Mánudagur, 4. janúar 2010
Eiríkur Tómasson: Kann að vera stjórnarskrárbrot að draga málið á langinn
Eiríkur segir ekki við neinar reglur að styðjast um hversu langan tíma forsetinn geti tekið sér til að gera upp hug sinn. Almennt séu lög undirrituð jafnóðum og þau berast frá Alþingi.
Það er ekkert athugavert við að forsetinn taki sér einhvern umþóttunartíma, en hann má að mínum dómi ekki vera lengri en örfáir dagar," segir hann og bendir á að ákvörðun forseta hafi legið fyrir daginn eftir að lögð voru fyrir hann lög um fjölmiðla í júníbyrjun 2004. Þau voru ekki lögð fyrir forseta fyrr en viku eftir að þau voru samþykkt á Alþingi.
Frídagar um áramótin segir Eiríkur að geri stöðuna sérstaka nú. Ef þetta hefði gerst í miðri viku hefði maður talið tímann fulllangan nú þegar."
Eiríkur segir tímann hins vegar geta skipt máli, enda sé þingið búið að samþykkja lagafrumvarp og síðan er gert ráð fyrir því að ef forsetinn synji lögum staðfestingar þá öðlist þau þegar gildi. Það getur oft legið á að lög öðlist gildi, þótt það geti verið misjafnt. Í þessu tilviki sem við stöndum nú frammi fyrir sjáum við að þótt lögin komi ekki til framkvæmda fyrr en eftir langan tíma þá getur skipt máli að eytt sé óvissu um það hvort þau öðlist gildi til frambúðar eða hugsanlega til bráðabirgða. Þess vegna væri það að mínum dómi brot á stjórnarskrá ef forsetinn færi að draga þetta á langinn umfram örfáa daga," segir hann og kveðst telja að forsetanum beri að gera upp hug sinn ekki síðar en í dag.
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, segir erfitt að geta sér til um mögulegar afleiðingar þess synji forseti Íslands lögunum staðfestingar. Það er náttúrlega líklegt að það gæti leitt af sér mikla pólitíska upplausn og alvarlegt ástand," segir hann, en rifjar um leið upp að það sama hafi menn haldið árið 2004 þegar fjölmiðlalögin hafi verið lögð fyrir forsetann. Þá varð reyndar ekki pólitísk upplausn. Hins vegar eru aðstæður kannski miklu erfiðari núna en voru þá," segir hann. Þannig sé ekki hægt að gefa sér að ríkisstjórnin myndi hrökklast frá nú þótt lögin yrðu ekki staðfest. En það kemur alveg til greina."
Ólafur telur hins vegar líklegra að forsetinn staðfesti lögin, þótt ómögulegt sé um það að spá.(visir,is)
Miklar getgátur voru um afstöðu forsetans í gær.M.a. sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra að eitthvað mundi gerast hjá forseta í gær.Töldu margir,að Steingrímur hefði eitthvað fyrir sér þegar hann lýsti þessu yfir en svo virðist ekki hafa verið.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:06 | Facebook
Athugasemdir
Heill og sæll, og gleðilegt nýtt ár, Björgvin.
Nú þykir mér týra. Spunafræði stjórnspekinga vestur á Melum sýnist mér ná nýjum hæðum hjá il professore Eiríki Tómassyni, þetta eru greinilega orðin mikil eksakt-videnskab hjá manninum, og væntanlega á hann eftir að gjöra það heyrinkunnugt á fréttamannafundi nú í hádeginu, nákvæmlega klukkan hvað í dag – svo sem til dæmis kl. 14.47:15, plús eða mínus 1–2 mínútur – umþóttunartími forsetans til að ákveða sig renni út samkvæmt stjórnarskránni, og þá er eins gott að sá virðingarmaður fari nú að leiðsögn vísindamannsins til að forðast stjórnarskrárbrot!
Hafi Eiríkur fengið þyngra hlutverk en þetta verk forsetans, mætti hann upplýsa okkur fáfróða um það í sama fréttatíma. En merkilega skrýtin þótti mér niðurstaða hans og annarra, sem fengnir voru til að gefa frumvarpinu stjórnarskrárlegan gæðastimpil, því að ég hélt alltaf, að framsal dómsvalds í mikilvægu máli til útlendinga væri klárt stjórnarskrárbrot, sér í lagi þegar það er ekki til alþjóðlega viðurkenndra mannréttindadómstóla, heldur til sérhyggjudómstóla Englendinga, sem eiga hagsmuna að gæta, en fengju nú vald til að úrskurða um alíslenzk gjaldþrotaskiptalög.
Eins sýnist mér og glöggum lögfræðingi á Alþingi það stjórnarskrárbrot að búa til fjárskuldbindingu íslenzka ríkisins EFTIR Á, þegar ekki var nein gjaldskylda fyrir (sbr. HÉR!), en lögspeki Eiríks er líklega sveigjanlegri i þessu efni, og lýsir það vitaskuld mikilli tillitssemi, en við hvern eða hverja, geta menn svo velt vöngum yfir.
En sendum þeim Melamönnum hjartnæmt þakklæti okkar fyrir þeirra miklu hugsun.
Menn geta annars líka lesið þetta í blálokin fyrir ákvörðun forsetans: Ragnar H. Hall: Er rétt að samþykkja þetta frumvarp?
Jón Valur Jensson, 4.1.2010 kl. 10:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.