Fimmtudagur, 2. júlí 2009
Hollendingar kenna FME á Íslandi um
Íslenska fjármálaeftirlitið brást algerlega í Icesave málinu og hollenski Seðlabankinn hafði engin úrræði til að stöðva peningasöfnun Landsbankans í Hollandi. Þetta segir formaður hollensku Icesave-samninganefndarinnar en það er mat hans að Icesave-samningurinn sé Íslandi hagstæðari en norrænu lánin sem undirrituð voru í gær.
Icesave samningurinn er með meðal annars gagnrýndur fyrir að vera ósanngjarn og skilmálar hans óraunhæfir fyrir lítið hagkerfi sem berst nú í bökkum. Í ítarlegu samtali við fréttastofu í dag sagði Johan Barnard, formaður hollensku samninganefndarinnar, að Icesave samningurinn væri mun hagstæðari en samkomulagið sem undirritað var við Holland í október 2008. Þá sé endurskoðunarákvæðið til marks um að tekið hafi verið tillit til þessara aðstæðna. Barnard segir þetta ákvæði alls ekki bragð af hálfu viðsemjenda Íslendinga. Ætlaði Holland ekki að efna það, hefði því verið einfaldlega verið sleppt.
Hann segir ekki mega gleyma því að Holland hafi einnig beðið mikinn skaða af Icesave málinu, nú þegar hafi tæpir tveir milljarðar evra verið greiddir út til hollenskra sparifjáreigenda og samt hafi fjöldi fólks tapað aleigunni.
Það er mat Barnards að norrænu lánin sem Ísland skrifaði undir í gær virðist fyrstu sýn ekki hagstæðari en Icesave samningurinn. Breytilegir vextir norrænu lánanna virðist í raun dýrari og áhættusamari en fastir vextir Icesave samningsins. Þetta undirstriki hversu sanngjarnir skilmálar samningsins séu.
Umræður um Icesave frumvarpið hófust á Alþingi í dag og hugsanlegt að meirihluti alþingis felli samninginn.
Erfitt er að spá nákvæmlega fyrir um hver viðbrögð hollenskra stjórnvalda yrðu við þeirri niðurstöðu.
verða, felli Alþingi samninginn en sérfræðingar sem fréttastofa hefur rætt við segja ólíklegt að Hollendingar og Bretar taki þeirri niðurstöðu því vel og verði tilbúnir til að setjast strax aftur að samningaborðinu.
Barnard segist hafa fulla trú á að samningurinn verði samþykktur og vitnaði í orð íslenska forsætisráðherrans um að ekkert plan B væri til.
Aðspurður hvort einhver fordæmi væru fyrir því að undirritað samkomulag Hollands við annað Evrópuríki væri fellt á þingi sagði Barnard svo ekki vera. Engin fordæmi væru fyrir slíkri stöðu.
Holland viðurkennir ekki ábyrgð á Icesave málinu. Í skýrslu óháðrar rannsóknarnefndar sem hollenska þingið fjallaði nýlega um segir að hollenski Seðlabankinn hefði ekki getað stöðvað vöxt Icesave-peningasöfnunar Landsbankans í Hollandi. Landsbankinn heyrði undir íslenska fjármálaeftirlitið og samkvæmt skýrslunni hafði hollenski Seðlabankinn ekki lagalega heimild til inngrips og viðvörun frá honum hefði nær örugglega þýtt áhlaup á ekki bara Icesave útibúið í Hollandi heldur alla starfsemi Landsbankans.
Johan Barnard segir ,,að íslenska fjármálaeftirlitið brást algerlega, þrátt fyrir ítrekaðar óskir hollenska fjármálaeftirlitsins um að beita sér í Icesave málinu. FME hafði öll völdin í hendi sér en hundsaði vandann og átti ekki neinni samvinnu við erlendar eftirlitsstofnanir, eins og hollenska seðlabankann eða breska fjármálaeftirlitið. Evrópuþjóðirnar hafa brennt sig á að reglurnar virka ekki eins og þær áttu að gera samkvæmt evrópskum lögum. Íslenska fjármálaeftirlitsið sé sannarlega versta dæmið um það." (ruv.is)
Vissulega hefði ´Fjármálaeftirlitið (FME) mátt standa sig betur. En eðlilegast hefði verið' að breyta útibúi Landsbankans í dótturfyrirtæki,bæði í Hollandi og Bretlandi. Þá hefði eftirlitið heyrt undir heimamernn og ábyrgðin einnig.Það er erfitt að fylgjast með útibúum erlendis frá Íslandi.
Björgvin Guðmundsson
Fimmtudagur, 2. júlí 2009
Nefnd skipuð um endurskoðun kvótakerfis
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur skipað ráðgefandi hóp um veiðiráðgjöf og nýtingu sjávarauðlinda og ástand í lífríki sjávar. Hópurinn er skipaður með vísan til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar.
Í þeim kafla stefnuyfirlýsingarinnar sem fjallar um fiskveiðar segir að endurskoða eigi lög um stjórn fiskveiða í heild með það að markmiði að stuðla að vernd fiskistofna, stuðla að hagkvæmri nýtingu auðlinda sjávar, treysta atvinnu, efla byggð í landinu, skapa sátt meðal þjóðarinnar um eignarhald og nýtingu auðlinda sjávar og leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili í samræmi við stefnu beggja stjórnarflokka. Endurskoðunin mun verða unnin í samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi og miðað við að áætlun um innköllun og endurráðstöfun taki gildi í upphafi fiskveiðiárs 1. september 2010. Skipaður verði starfshópur er vinni að endurskoðuninni og kalli til samráðs hagsmunaaðila og sérfræðinga.
Í hópnum sem nú hefur verið skipaður eiga sæti Alexander Kristinsson útgerðarmaður, Rifi, Guðmundur Hólm Indriðason útgerðartæknir, Ísafjarðarbæ, Dr. Anna Kristín Daníelsdóttir, stofnerfðafræðingur og sviðsstjóri Matís og Björn Valur Gíslason, skipstjóri og alþingismaður.
Í tilkynningu ráðuneytisins segir að mögulegt sé að fleiri aðilum verði boðin þátttaka í þessum hóp þegar fram líða stundir.(mbl.is)
Miklar vonir eru bundnar við störf þessarar nefndar.Kvótakerfið hefur gengið sér til húðar og nauðsynlegt að innkalla veiðiheimildir og úthluta á ný.
Björgvin Guðmundsson
Fimmtudagur, 2. júlí 2009
Ice save: Borgum- borgum ekki
Nú standa yfir umræður á alþingi um ríkisábyrgð á láni vegna Ice save samnings.Miklar deilur eru um málið.
Hér fara á eftir helstu röksemdir með og móti.
Ekkert stendur í tilskipun ESB um innistæðutryggingar,sem skyldar ríkisstjórnir til þess að greiða, ef innistæðutryggingasjóður getur ekki greitt.Það er ekkert minnst á ríki og ríkissjóði. Ekkert er heldur kveðið á um ábyrgð ríkissjóðs í íslenskum lögum um tryggingasjóð innistæðna. Stefán Már Stefánsson lagaprófessor segir,að íslenska ríkinu beri engin skylda til þess að greiða eitthvað vegna Ice save.
Fyrrverandi fjármálaráðherra var búinn að skrifa undir samkomulag við Hollendinga um að íslenska ríkið mundi greiða það sem á vantaði vegna Ice save i Hollandi.Ríkisstjórn Geirs H.Haarde var einnig búin að samþykkja ákveðin viðmið í Ice save deilunni vegna þrýsting frá ESB löndum og vegna þess að IMF neitaði að greiða út lánið til Islands nema Ice save deilan yrði leyst fyrst.Hætta er á því að Ísland einangrist ef ekki verður samþykkt ríkisábyrgð vegna Ice save samkomulagsins.
Björgvin Guðmundsson
Fimmtudagur, 2. júlí 2009
Ungir jafnaðarmenn mótmæla sölu á hlut í HS Orku til GGE
Ugla ungir jafnaðarmenn á Suðurnesjum mótmæla sölu Reykjanesbæjar á hlut sínum í HS Orku til Geysis Green Energy. Með sölunni stefnir í það að GGE og kanadíska orkufyrirtækið Magma Energy eignist nær allan hlut í HS Orku og orkuframleiðslu á Suðurnesjum. Ugla telur að það þjóni ekki hagsmunum íbúa og fyrirtækja á Suðurnesjum, að því er segir í ályktun frá Uglu.
Suðurnesjamenn byggðu upp Hitaveitu Suðurnesja og hafa á liðnum áratugum notið góðs af starfsemi fyrirtækisins og það hefur gegnt mikilvægu hlutverki í samfélaginu á Suðurnesjum. En nú hefur fyrirtækinu verið skipt niður og hlutarnir seldir til einkaaðila án þess að nauðsynleg umræða hafi átt sér stað um þau viðskipti. Ríki og sveitarfélög hafa á síðustu árum verið að hringla með eignarhald fyrirtækisins og ljóst er að þær aðgerðir hafa ekki gefist vel og hætt við að samfélagið verði fyrir miklu tjóni vegna þess til langs tíma litið.
Ugla lýsir yfir áhyggjum af því að enn lifi hugmyndafræði einkavæðingar góðu lífi í Reykjanesbæ. Einkaaðilum eru afhendar eignir sveitarfélagsins fyrir smánarlegar upphæðir auk þess sem nýting á auðlindum þjóðarinnar færast í hendur erlendra fyrirtækja. Og allt er þetta í boði Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ."(mbl.is)
Ég tek undir mótmæli ungra jafnaðarmanna. Þaðer ófært að útlendingar og GGE eignist nær allan hlut í HS Orku.
Björgvin Guðmundsson
Fimmtudagur, 2. júlí 2009
Stýrivextir verða óbreyttir,12%
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í 12%. Er þetta í takt við væntingar markaðarins en Greining Íslandsbanka, hagfræðideild Landsbankans og IFS Greining spáðu óbreyttum vöxtum.
Aðrir vextir Seðlabankans eru einnig óbreyttir. Vextir á viðskiptareikningum í Seðlabankanum eru þannig áfram 9,5%. Klukkan 11 í dag mun seðlabankastjóri fara yfir ákvörðun peningastefnunefndar og svara spurningum fréttamanna. Fundurinn verður sendur út beint á vef Seðlabankans.
Væntingar um lækkun stýrivaxta Seðlabankans hafa verið miklar að undanförnu, ekki hvað síst af hálfu aðila vinnumarkaðarins, jafnt talsmanna atvinnurekenda sem verkalýðshreyfingarinnar. Frá síðasta vaxtaákvörðunardegi, í byrjun júnímánaðar, hefur gengi krónunnar hins vegar lækkað nokkuð. Það ýtir ekki undir stýrivaxtalækkun. Það sama á og við þróun verðbólgunnar, en hún jókst nokkuð í júnímánuði frá mánuðinum á undan.
Björgvin Guðmundsson
Fimmtudagur, 2. júlí 2009
IMF vill,að stýrivextir verði óbreyttir!
Seðlabanki Íslands ætti að láta stýrivexti sanda í stað til að styðja við krónuna og styrkja gengi hennar. Þetta hefur fréttasíðan Bloomberg eftir Franek Rozwadowski, talsmanni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í gær.
Ráðgjöf sjóðsins varðandi gjaldeyrisstefnuna er að nota gengið sem aðalverkfærið til að halda verbólgu niðri, sagði Rozwadowski. Haft er eftir honum að gengi krónunnar sé það sem stýra eigi gjaldeyrisstefnunni og vaxtastiginu.
Krónan hefur lækkað um 4% gagnvart evru síðan í gær.
Í dag mun Seðlabankinn tilkynna um hvort stýrivextir verða lækkaðir að nýju.(mbl.is)
Sú stefna að háir stýrivextir eigi að halda verðbólgu niðri og styðja við gengi krónunnar hefur brugðist. Háir stýrivextir fara út í verðlagið og auka verðbólgu en minnka hana ekki.Öll ríki Vestur Evrópu eru með mjög lága stýrivext9 og reka allt aðra stefnu í þessu efni en IMF. Það er nauðsynlegt fyrir íslensklt atvinnulíf,að vextirnir lækki.
Björgvin Guðmundsson
Fimmtudagur, 2. júlí 2009