Ríkið greiði skuld sína við aldraða og öryrkja strax!

Það vakti mikla athygli og undrun,þegar kjararáðið (sáluga) fór að ákvarða stjórnmálamönnum og embættismönnum ofurlaunahækkanir, sem ekki höfðu sést áður.Þó var það tilskilið,að kjararáð ætti í störfum sínu að taka tillit til launaþróunar.Sú röksemd var notuð, þegar laun ráðherra og æðstu embættismanna voru hækkuð upp úr öllu valdi, að segja,að  laun þessara aðila hefðu verið fryst og skert á kreppuárunum eftir bankahrunið.Þá rifjaðist það upp,að lífeyrir aldraðra og öryrkja var frystur á kreppuárunum en þó fengu launamenn umsamdar kauphækkanir.M.ö.o.: Á sama tíma og verkafólk fékk kauphækkanir var lífeyri aldraðra og öryrkja haldið niðri. En ekki nóg með það: Til viðbótar voru kjör aldraðra og öryrkja skert enn meira: Grunnlífeyrir var skertur.Frítekjurmark vegna atvinnutekna var skert og  tekjutryggingin var skert.Það hefði mátt ætla, að þegar betur áraði í þjóðfélagin hefði verið byrjað á því að leiðrétta og bæta kjör aldraðra og öryrkja.En því miður: Þingmenn og  ráðherrar töldu brýnna að „leiðrétta“ eigin kjör.Þess vegna voru laun þingmanna hækkuð í 1,1 milljón kr. á mánuði fyrir skatt auk alls konar  aukagreiðslna og laun ráðherra voru hækkuð í 1,8-2 millj. Kr. á mánuði fyrir skatt  auk mikilla hlunninda af ýmsum toga. 

Grunnlífeyrir afnuminn 

Stjórnmálaforingjar,sem setið hafa við völd frá lokum kreppunnar, segjast  hafa afturkallað einhverja kjaraskerðingu aldraðra og öryrkja frá krepputímanum. En það er mjög óverulegt.Sem dæmi má nefna,að grunnlífeyrir, sem skertur var af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðarsdóttur(Samfylkingar og VG),  var leiðréttur af ríkisstjórn Sigmundar Davíðs vorið 2013, þ.e. skerðingin var tekin til baka. En það stóð ekki lengi,þar eð sömu flokkar,Framsókn og Sjálfstæðisflokkur. afnámu grunnlífeyrinn alveg um áramótin 2016/2017.Við þá breytingu voru 4500 eldri borgarar strikaðir alveg út úr kerfi almannatrygginga þó þeir hafi greitt til þeirra alla sína starfsævi; sumir frá 16 ára aldri í formi tryggingagjalds en síðan í sköttum.Á hinum Norðurlöndunum er grunnlífeyrir í gildi.Og hér var grunnlífeyrir heilagur til skamms tíma.Það mátti ekki hrófla við honum.En Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hafa afnumið hann.Skerðing tekjutryggingar rann út af sjálfu sér,þar eð hún var tímabundin.Lögin féllu úr gildi að hinum tilskilda tíma liðnum.

Kjaragliðnun mesta kjaraskerðingin

Mesta kjaraskerðingin,sem aldraðir og öryrkjar urðu fyrir á krepputímanum, var vegna kjaragliðnunar. Með kjaragliðnun er átt við það, að lífeyrir  hækkar minna en laun.Aldraðir og öryrkjar verða  fyrir kjaraskerðingu af þeim sökum. Félag eldri borgara í Reykjavík barðist harðlega fyrir því, að þessi kjaragliðnun yrði leiðrétt. Kjaranefnd félagsins heimsótti þingið og ræddi við alla þingflokka um að fá þetta leiðrétt.Þáverandi stjórnarandstaða lofaði að gera það. Samþykkt var á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2013  eftirfarandi ályktun um málið: Ellilífeyrir sé leiðréttur strax til samanburðar við þær hækkanir, sem orðið hafa á lægstu launum síðan í ársbyrjun 2009.Flokkurinn komst til valda og fékk fjármálaráðherrann en stóð ekki við loforðið um leiðréttingu lífeyris vegna kjaragliðnunar. Framsóknarflokkurinn samþykkti einnig ályktun um þetta mál á flokksþingi sínu 2013.Þar var þetta samþykkt: Lífeyrir aldraðra og öryrkja verði hækkaður vegna kjaraskerðingar þeirra (og kjaragliðnunar) á krepputímanum.En það fór eins hjá Framsókn. Hún stóð ekki við loforðið. Flokkarnir voru saman í stjórn og  urðu sammála um að efna ekki loforðið við eldri borgara og öryrkja!

Lífeyrir á að hækka um a.m.k. 30%

Það þýðir ekki fyrir stjórnmálaforingja að berja sér á brjóst og segja,að þeir hafi gert einhver ósköp fyrir eldri borgara og öryrkja, þegar þeir standa ekki við það sem skiptir mestu máli. Leiðrétting á lífeyri vegna kjaragliðnunar krepputímans skiptir mestu máli; þýðir a.m.k 30% hækkun lífeyris. Það munar um það.Á valdatíma Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins frá 2013 hefur síðan  bætst við ný kjaragliðnun,sem einnig á eftir að leiðrétta.

Á meðan lífeyrir aldraðra og öryrkja frá almannatryggingum er svo lágur,að hann dugar ekki til framfærslu geta aldraðir og öryrkjar ekki gefið eftir uppgjör á loforðum um að bæta kjaragliðnun liðins tíma.Þarna hefur myndast skuld við lífeyrisþega, sem þeir verða að fá greidda.Þeir hafa ekki efni á því að lána ríkinu þetta lengur.

Björgvin Guðmundsson

Morgunblaðið,26.oktober 2018

 

 

 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 26. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband