Þriðjudagur, 26. janúar 2010
Sérstakur saksóknari gerir húsleitir
Sérstakur saksóknari gerir í dag húsleit hjá Exista, lögmannsstofunni Logos, Deloitte og Lýsingu í Reykjavík. Samkvæmt hiemildum fréttastofu er leitað hjá Logos að gögnum sem tengjast Exista og Bakkavör.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, staðfesti við fréttastofu að efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, Serious Fraud Office, leiti samtímis hjá íslenskum aðilum í Lundúnum.
30 manns taka þátt í aðgerðinni hér á landi og mun hún standa yfir í allan dag. Fjórir menn frá embætti saksóknara efnahagsbrota hjá ríkislögreglustjóra tóku þátt í húsleitunum í dag.
Kæra Nýja Kaupþings ástæða leitanna
Samkvæmt fréttatilkynningu frá Exista beinist rannsóknin annars vegar að viðskiptum með hluti Exista í Bakkavör. Nýja Kaupþing, nú Arion banki, kærði bræðurna Ágúst og Lýð Guðmundssyni til sérstaks saksóknara síðasta haust vegna kaupa þeirra á Bakkavör út úr Existu. Exista lánaði bræðrunum 8,5 milljarða króna vegna viðskiptanna. Arion banki telur að með þeim viðskiptum hafi verið brotið gegn grein í auðgunarbrotakafla hegningarlaga. Við því liggur allt að sex ára fangelsi.
Hins vegar beinist rannsóknin að hlutafjárhækkun Exista í desember 2008. Arion banki kærði bræðurna og aðra stjórnendur Exista, sem og nokkra starfsmenn Deloitte og Logos lögmannsþjónustu, fyrir brot á hlutafélagalögum. Ágúst og Lýður tilkynntu þá að þeir myndu leggja Exista til nýtt hlutafé: einn milljarð króna í hlutabréfum í félaginu Kvakki, sem var í eigu bræðranna. Þannig gætu þeir eignast félagið að langmestu leyti. Stjórn Nýja Kaupþing sagðist þá ekki ætla að una viðskiptunum enda hafði bankinn sjálfur undirbúið yfirtöku á Exista til að verja hagsmuni sína. Um það hafði Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista, verið upplýstur.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem sérstakur saksóknari gerir húsleit hjá lögmannsþjónustunni Logos. Þar var einnig leitað í sumar vegna rannsóknar á hlutabréfakaupum sjeiks al Thani í Kaupþingi.(ruv.is)
Því ber að fagna,að sérstakur saksóknari hefur tekið rögg á sig og herðir nú rannsóknir á hugsanlegum fjárglæpamálum.Almenningi hefur fundist alltof lítið ganga í rannsókn þessara mála.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.