ESB: Jón Bjarnason segist ætla að vera faglegur

Sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra kveðst ætla að vinna faglega að umsókn Íslands að Evrópusambandinu þrátt fyrir andstöðu sína við aðild. Hann segir að það væri furðulegt ef einungis Evrópusambandssinnar ættu að leiða viðræðurnar við sambandið.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra landsins sagði í fréttum sjónvarps í gær að það yrði erfitt fyrir þann sem fer með framkvæmdavald og ætti þar af leiðandi standa skil á samningsmarkmiðum og væntanlega samningsniðurstöðu í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum að vera á móti aðild að ESB. Jón Bjarnason sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra segist furðulostinn á ummælum Ingibjargar um að horfa þyrfti sérstakleg til með honum við samningsgerðina.

Hann minnir á að samráðherrar hans í Vinstri grænum séu á móti aðild. Aðspurður um hvort það sé ekki ankannalegt að hann leiði viðræður við ESB þar sem hann er móti aðild spyr hann hvort eðlilegra væri að sá sem liggur marflatur fyrir ESB færi fyrir málaflokknum. Hann segist ætla að vinna faglega að þessum málum. Jón segir að náið samráð verði haft við þá sem hagsmuna eiga að gæta. (mbl.is)

Áhyggjur Ingibjargar Sólrúnar eru eðlilegar. Það verður erfitt fyrir Jón Bjarnason að vinna að samningsmarkmiðum Íslands í viðræðum við ESB,þegar hann er andvígur aðild.Jón verður sennilega á móti öllu sem ESB leggur til.

 

Björgvin Guðmundsson

 


Misskilningur um Evrópusambandið

Jón Valur Jensson guðfræðingur skrifar grein um  Ísland og ESB í Mbl. í dag.Í greininni gætir mikils misskilnings um þing Evrópusambandsins.Jón virðist telja og er ekki einn um það,að þing ESB hafi jafnmikil völd og þing   vestrænna þjóðríkja en svo er ekki.Þing ESB hefur sáralítil völd.Það afgreiðir fjárlög sambandsins og hefur eftirlitshlutverk með framkvæmdastjórninni  en löggjafarvald þingsins er nánast táknrænt.Vald ESB liggur allt hjá framkvæmdastjórninni og ráðherraráðinu.Þess vegna skiptir engu máli hversu marga fulltrúa Ísland fengi á þingi ESB og allar bollaleggingar um það hvað  þing ESB afgreiði mikið af lögum fyrir  aðildarríkin eru óþarfar og skipta engu.Það sem skiptir máli er  að hafa fulltrúa í framkvæmdastjórn og ráðherraráði. Þar liggja völdin.

Hugleiðingar Jóns Vals um að Ísland muni ekki ráða sínum eigin lögum við aðild að ESB hefðu átt vel við þegar Ísland gekk í EES. Við þá aðild fór fram ákveðið valdaafsal.En það breytist sáralítíð í því efni  við aðild að ESB.Við tökum í dag sjálfvirkt við tilskipunum og reglugerðum frá ESB og fellum í lög sjálfvirkt.

 

Björgvin Guðmundsson


Búið að semja við kröfuhafa gamla Kaupþings og Glitnis

Búið er að ná samningum við kröfuhafa í þrotabú gömlu bankanna. Greint verður frá innihaldi þeirra á morgun.

Kröfuhafar skipta hundruðum og meðal þeirra eru margir stærstu bankar heims og aðrar þekktar fjármálastofnanir. Fulltrúar fjármálaráðuneytisins sem er eigandi nýju bankanna og skilanefndir gömlu bankanna hafa fundað með fulltrúum kröfuhafanna undanfarnar vikur og reynt að komast að niðurstöðu um hvernig skipta eigi þrotabúinu.
Samhliða því að gengið er frá þessu uppgjöri átti að ljúka endurfjármögnun nýju bankanna. Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, segir að nýr banki - Íslandsbanki - taki til starfa á næstunni eða þegar búið verður að ganga frá skjalagerð og öðrum formsatriðum. Hann segir að það kunni að taka tvær eða þrjár vikur. (ruv.is)

Það er fagnaðarefni,að framangreindum samningum skuli lokið en ég er ekki sáttur við það,að erlendir kröfuhafar eignist stóran hlut í Kaupþingi og Íslandsbanka eins og rætt er um.

 

Björgvin Guðmundsson


 

 


Fjölskyldugrill við Þjórsá

Ákveðið hefur verið að halda  mikið fjölskyldugrill (fjölskyldumót) að Miðhúsum í Skeiða-og Gnúpverjahreppi 7.og 8.ágúst n.k. Það er Hilmar sonur minn og  Sjöfn,kona hans,sem boða til fagnaðarins í sumarbústað sínum að Miðhúsum,við Þjórsá.Allir  6 synir mínir og fjölskyldur þeirra munu mæta,þar á meðal Björgvin,sem kemur frá Finnlandi  í lok mánaðarins og verður í heimsókn í 10 daga.Þetta verður áreiðanlega skemmtilegt.

 

Björgvin Guðmundsson


ESB: Ísland fær sérlausnir

 Rætt var um ESB Á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.Meðal þeirra,sem komu fram í  þættinum voru Ragnar Arnalds fyrrv. ráðherra,Andrés Pétursson formaður Evrópusamtakanna,Þorgerður Katrín,varaformaður Sjálfstæðisflokksins,Ragnheiður Elín,þingmaður Sjálfstæðisflokksins o.fl. Skiptar skoðanir voru meðal þessara ræðumanna. Andrés sagði, að Ísland mundi örugglega fá sérlausnir fyrir sjávarútveg og landbúnað sinn.Allar þjóðir,sem leitað hefðu eftir sérlausnum við aðild að ESB hefðu fengið sérlausnir, t.d. Finnland,Svíþjóð,Malta,Austurríki o.fl.Sama yrði um Ísland. Andrés sagði,að ESB kysi að tala um sérlausnir en ekki undanþágur.

 

Björgvin Guðmundsson


Er endurskoðunarnefnd almannatrygginga sofnuð?

Þegar Jóhanna Sigurðardóttir tók við embætti  félags-og tryggingamálaráðherra í  ríkisstjórn 2007 var hún staðráðin í að endurskoða og efla almannatryggingar. Hún skipaði nefnd til þess að endurskoða almannatryggingar og nefndin átti að skila áliti 1.nóvember sl.Nefndin er ekki farin að skila áliti enn.Sjálfsagt reynir nefndin að afsaka sig með því að kreppa hafi skollið  á. En það gengur ekki. Nefnin átti að vera búin að starfa og skila áliti um líkt leyti og kreppan skall á.

Svo virðist sem endurskoðunarnefndin hafi misskilið sitt hlutverk.Nefndin virðist telja,að hún eigi að reyna að þóknast stjórnvöldum á hverjum tíma og koma með tillögur,sem falli að skoðunum ráðherra hverju sinni.Það er misskilningur. Nefndin á að starfa sjálfstætt. Hún á að endurskoða almannatryggingakerfið og koma með tillögur til úrbóta án tillits til skoðana ráðherra hverju sinni.Ef til vill treystir formaður nefndarinnar,Stefán Ólafsson,sér ekki til þess að vinna á þennan hátt og telur að hann verði að bera allt undir ráðherra. Þá hefði hann átt að segja af sér og annar að taka við formennsku.

Stefán Ólafsson hafði mjög góðar og róttækar hugmyndir um almannatryggingar áður en hann tók við  formennsku í endurskoðunarnefndinni en ekkert hefur  sést af þessum tillögum. Hann gerði Félagi eldri borgara og Landssambandi eldri borgara grein fyrir nokkrum hugmyndum sínum varðandi endurskoðun trygginganna en þessar hugmyndir voru hvorki fugl né fiskur.Nefndin verður að skila áliti sem fyrst og hún á að skila sjálfstæðu áliti, ekki einhverju sem ráðherra leggur blessun sína yfir fyrirfram.

 

Björgvin Guðmundsson

 


Tímabært að kyrrsetja eignir grunaðra auðmanna

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja 100 millj.kr. aukafjárveitingu til sérstaks saksóknara en áður hafði komið fram,að ríkisstjórnin hafði samþykkt að fjölga sérstökum saksóknurum þannig,að það yrði einn fyrir hvern banka, sem komst i þrot.Dómsmálaráðherra hefur flutt lagafrumvörp um þessar breytingar.Á sama tíma hefur þess orðið vart,að sérstakur saksóknari hefur látið hendur standa fram úr ermum og margir hafa verið yfirheyrðir.Einnig hefur rannsóknarnefnd alþingis yfirheyrt marga.Nú styttist sá tími sem sú nefnd hefur til starfa en hún á að skila af sér í nóvember n.k. Miðað við það sem hér hefur verið sagt ætti að vera orðið tímabært að kyrrsetja eignir þeirra auðmanna,sem teknir hafa verið til yfirheyrslu og eru grunaðir.Hætt er við því að þeir komi eignum sínum undan,ef kyrrsetning dregst lengur,ef þeir hafa ekki þegar komið öllu undan.

 

Björgvin Guðmundsson


Misskipting hafði aukist

Morgunblaðið skrifar um skattmál o.fl. vegna bankahrunsins  í Reyjavíkurbréfi í dag.Blaðið vitnar m.a. í Stefán Ólafsson prófessor í því sambandi en Stefán hefur ritar margar greinar og flutt erindi um ranglætið í skattamálum. M.a. hefur Stefán gagnrýnt, háa skatta á lágar tekjur en tiltölulega lága skatta á háar tekjur.Hann hefur gagnrýnt misskiptingu í þjóðfélaginu,sem hafði stóraukist.Mbl. gagnrýnir,að skattkerfið hér hafi gert upp á milli fólks eftir því hvernig  það hefur aflað sér peninga.Menn hafi borgað hærri skatta af atvinnutekjum en af fjármagnstekjum. Ég tek undir  þessa gagnrýni Mbl.Það er ranglátt að skattur af atvinutekjum skuli vera mikið hærri en skattur af fjármagni.Ég tel,að það verði að jafna þennan mun með því að hækka fjármagnstekjuskatt en þó ætti ákveðin upphæð sparifjár að vera skattfrjáls.

Mbl. vekur athygli á því að lagður hafi verið á hátekjuskattur frá 1.júlí sl. Nemur hann 8% á  tekjuskattskyldar  tekjur yfir 700 þús. kr. Sjálfsagt finnst mörgum 700 þús. kr. tekjur ekki háar og eru ekki ánægðir með að hátekjuskattur skuli lagðu á tekjur þar yfir. En bankahrunið reynist okkur  dýrt og eitthvað verður að gera til þess  að jafna fjárlagahallann.Ég tel þetta góða leið í því efni að skattleggja þá sérstaklega  sem hafa háar tekjur en hlífa  þeim sem hafa lágar tekjur.

 

Björgvin Guðmundsson 


Skerðing tryggingabóta vegna tekna úr lífeyrissjóði verði afnumin

Þegar lífeyrissjóðir landsmanna voru stofnaðir fyrir baráttu verkalýðshreyfingarinnar voru þeir hugsaðir  sem viðbót við almannatryggingarnar.Þeir áttu ekki að leiða til neinnar skerðingar á lífeyri almannatrygginga.Lífeyrissjóðirnir áttu að vera hrein viðbót.Launþegar skyldu greiða í lífeyrissjóð alla sína starfsævi gegn mótframlagi frá atvinnurekendum og fá síðan greitt úr lífeyrissjóði á eftirlaunaaldri og ef slys bæri að höndum og örorka af þeim sökum. Það hvarflaði ekki að mönnum við stofnun lífeyrissjóðanna, að þeir mundu leiða til skerðingar á tryggingabótum aldraðra.
Þegar stjórnvöld settu lög um skerðingar á lífeyri almannatrygginga vegna tekna úr lífeyrissjóði voru það alger svik við upphaflegt markmið lífeyrissjóðanna.Á hinum Norðurlöndunum tíðkast ekki slíkar skerðingar vegna tekna úr lífeyrissjóðum.Í Svíþjóð t.d. er engin skerðing á lífeyri frá almannatryggingum vegna tekna úr lífeyrissjóði.Þannig virkar nörræna velferðarsamfélagið,sem núverandi ríkisstjórn ætlar að koma á hér! Landssamband eldri borgara gerir kröfu til þess að skerðing tryggingabóta vegna tekna úr  lífeyrissjóði verði afnumin.Ég tek undir þá kröfu.
Björgvin Guðmundsson

Bloggfærslur 19. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband