Laugardagur, 23. janúar 2010
Stjórnlagaþingi frestað
Ólíklegt er talið að stjórnlagaþing verði kallað saman á þessu ári til að endurskoða stjórnarskrána eins og til stóð. Kosningu til stjórnlagaþings verður væntanlega frestað til næsta árs.
Engar viðræður eru hafnar milli flokkanna um stjórnarskrárbreytingar eftir að forseti beitti synjunarvaldi sínu í Icesave málinu þó ýmsir stjórnarliðar hafi kallað eftir þeim.
Samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar á að kjósa til stjórnlagaþings í síðasta lagi samhliða sveitastjórnakosningunum í lok maí. Stjórnlagaþingið átti að koma saman 17. júní og koma sér saman um breytingar á stjórnarskrá. Frumvarp forsætisráðherra um málið er enn til umfjöllunar í allsherjarnefnd Alþingis.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður nefndarinnar, sagði í samtali við fréttastofu að þó æskilegast væri að kosið yrði samhliða sveitastjórnakosningum væri ólíklegt að af því yrði miðað við stöðu málsins í nefndinni. Málið yrði þó afgreitt úr nefndinni á vorþingi og kosið við fyrsta tækifæri verði frumvarpið samþykkt. Þegar forsætisráðherra mælti fyrir málinu á Alþingi útilokaði hann ekki að fresta kosningu til stjórnlagaþings til ársins 2011.
Eftir að Ólafur Ragnar Grímsson forseti synjaði Icesave lögum staðfestingar hafa margir, meðal annars stjórnarþingmenn, kallað eftir endurskoðun á stjórnarskrá. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, telur það ótímabært. Óráðlegt sé að blanda þessari vinnu ofan í þau verkefni sem menn séu með í fanginu. Hann segir sjálfstæðismenn hlynnta því að haldið verði áfram með heildarendurskoðun á stjórnarskránni og þar séu öll þessi mál undir.
Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, vill hins vegar hefja þessa vinnu. Ljóst sé að flokkunum hafi mistekist á undanförnum árum að endurskoða stjórnarskránna. Mikilvægt sé að þjóðin hafi beina aðkomu að slíku með stjórnlagaþingi.(ruv.is)
Það er skaði,að reynst hafi nauðsynlegt að fresta stjórnlagaþingi. Það var krafa búsáhaldabyltingarinnar að stjórnarskránni yrði breytt og haldið sérstakt þing um það mál. Sjálfstæðisflokkurinnn hefur barist hatrammlega gegn slíku þingi.Ríkisstjórnin ætlaði að samþykkja á alþingi sl. ár að efna skyldi til stjórnlagaþings á sl. ári eða á yfirstandandi ári en Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið í veg fyrir það. Nú er ljóst,að stjórnlagaþing verður ekki fyrr en 2011.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:05 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.