Fimmtudagur, 9. júlí 2009
Er stjórnin að springa?
Þingmenn úr öllum flokkum nema Samfylkingunni sátu á rökstólum í kvöld og reyndu að ná samkomulagi um tillö0gu þess efnis,að það yrði borið undir þjóðaratkvæði hvort fara ætti í aðildarviðræður við Esb. Verði þetta niðurstaðan á þinginu brýtur það gegn stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Stjórnarflokkarnir höfðu orðið ásáttir um það að þingið mundi afgreiða tillögu um aðildarumsókn en ekki þjóðaratkvæðagreiðsla.Síðan yrði aðildarsamningur lagður undir þjóðaratkvæði. Ef einhver/einhverjir Vinstri grænir samþykkja þjóðaratkvæði um aðildarumsókn getur það hæglega sprengt stjórnina.
Björgvin Guðmundsson
Fimmtudagur, 9. júlí 2009
Mikil fækkun farþega um Leifsstöð
Erlendir gestir um Leifsstöð í júní í ár voru ríflega 54 þúsund, um 1.500 færri en í júnímánuði á síðasta ári. Fækkunin nemur þremur prósentum milli ára.
Ef litið er til einstakra markaðssvæða má sjá verulega fjölgun frá Mið- og S.-Evrópu eða um 25,4% og munar þar mest um fjölgun Þjóðverja og Hollendinga. Norðurlandabúum fækkar um 8% en þar ber hæst fækkun Svía. Bretum fækkar um 19,5% en brottförum gesta frá öðrum löndum Evrópu og fjarmörkuðum fækkar um 17,7%. N.-Ameríkanar standa hins vegar í stað.
Frá áramótum hafa 179 þúsund erlendir gestir farið frá landinu eða þremur prósentum færri en árinu áður en þá voru þeir um 184 þúsund. Tæplega helmingsfækkun er hins vegar í brottförum Íslendinga, voru tæplega 228 þúsund árið 2008 en 125 þúsund í ár.
Talning er unnin á vegum Ferðamálastofu og nær yfir allar brottfarir um Leifsstöð, þ.m.t. brottfarir erlends vinnuafls.(mbl.is)
Fækkunin er mest meðal íslenskra ferðamanna,sem fara til útlanda.Þeim hefur fækkað um helming.
Íslendingar ferðast meira innan lands í sumar.
Björgvin Guðmundsson
Fimmtudagur, 9. júlí 2009
Eimskip skipt í tvennt
Guðmundur P. Davíðsson, framkvæmdastjóri Eimskips á Íslandi, mun láta af störfum vegna skipulagsbreytinga, eins og segir í tilkynningu. Guðmundur stýrði starfsemi Eimskips á Íslandi sem nú hefur verið skipt niður í tvö svið, Sölu og þjónustu og Eimskip innanlands. Bæði svið heyra beint undir forstjóra og hafa tveir nýir framkvæmdastjórar verið ráðnir yfir hin nýju svið.
Í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar er nú unnið að breytingum á stjórnskipulagi félagsins. Markmiðið er að einfalda skipulag, ná fram hagræðingu í rekstri og reka áfram öflugt Eimskip sem er leiðandi í flutningastarfsemi á Norður-Atlantshafi. Starfsemi Eimskips á Íslandi mun í grófum dráttum skiptast í tvær einingar, annars vegar Sölu og þjónustu og hins vegar Eimskip innanlands. Unnið er að frekari breytingum á heildarskipulagi félagsins og mun verða tilkynnt um þær fyrir lok júlímánaðar.
Matthías Matthíasson hefur verið ráðinn í starf framkvæmdastjóra Sölu og þjónustu á Íslandi. Matthías vinnur nú að því að ljúka ýmsum sérverkefnum, m.a. á skrifstofu Eimskips í Hamborg og kemur að fullu til starfa á Íslandi um miðjan júlí.
Guðmundur Nikulásson mun taka við starfi framkvæmdastjóra Eimskips innanlands og fellur þar undir rekstur á innanlandskerfi félagsins, rekstur Vöruhótels, Flytjanda, vörudreifingar á höfuðborgarsvæðinu, hafnarsvæða á Íslandi og frysti- og kæligeymslna. Guðmundur hefur starfað hjá Eimskip síðan 1997 og gegnt ýmsum trúnaðar- og stjórnunarstöðum.
Björgvin Guðmundsson
Fimmtudagur, 9. júlí 2009
Bankasýsla rikisins afgreidd úr nefnd
Meirihluti viðskiptanefndar Alþingis leggur til að hver sem er geti boðið sig fram til setu í bankaráðum og stjórnum fyrirtækja fyrir hönd ríkisins, með því að senda sérstakri valnefnd ferilskrá sína. Þetta er ein breytingartillagna sem viðskiptanefnd gerir við frumvarp til laga um Bankasýslu ríkisins. Nefndin afgreiddi frumvarpið til annarrar umræðu í kvöld og er málið á dagskrá Alþingis í fyrramálið.
Með frumvarpinu er lagt til að sett verði á fót sérstök ríkisstofnun sem beri heitið Bankasýsla ríkisins og heyrir hún undir fjármálaráðherra. Stofnuninni verður falið að fara með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum en ríkissjóður er á ný orðinn eigandi að stærstum hluta íslenska fjármálakerfisins í kjölfar bankahrunsins haustið 2008.
Upphaflega var lagt til að stofnunin starfaði tímabundið í fimm ár, stjórn yrði skipuð af fjármálaráðherra til fimm ára og stjórnin réði forstjóra til jafnlangs tíma. Meirihluti viðskiptanefndar leggur til að tímamarkið verði fellt brott og að ráðherra skipi stjórn Bankasýslu ríkisins ótímabundið og stjórnin geri ótímabundinn ráðningarsamning við forstjóra en uppsagnarfrestur verði gagnkvæmur.
Upphaflega frumvarpið gerir ráð fyrir að þrír stjórnarmenn fari fyrir stofnuninni en meirihluti viðskiptanefndar leggur til að einn varamaður verði skipaður í stjórnina.
Í frumvarpinu eru ákvæði um hæfisskilyrði stjórnarmanna og forstjóra þar sem segir að þeir megi ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota eða hlotið dóm í tengslum við atvinnurekstur samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga eða lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. Fyrir viðskiptanefnd var þeim sjónarmiðum hreyft að upptalningin væri ekki nægilega tæmandi og leggur meirihluti nefndarinnar því til að við bætist að stjórnarmenn og forstjóri megi ekki hafa hlotið dóm fyrir brot á þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
Gert er ráð fyrir að stjórn Bankasýslunnar skipi þriggja manna valnefnd sem hafi það hlutverk að tilnefna aðila fyrir hönd ríkisins sem hafa rétt til setu í bankaráðum eða stjórnum fjármálafyrirtækja til samræmis við hlutafjáreign ríkisins. Meirihlutinn telur brýnt að valnefndin tryggi að hlutföll kynjanna í bankaráðum og stjórnum fyrirtækja og félaga verði sem jöfnust og leggur til breytingu í þá veru. Meiri hlutinn áréttar að sama sjónarmið um sem jafnastan hlut karla og kvenna eigi við um þriggja manna stjórn Bankasýslunnar sem ráðherra skipar.
Þá er í frumvarpinu mælt fyrir um almenna heimild til að bjóða sig fram til setu í bankaráðum og stjórnum fyrirtækja fyrir hönd ríkisins. Meirihlutinn leggur til þá breytingu að hver sem er geti boðið sig fram til setu í bankaráðum og stjórnum fyrirtækja með því að senda nefndinni ferilskrá sína. Telur meirihlutinn í því sambandi nauðsynlegt að taka fram að til þess að ákvæði þetta komi til með að virka í framkvæmd sé nauðsynlegt að auglýsa eða kynna með einhverjum hætti að verið sé að skipa í stjórnir umræddra fyrirtækja og félaga sem ríkið fer með eignarhlut í.
Samkvæmt tillögum meirihluta viðskiptanefndar er gert ráð fyrir að Bankasýslan gefi ráðherra skýrslu um starfsemi sína í fyrsta sinn fyrir 1. nóvember nk., m.a. um hvernig til hefur tekist með stofnun hennar og framkvæmd þeirra verkefna sem undir hana heyra. Ráðherra yrði svo veitt slík skýrsla að nýju fyrir 1. júní 2010 og þinginu í kjölfarið og svo árlega eftir það.
Gert er ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs hækki um 70 til 80 milljónir króna árlega meðan stofnunin er starfrækt en auk forstjóra munu þrír til fimm starfsmenn verða ráðnir til Bankasýslunnar. Ekki var gert ráð fyrir þessum útgjöldum í fjárlögum ársins.(mbl.is)
ýmsir hafa gagnrýnt,að ríkið skuli koma á fót bankasýslu ríkisins.En ég hygg,að sú gagnrýni sé byggð á misskilningi.Bankasýslan á að fara með eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum og er einmitt ætlað að skapa ákveðna fjarlægð milli fjármálafyrirtækja og stjórnmálamanna.
Björgvin Guðmundsson

Fimmtudagur, 9. júlí 2009
Miklar deilur á alþingi um ESB
Stjórnarandstaðan deildi hart á fundarstjórn forseta Alþingis við upphaf þingfundar í dag. Ráðgert hafði verið að þingfundur hæfist klukkan hálfellefu í morgun en fundinum var frestað fram á hádegi.
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins virtust þeirrar skoðunar að frestur á þinginu væri vegna óeiningar í stjórnarmeirihlutanum um þingsályktunartillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Bjarni Benediktsson sagði að þingsályktunartillagan og Icesave málið hefðu bæði truflað dagskrá þingsins. ESB málið er auðvitað ekkert annað en djúp sprengja inn í þingið," sagði Bjarni og hélt því fram að með málinu væri verið að sprengja allt í tætlur.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að eðlilegar skýringar væru á frestun þingfunda. Þingmenn verða auðvitað bara að búa við það að það gæti þurft að fresta þingi í einn og hálfan tíma þegar verið er að afgreiða eitt stærsta máli í sögu þings og þjóðar," sagði Helgi Hjörvar og vísaði í ESB þingsályktunartillöguna. (mbl.is)
Enda þótt ESB málið sé komið úr utanríkismálanefnd er alls óvíst hvernig málinu reiðir af á þinginu. Hæglega gæti farið svo,að þingið mundi samþykkja þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn en það mundi þýða tvær þjóðaratkvæðagreiðslur.
Björgvin Guðmundsson
Fimmtudagur, 9. júlí 2009
Gátu ekki greitt kaupverð bankanna að fullu við einkavæðingu þeirra!
Egla hf. fékk lán frá Landsbankanum fyrir 35 prósentum af 11,4 milljarða kaupum S-hópsins á Búnaðarbankanum. Síðar eignaðist Egla 71,2 prósent af hluta S-hópsins og varð síðar meðal stærstu hluthafa Kaupþings. Egla greiddi lánin upp að fullu um mitt ár 2007 þegar félagið var endurfjármagnað. Hjörleifur Jakobsson, framkvæmdastjóri Eglu, staðfesti það í samtali við Morgunblaðið í gær.(mbl.is)
Þegar Samson var að kaupa Landsbankann var sagt,að eigendur Samsons kæmu með næga peninga frá Rússlandi.Það er nú komið í ljós,að svo var ekki. Samson þurfti að fá 30% af kaupverði Landsbankans að láni frá Búnaðarbankanum. Og þegar S-hópurinn svonefndi keypti Búnaðarbankann fékk hann 35% að láni frá Landsbankanum.Það var ekki aðeins að þessir aðilar fengju bankana á útsöluverði heldur gátu þeir ekki borgað kaupverðið að fullu og þurftu að fá lán fyrir því.Í ofanálag höfðu kaupendurnir ekkert vit á bankarekstri.
Björgvin Guðmundsson
Fimmtudagur, 9. júlí 2009
ESB úr utanríkismálanefnd
ESB málið var afgreitt úr utanríkismálanefnd í morgun.Allir stjórnarliðar greiddu atkvæði með nefndaráliti meirihlutans en það mun vera einar 70 blaðsíður.Minnihlutinn,Sjálfstæðisflokkur,Framsókn og Borgarahreyfing skila séráliti.
Óvíst er hvort málið verður tekið til umræðu á þingi í dag eða á morgun. Afstaða Samfylkingarinnar hefur alltaf verið ljós í þessu máli en nokkur óvissa hefur hins vegar ríkt um afstöðu VG.En nú liggur afstaða VG loks ljós fyrir,a,m,k. í utanríkismálanefnd.Hvort þetta gefur vísbendingu um afstöðu VG
á þingi er óvíst en gæti þó gert það.
Björgvin Guðmundsson
Fimmtudagur, 9. júlí 2009
Forsetinn í Litháen
Ólafur Ragnar Grímsson forseti og Dorrit Moussaieff forsetafrú tóku mánudaginn 6. júlí þátt í hátíðarhöldum í Litháen í tilefni þess að 1000 ár eru frá þeim tíma sem Litháar miða upphaf þjóðar sinnar við.
Forseti Litháens, Valdas Adamkus, bauð forsetahjónunum að taka þátt í hátíðarhöldunum en einnig voru viðstaddir aðrir þjóðhöfðingjar Norðurlanda, þjóðhöfðingjar Eystrasaltslanda, Póllands og Úkraínu auk ýmissa annarra forystumanna.(ruv.is)
Sovetríkin innlimuðu Litháen í riki sitt á stríðsárunum.En Litháen endurheimti sjálfstæði sitt og gerði það í andstöðu við Sovetríkin og fleiri ríki. Jón Baldvin Hannibalsson þá utanríkisráðherra var fyrstur vestrænna utanríkisráðherra til þess að viðurkenna endurheimt sjálfstæði Litháen.Ég kom til Litháen 1994 á vegum utanríkisráðuneytisins,var þá formaður samninganefndar Íslands um fríverslunarsamninga milli ríkjanna. Hvar vetna mætti mér mikil velvild og menn í Litháen töluðu um Jón Baldvin með mikilli lotningu og aðdáun.Allir þekktu Jón Baldvin.Hann var eins og þjóðhetja í þeirra augum. Hafði riðið á vaðið og viðurkennt sjálfstæði Litháen þegar önnur vestræn ríki hikuðu og þorðu ekki að viðurkenna Litháen. Það var virkilega gaman að upplifa þetta þakklæti Litháen til Íslands.
Björgvin Guðmundsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 9. júlí 2009
Eldri borgurum refsað fyrir að vinna!
Samkvæmt breytingunni á almannatryggingum,sem tók gildi 1.julí sl. skerðist lífeyrir almannatrygginga eldri borgara bæði vegna atvinnutekna og lífeyrissjóðstekna. Ellilífeyrisþegi,sem hefur 100 þús kr. atvinnutekjur á mánuði skerðist um 34.956 kr, á mánuði hjá almannatryggingum.Honum er sem sagt refsað fyrir að vinna. Ellilífeyrisþegi sem hefur 150 þús. kr. á mánuði í tekjur úr lífeyrissjóði skerðist um 7.098 kr. á mánuði hjá TR.Þó eldri borgarinn eigi lífeyrinn í lífeyrissjóðnum er samt verið að skerða lífeyri hans hjá TR vegna þessara tekna.Að mínu mati er það fullkomlega óeðlilegt að slíkt skuli eiga sér stað þar eð þetta jafngildir skerðingu á lífeyrinum úr lífeyrissjóði. Það ætti að vera óheimilt að skerða lífeyrissjóð á þennan hátt.
Björgvin Guðmundsson
Fimmtudagur, 9. júlí 2009
Ágreiningur stjórnarliða í utanríkismálanefnd um ESB
Ágreiningur á milli stjórnarliða í utanríkismálanefnd Alþingis varð til þess að ekki náðist samstaða um þingsályktunartillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu á fundi nefndarinnar, sem stóð fram á kvöld í gær.
Meðal annars gerði Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna í nefndinni, ýmsar athugasemdir, sem töfðu framgang málsins. Þegar svo var komið var ákveðið að fresta fundinum þar til í dag, og á hann að hefjast klukkan hálf níu.
Fulltrúar Samfylkingarinnar í nefndinni höfðu búist við að afgreiða málið úr nefnd í gærkvöldi svo hægt yrði að útbýta skjölum fyrir þingfund, sem á að hefjast klukkan hálf ellefu, en önnur umræða um málið er þar á dagskrá. (visir.is)
Það er mjög klaufalegt,að eftir allan þann tíma sem ESB málið hefur verið i utanríkismálanefnd, skuli það fyrst koma fram á síðustu mínútum í nefndinni,að stjórnarliðar geti ekki komið sér saman. Ef það er rétt,að Guðfríður Lilja hafi gert ágreining á síðustu stundu og m.a. viljað fá upplýsingar um kostnað við aðildarviðræður er það óafsakanlegt.Slík beiðni hefði átt að koma fram fyrir löngu og furðulegt að formaður þingflokks VG komi fyrst með slíka beiðni á síðustu mínútum málsins í utanríkismálanefnd.Samflokksmaður Guðfríðar Árni Þ.Sigurðssoin er formaður nefndarinnar og hefðu því átt að vera hæg heimatökin hjá þeim flokkssystkinum að skiptast á upplýsingum.Það er engu líkara en Guðfríður sé að reyna að sprengja stjórnina með þessu háttalagi sínu.
Björgvin Guðmundsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)