Miðvikudagur, 20. janúar 2010
Langtímaatvinnuleysi nær til 10 þús. manns
Vinnumálastofnun (VMST) gerir ráð fyrir því að langtímaatvinnuleysi muni ná til allt að tíu þúsund manns innan fárra mánaða. Hópurinn þrettánfaldaðist á síðustu tólf mánuðum. Unnið er að sérstöku átaki til að afstýra því að félagslegar og sálfræðilegar afleiðingar þessa vanda vaxi mönnum yfir höfuð.
Karl Sigurðsson, sviðsstjóri vinnumálasviðs Vinnumálastofnunar, segir að ef svartsýnustu spár gangi eftir geri VMST ráð fyrir því að langtímaatvinnuleysi nái til um tíu þúsund manns þegar líður á árið. Þetta er háð því að mál þróist með sama hætti og á undanförnum mánuðum að stöðnunin á vinnumarkaðinum verði til lengri tíma. Auðvitað vonast maður til að eitthvað fækki í þessum hópi á móti."
Á milli desembermánaða 2008 og 2009 þrettánfaldaðist hópurinn sem hafði verið atvinnulaus í meira en ár. Í lok desember 2009 voru þeir 3.224 en voru 255 í sama mánuði 2008. Á næstu tveimur mánuðum er fyrirsjáanlegt að talan hækki í yfir fimm þúsund manns.
Hrafnhildur Tómasdóttir, deildarstjóri ráðgjafardeildar VMST, segir langtímaatvinnuleysi sérstakt áhyggjuefni og stofnunin sé um þessar mundir að grípa til sérstaks átaks undir hennar stjórn. Fjármagn hefur fengist til að ráða tíu nýja ráðgjafa, ekki síst til að taka á vanda ungs fólks. Þar er áherslan á að bjóða fjölda úrræða til að stoppa þann vítahring sem farinn er af stað.
Hrafnhildur segir að reynsla annarra þjóða sýni að eyðileggingarmáttur langtímaatvinnuleysis sé mikill og afleiðingar þess sjáist víða í þeim samfélögum sem við vandann hefur glímt. Margir vitna til týndu kynslóðarinnar eftir finnsku kreppuna á tíunda áratug síðustu aldar.
Þar er átt við óvirkni ungs fólks sem leiddi til þess að stór hópur kom aldrei út á vinnumarkaðinn," segir Hrafnhildur.
Hrafnhildur segir það þekkt hversu margir finna fyrir tilgangsleysi þegar fá tækifæri bjóðast og alvarlegast sé að þeir sömu aðlagast atvinnuleysinu og staðna þar. Því fylgir félagsleg einangrun.
Þetta á við alla, sama á hvaða aldri þeir eru. Fólk upplifir höfnun og finnst það einskis nýtt sem hefur áhrif á bæði andlega og líkamlega heilsu. Þekkt er að atvinnuleysi leiðir til örorku fjölda manna þegar aðstæður eru þessar á vinnumarkaði."(visir,is)
Þetta eru mjög alvarlegar upplýsingar. Ljóst er,að ekki hefur verið nóg að gert til þess að auka atvinnu og draga úr atvinnuleysi. Framkvæmdir,sem boðaðar höfðu verið hafa drergist of lengi. Samgönguráðherra segir nú að ýmsar vegaframkvæmdir séu tilbúnar í útboð. Það er vel og ekki vonum seinna.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.