Laugardagur, 6. febrúar 2010
Ný Icesave lausn í sjónmáli?
Grundvöllur að nýjum samningaviðræðum um Icesave er í sjónmáli. Bjartsýni og jákvæðni gætir á öllum vígstöðvum. Samræður stjórnar og stjórnarandstöðu á Íslandi síðustu daga hafa gengið vel og fært menn nær hvorum öðrum. Góður tónn var í breskum og hollenskum ráðherrum á fundi með þremur flokksformönnum í Haag fyrir rúmri viku.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins leggja Bretar og Hollendingar höfuðáherslu á að fá höfuðstól Icesave-skuldarinnar greiddan. Nemur hann tæpum 700 milljörðum króna. Lýstu þeir sig reiðubúna til viðræðna um hvaðeina annað, svosem afborgunartíma og vexti. Á móti kemur að þeir vilja ekki að málið verði sett í dóm. Er horft til þess að vextir verði breytilegir, en ekki fastir eins og bundið var í fyrri samninga.
Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst miðar nú vinnan á Íslandi ekki síst að því að leita allra leiða til að hámarka eignir þrotabús Landsbankans. Erlendir sérfræðingar hafa verið fengnir til ráðgjafar. Nýjustu spár gera ráð fyrir að eigurnar kunni að duga fyrir rúmlega níutíu prósentum Icesave-skuldanna. Vongóðir segja mögulegt að eigurnar standi undir öllum kostnaðinum. Niðurstaðan kemur ekki í ljós fyrr en að nokkrum árum liðnum þar sem þrotameðferð tekur jafnan talsverðan tíma.
Það er Bretum og Hollendingum nokkuð kappsmál að málinu verði lokið sem fyrst. Íslenskir stjórnmálamenn eru sömu skoðunar. Hérlendis óttast menn raunar að snurða kunni að hlaupa á þráðinn ef málið tefst úr hófi fram. Þokist sjáanleg lausn of nærri fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin frá því í desemberlok geti spillst fyrir nýfengnu ágætu samstarfi formanna flokkanna. Þeir þurfi að beita sér í kosningabaráttu. (visir,is)
Vonandi gengur það eftir,að ný og betri lausn á Icesave málinu náist.Hvort sú lausn verði það mikið betri,að hún vegi upp skaðann af seinkun málsins á eftir að koma í ljós,en væntanlega verður meiri sátt um nýja lausn ef betri vaxtakjör fást og greiðslubyrði lækkar.Þjóðin er orðin mjög þreytt á þessu máli og tími til kominn að leysa það.
Björgvin Guðmundsson
-
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.