESB málið væri bæði stórt og erfitt og hefði reynst flokki sínum erfitt. VG hafi mótað þá flokkslegu stefnu að ekki þjónaði hagsmunum landsins að ganga inn í ESB. Hins vegar hafi hlutirnir þróast og að innan raða hans væru nú fleiri sem vildu láta á reyna hvað væri í boði.
Steingrímur sagði þjóðina klofna í málinu; flokksmenn allra stjórnmálaflokkanna væru klofnir í því og sömuleiðis væri kjósendabakland allra flokkanna skipt. Atvinnulífið væri klofið í afstöðu sinni og skoðanir væru sömuleiðis skiptar innan verkalýðshreyfingarinnar í málinu.
Hins vegar væri ljóst að málið væri á dagskrá og að það muni ekki hverfa, hverjar sem lyktir þess verði. Flokkur hans hafi gert erfiða málamiðlun þegar gengið var til stjórnarsamstarfs við Samfylkinguna. Sumir myndu kalla það fórn. Og menn spyrja hvernig má það vera?"
Hann rakti að ríkisstjórnin hefði ekki orðið til án þessarar málamiðlunar og taldi sennilegt að svipuð staða hefði verið uppi í málinu hefði fyrri ríkisstjórn lifað af."
Miklu máli skipti að meirihluti þingmanna virðist nú telja að að því sé komið að láta á aðildarviðræður reyna. Málið hafi alltaf verið umdeilt hjá þeim þjóðum sem hafi gengið til viðræðna, svo staðan nú væri ekkert einsdæmi. Hann spurði hvort það væri slæmt að vafi, fyrirvarar og gagnrýni væri uppi meðal stjórnarliða þegar lagt væri upp í þessa vegferð? Liði mönnum betur með að hér hefði náð saman eindreginn aðildarumsóknarhópur sem hefði staðið heill á bak við að keyra landið inn í ESB? Gæti ekki verið betra að skipt sjónarmið séu innan ríkisstjórnar og á Alþingi?"
Steingrímur sagði VG áskila sér allan rétt til að hafna samningnum og að leggja til að samningaviðræðum verði hætt hvenær sem væri. Hann taldi best að byrja á að ræða erfiðustu málin, s.s. sjávarútveg, landbúnað og gjaldeyrismál. Kæmi í ljós að ekki fengist ásættanleg niðurstaða í þau mál væri ástæðulaust að halda viðræðunum áfram.
Hann varaði þó við því að menn teldu að í aðild að ESB gæti falist lausn á okkar vanda landsins.(mbl.is)
Fróðlegt verður að sja hvort einhverjir þingmenn VG greiða atkvæði á móti aðildarviðræðum. Ef til vill bjarga Sif og Guðmundur Steingríms málinu.

Föstudagur, 10. júlí 2009
Vandað álit utanríkismálanefndar um ESB
Utanríkismálanefnd alþingis lagði ESB málið fyrir alþingi í dag.Nefndin samdi mjög ítarlegt og vandað álit um málið og mælti með samþykkt tillögu utanríkisráðherra um að sótt yrði um aðild.Tillagan er um að Ísland sendi umsókn um aðild að ESB. Nefndin lagði til,að bætt yrði inn í tillöguna ákvæði um að við umsókn og í viðræðum yrði vegvísir ,sem fram kemur í áliti utanríkismálanefndar, lagður til grundvallar.
Björgvin Guðmundsson
Föstudagur, 10. júlí 2009
Þorskkvótinn skorinn niður um 10 þús. tonn
Þorskkvótinn á næsta fiskveiðiári verður 150 þúsund tonn, samkvæmt ákvörðun Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um leyfilegan heildarafla fiskveiðiárið 2009-2010. Þetta er tíu þúsund tonnum minna en heimilt er að veiða yfirstandandi fiskveiðiári. Ýsukvótinn verður skertur verulega, hann fer úr 93 þúsund tonnum í 63 þúsund tonn.(mbl.is)
Þegar þörf er a að auka þorskkvótann vegna kreppunnar þá sker sjávarútvegsráðherra kvótann niður.Ljóst er,að ráðherra hefur algerlega látið embættismenn stjórna ákvörðun sinni. Hann hefur ekki þorað að ganga gegn þeim. Fyrri ráðherrar þessa málaflokks hafa hins vegar oft tekið eigin ákvarðanir þó þær væru ekki alveg í samræmi við Hafró.
Björgvin Guðmundsson
![]() |
Föstudagur, 10. júlí 2009
Atvinnuleysi minnkar lítillega
Skráð atvinnuleysi í júní 2009 var 8,1% eða að meðaltali 14.091 maður og minnkar atvinnuleysi um 3,5% að meðaltali frá maí eða um 504 manns. Á sama tíma á árinu 2008 var atvinnuleysi 1,1% eða 1.842 manns.
Vegna árstíðasveiflu eykst áætlað vinnuafl í 174.500 manns í júní eða um rúm 6.700 sem hefur áhrif á reiknað atvinnuleysishlutfall til lækkunar.
Atvinnuleysi er nú mest á Suðurnesjum 12,1% en minnst á Vestfjörðum 1,8%. Atvinnuleysi breytist lítið á höfuðborgarsvæðinu en minnkar um 13,7% á landsbyggðinni. Alls staðar dregur úr atvinnuleysi á landsbyggðinni. Hlutfallslega dregur mest úr atvinnuleysi á Austurlandi eða um 101 manns og fer atvinnuleysi þar úr 4,1% í 2,5%.
Atvinnuleysi eykst um 4,6% meðal kvenna en minnkar um 8,1% meðal karla. Atvinnuleysið er 8,6% meðal karla og 7,4% meðal kvenna, að því er fram kemur á vef Vinnumálastofnunar.
Langtímaatvinnuleysi eykst og þeir sem verið hafa á skrá lengur en 6 mánuði voru 5.624 í lok júní en 4.836 í lok maí og eru nú um 36% allra á atvinnuleysisskrá. Þeir sem verið hafa atvinnulausir í meira en ár voru 509 í lok júní en 435 í lok maí. Atvinnulausum 16-24 ára hefur fækkað úr í 3.734 í lok maí í 3.526 í lok júní og eru um 23% allra atvinnulausra í júní.
Alls voru 1.101 laus störf hjá vinnumiðlunum í lok júní sem er fjölgun um 158 frá því í mánuðinum áður þegar þau voru 943. Þess skal geta að mörg þessara starfa eru ýmis sérstök tímabundin störf og vinnumarkaðstengd úrræði. Flest laus störf voru meðal ósérhæfðs starfsfólks eða 377, og 251 meðal sölu og afgreiðslufólks.
Alls voru 1.803 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok júní, þar af 1.120 Pólverjar eða um 62% þeirra útlendinga sem voru á skrá í lok júní. Fækkun útlendinga á skrá nemur 200 frá maí. Langflestir þeirra voru starfandi í byggingariðnaði eða 716 (um 40% allra erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá).
Samtals voru 2.583 af þeim sem voru skráðir atvinnulausir í lok júní í hlutastörfum, þ.e. þeir sem eru í reglubundnum hlutastörfum eða með tilfallandi eða tímabundið starf á síðasta skráningardegi í júní. Þetta eru um 17% af þeim sem voru skráðir atvinnulausir í lok júní. Af þeim 2.583 sem voru í hlutastörfum í lok júní eru 1.675 einstaklingar sem sóttu um atvinnuleysisbætur skv. lögum um minnkað starfshlutfall frá því í nóvember 2008. Þeim hefur fækkað frá fyrra mánuði, en þeir voru 1.923 í lok maí og 2.137 í lok apríl.
Í júní voru 987 sjálfstætt starfandi skráðir á atvinnuleysisskrá vegna samdráttar í rekstri skv. áður nefndum lögum. Þeim fækkaði frá maí þegar þeir voru 1.189.
Alls fengu 275 launamenn greitt úr Ábyrgðarsjóði launa í júní, 110 í maí, 156 í apríl og 136 í mars. Flestir voru starfandi í þjónustu og útgáfustarfsemi 113 og 101 í mannvirkjagerð og iðnaði.
Yfirleitt batnar atvinnuástandið frá júní til júlí, m.a. vegna árstíðasveiflu, að því er segir í skýrslu Vinnumálastofnunar. Erfitt sé að áætla atvinnuleysi um þessar mundir vegna mikillar óvissu í efnahagslífinu, en líklegt er að atvinnuleysið í júlí 2009 muni lítið breytast og verða á bilinu 8,1%-8,5%.
Björgvin Guðmundsson

Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 10. júlí 2009
Öruggur meirihluti á alþingi fyrir að sækja um aðild að ESB
Þau tíðindi urðu á alþingi í dag,að tveir þingmenn Framsóknar,Sif Friðleifsdóttir og Guðmundur Steingrímsson, lýstu yfir stuðningi við tillöguna um að sækja um aðild að ESB.Samkvæmt því er öruggur meirihluti fyrir að sækja um aðild að ESB enda þótt 1 eða 2 fulltrúar VG mundu greiða atkvæði á móti.
Utanrikismálanefnd samþykkti að mæla með tillögu utanríkisráðherra um að sækja um aðild að ESB,með örlítilli breytingu.Síðari umræða um málið stendur nú yfir á alþingi.
Björgvin Guðmundsson
Föstudagur, 10. júlí 2009
Margir svíkja út atvinnuleysisbætur!
Mikil viðbrögð hafa verið við sameiginlegri auglýsingu Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra ...sem þjófur að nóttu? Í auglýsingunni er almenningur hvattur til að senda ábendingar um þá, sem svíkja út atvinnuleysisbætur. Hjá ríkisskattstjóra fengust þær upplýsingar, að eftir birtingu auglýsingarinnar fyrir tæpri viku, hefðu um 25 ábendingar borist um meint brot á skatta- og vinnulöggjöf einstaklinga og fyrirtækja.
Baldur Aðalsteinsson, verkefnastjóri hjá Vinnumálastofnun, segir að frá því opnað hafi verið fyrir ábendingar í byrjun maí hafi um 200 borist. Áberandi kippur hafi orðið á síðustu dögum. Flestar ábendingarnar snúa að svartri vinnu einstaklinga en líka um ákveðin fyrirtæki. Einnig eru nokkrar almenns eðlis, til dæmis, að margir námsmenn séu á bótum í stað námslána. Baldur segir ábendingarnar misnákvæmar. Til að mynda sé erfitt að rekja slóð meints bótasvikara ef einvörðungu er gefið upp fyrsta nafn hans. Almennt virðist fólk ánægt með auglýsinguna og framtakið.
Flestir sem við heyrum í eru sammála um að það sé óþolandi og ólíðandi að fólk seilist í fé úr sameiginlegum sjóði á þennan hátt. Vitaskuld berast einhverjar athugasemdir um Stóra bróður en almennt virðist fólk ekki setja aðgerðirnar í slíkt neikvætt samhengi.(mbl.is)
Það er rétt skref hjá yfirvöldum að bregðast við bótasvikum. Það er óþolandi,að til sé fólk sem svíkur út atvinnuleysisbætur,er í svartri vinnu en sækir um leið um atvinnuleysisbætur og fær þær. Þetta verður að stöðva og uppræta og svo virðist sem átak yfirvalda í því efni skili árangri.
Björgvin Guðmundsson
Föstudagur, 10. júlí 2009
Lífeyrissjóðir lánuðu Samson 10 milljarða.Sennilega allt tapað
Forsvarsmenn lífeyrissjóða og peningamarkaðssjóða bankanna sýndu Samson, félagi Björgólfsfeðga, mikið traust í fjárfestingum og þurfa nú að súpa seyðið af gjaldþroti félagsins eftir hrun bankakerfisins í október sl.
Lífeyrissjóðir, stórir sem smáir, keyptu skuldabréf félagsins fyrir um 10 milljarða króna. Þar á meðal eru stærstu lífeyrissjóðir landsins, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) og Gildi lífeyrissjóður.
Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær hefur verið sent bréf til skiptastjóra Samsonar, Helga Birgissonar hrl., frá LSR þar sem greint er frá því að persónuleg ábyrgð eigenda Samsonar, einkum Björgólfs Guðmundssonar, hvíli á skuldum félagsins. Samson skuldar LSR tvo milljarða og eru hverfandi líkur á að skuldirnar endurheimtist að einhverju leyti.
Það sama má segja um skuldabréf sem aðrir lífeyrissjóðir keyptu, þar á meðal Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Gildi lífeyrissjóður, Stafir lífeyrissjóður, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, Stapi lífeyrissjóður, Almenni lífeyrissjóðurinn, Lífeyrissjóður verkfræðinga, Lífeyrissjóður Vestfirðinga og Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga.
Guðrún K. Guðmannsdóttir, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Vestfirðinga, segir það vera mikið áfall að tapa miklum fjármunum en það sé í raun hluti af einu allsherjaráfalli sem Ísland sé nú búið að vakna upp við. Það er gífurlegt áfall að fjárfestar hafi meðhöndlað félög og fyrirtæki með óábyrgum hætti, annaðhvort með því að taka út úr þeim verðmæti eða hreinlega fjárfesta með arfavitlausum hætti. Það er einnig mikið áfall að allt eftirlitskerfið hafi brugðist sömuleiðis [...] Ég bjóst ekki við því að félag einhverra ríkustu manna heims myndi fara í þrot, segir Guðrún og vísar til eignar sjóðsins í Samson. Samtals keypti Lífeyrissjóður Vestfirðinga skuldabréf í Samson fyrir tæplega 300 milljónir.(mbl.is)
Svo virðist sem eigendur Samsons hafi hagað sér eins og fjárglæframenn. Þeir tóku meira að láni hjá Kaupþingi og lífeyrissjóðum en nam kaupverði Landsbankans.Hvað varð af öllu "Rússagullinu" peningunum,sem þeir fengu fyrir bjórverksmiðjuna í Rússlandi. Gufuðu þeir peningar allir upp.Fjölmiðlar greina frá því í gær,að eigendur Samson hafi fengið 4,5 milljarða í arð af því hlutafe,sem þeir voru skrifaðir fyrir.Það hefði nægt til þess að borga skuldina í Kaupþingi. en þeir borguðu hvorki þá skuld né skuldina við lífeyrissjóðina. Þeir virðast hafa sólundað þessu fé öllu.
Björgvin Guðmundsson
Föstudagur, 10. júlí 2009
Nýtt tilboð til Breiðuvíkursamtaka afturför
Fyrstu drög voru lögð fram í september 2008 og var þar gert ráð fyrir sanngirnisbótum á bilinu 300.000 til 2.100.000 kr. til fórnarlambanna en þær tillögur vöktu mikla reiði innan Breiðavíkursamtakanna. Síðan gerðist lítið þar til ný ríkisstjórn hreyfði aftur við málinu í vetur. Bárður segir vissulega af hinu góða að stjórnvöld vilji vinna málið í sátt við Breiðavíkursamtökin.
Auðvitað fögnum við þessu útspili og viljum ræða áfram við stjórnvöld, við eigum ekki um annað að velja, en mér finnst tónninn í bréfinu frekar neikvæður. Bárður vill ekki greina frá tillögunum í smáatriðum fyrr en þær hafa verið kynntar félagsmönnum en segir tilfinningar sínar gagnvart þeim blendnar.
M.a. vegna þess, að tekinn hafi verið út þáttur um bætur til látinna vistmanna, sem sé mjög mikilvægt atriði hjá samtökunum. Svo finnst mér það ekki tilheyra góðum samræðusiðum að grípa til núverandi efnahagsástands í þessum viðræðum, bætir hann við og útskýrir að kreppan sé í bréfinu notuð sem ákveðið skálkaskjól. Það eru ýmsar hliðar á þessu, sbr. að Björgólfarnir vilja fá afskrifaða þrjá milljarða. Sú upphæð dygði í bætur fyrir öll vistheimilisbörnin.(mbl.is)
Erfitt er að meta nýtt tilboð til Breiðuvíkursamtaka á meðan það er ekki birt. En talsmaður samtakanna,Bárður Jónsson,telur það afturför.
Björgvin Guðmundsson
Föstudagur, 10. júlí 2009
Hrun raungengis krónunnar frá ársbyrjun 2008 er heimsmet
Raungengi íslensku krónunnar féll um rúm 44% frá því í lok júní 2007 þar til í lok nóvember 2008, miðað við körfu 58 mynta heims samkvæmt útreikningum Alþjóðagreiðslubankans í Basel (BIS).
Hagfræðideild Landsbankans fjallar um þetta í Hagsjá sinni. Þar segir að þetta sé fjórða mesta hrun gjaldmiðils á 18 mánaða tímabili samkvæmt gagnagrunni BIS sem nær aftur til 1994.
Ísland á hinsvegar heimsmetið yfir hrun raungengis frá ársbyrjun 2008. Á því tímabili féll raungengi krónunnar um 38% en næst í röðinni kemur suður-kóreska vonnið sem rýrnaði að kaupmætti um 24% á sama tíma, breska pundið og nýsjálenski dollarinn sem féllu um 18%.
Raungengi er mælikvarði á kaupmátt íslenskrar krónu að teknu tilliti til gengis gagnvart helstu myntum og verðbólgu innanlands og utan. BIS miðar í sínum útreikningi við körfu 58 gjaldmiðla og neysluverðsvísitölu í hverju landi. Seðlabanki Íslands sem birti nýjar tölur yfir raungengi fyrr í vikunni miðar við þrengri myntkörfu og færri viðskiptalönd, en niðurstaðan virðist vera mjög sambærileg.
Mesta fall raungengis á átján mánuðum sem skráð er af BIS síðustu 15 árin var þegar kaupmáttur indónesískrar rúpíu féll um 68% frá ársbyrjun 1997 fram á mitt ár 1998. Þá féll raungengi argentínska pesans um 62% frá ársbyrjun 2001 og kaupmáttur rússnesku rúblunnar féll um 51% frá því september 1997 og næstu 18 mánuði.
Sorgarsaga krónunnar frá því að fjármálakreppan hófst á miðju ári 2007 er svo næst á þessum lista. (visir.is)
Almenningur hefur fundið það vel á pyngju sinni,að krónan hefur alltaf verið að veikjast. Innfluttar matvörur hafa stöðugt hækkað í verði og lífskjör almennings því stöðugt versnað. Seðlabankinn hefur verið algerlega máttlaus í baráttunni við að styrkja krónuna. Úrrræði Seðlbankans,að halda vöxtum alltaf háum hafa engin áhrif önnur en Þau að skaða atvinnulifið og síðan fara háir vextir meira og meira út í verðlagið, auka verðbólgu og veikja krónuna. Háu vextirnir hafa sem sagt öfug áhrif miðað við það sem þeim er ætlað.
Björgvin Guðmundsson
í