Húsaleiga lækkar í Reykjavík

Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hefur að jafnaði lækkað um 13 til 32 prósent síðan á vordögum 2008. Þetta er niðurstaða nýrrar verðkönnunar Neytendasamtakanna, sem er sú þriðja sem samtökin ráðast í á tæpum tveimur árum.

Mest hefur leiguverð lækkað á fimm herbergja íbúðum, sem eru 163 fermetrar að meðalstærð samkvæmt könnuninni. Meðalverð á þeim hefur lækkað um tæp 32 prósent síðan í apríl 2008, eða um 55 þúsund krónur, og er nú tæpar 174 þúsund krónur á mánuði.

Meðalverð á fjögurra herbergja íbúðum hefur lækkað um 15,6 prósent, niður í tæpar 147 þúsund krónur. Meðalverð á þriggja herbergja íbúðum hefur lækkað minnst, eða um 13,3 prósent, niður í um 124 þúsund krónur. Tveggja herbergja íbúðir kosta að meðaltali rúmar 100 þúsund krónur á mánuði og hafa lækkað um 18,8 prósent, en meðalverð á stúdíóíbúðum hefur lækkað mest, um 20,1 prósent, niður í 76 þúsund krónur á mánuði.

Neytendasamtökin taka fram að könnunin sé alls ekki tæmandi, heldur hafi einungis verið skoðaðar íbúðir sem auglýstar voru til leigu hjá leiga.is, Leigulistanum og Rentus. Þá hafi ekki verið tekið tillit til kostnaðar sem kynni að skapast vegna rafmagns eða hússjóðs, eða þess hvort húsbúnaður fylgir íbúðinni.

„Þó má gera ráð fyrir að raunveruleg lækkun sé umtalsvert meiri, enda gera flestir leigusamningar ráð fyrir því að leiguverð breytist með tilliti til neysluvísitölu," segir í frétt á vef Neytendasamtakanna. „Þeir sem tóku t.a.m. íbúð á langtímaleigu árið 2008 greiða því mun hærra leiguverð nú en samið var um í upphafi sé leiguupphæðin tengd við vísitölu."

Síðasta könnun var gerð í mars í fyrra og hefur fermetraverð á öllum stærðum íbúða hækkað lítillega síðan þá. Það hefur hins vegar lækkað verulega síðan vorið 2008.(ruv.is)

Það er jákvætt,að  húsaleiga skuli hafa lækkað  í Reykjavík og nágrenni. Húsaleiga var orðin óheyrilega há og erfitt var orðið fyrir láglaunafólk að taka á leigu húsnæði.Húsnæðiskostnaður er mjög stór hluti útgjalda fólks og því skiptir miklu máli hver sá kostnaður er.

 

Björgvin Guðmundsson

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband