Miðvikudagur, 10. febrúar 2010
Hrein eign lífeyrissjóðanna 1794 millj. kr.
Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að af einstökum eignaliðum munar mestu um 17,6 milljarða kr. hækkun á ríkisbréfaeign sjóðanna. Þetta endurspeglar lækkun ávöxtunarkröfu óverðtryggða bréfa í desembermánuði sem og kaup lífeyrissjóða á ríkisbréfum en þeir hafa verið mjög atkvæðamiklir í síðustu ríkisbréfaútboðum og þá stórtækir kaupendur í lengsta flokki ríkisbréfa, þ.e. RIKB25.
Í lok desember 2009 hefur hrein eign lífeyrissjóðanna hækkað um 203 milljarða kr. frá sama tíma fyrir ári sem jafngildir hækkun upp á 12,8% að nafnvirði. Sé tekið tillit til verðbólgu nemur hækkunin 4,9%. Í krónum talið er hrein eign lífeyrissjóðanna hærri en hún var fyrir hrun bankanna. Þannig var hrein eign lífeyrissjóðanna í lok desember 23,1 milljarðar kr. hærri en hún var í lok september sem jafngildir 1,3% hækkun að nafnvirði.
Að raunvirði er hrein eign sjóðanna þó lægri en hún var fyrir hrun, eða sem nemur um 4%. Þó ber að hafa í huga að enn eru ekki öll kurl komin til grafar varðandi endanlegt tap sjóðanna af fyrirtækjaskuldabréfum og fleiri eignum í kjölfar bankahrunsins. Liggur því nokkur óvissa um endanlegt mat á eignum lífeyrissjóðanna og ber þess vegna að taka mati á hreinni eign sjóðanna með fyrirvara. Auk þess eru iðgjaldagreiðslur í íslenska lífeyrissjóði mun hærri en lífeyrisgreiðslur og er því raunávöxtun sjóðanna töluvert minni en sem nemur raunbreytingu á hreinni eign þeirra frá einum tíma til annars.
Stærsta áfallið fyrir sjóðina í kjölfar bankahrunsins var af innlendri hlutabréfaeign. Í lok september 2008 áttu lífeyrissjóðirnir 150,7 milljarða kr. í innlendum hlutabréfum og hlutabréfasjóðum en mánuði síðar var sú eign komin niður í 41,6 milljarða kr.
Staða þeirra á innlendum hlutabréfamörkuðum er enn sáralítil og nú í lok desember síðastliðinn var eign sjóðanna í innlendum hlutabréfum og hlutabréfasjóðum 41,5 milljarðar kr. sem svarar til 2,3% af hreinni eign þeirra. Á hinn bóginn var vægi erlendra hlutabréfa og hlutabréfasjóða af hreinni eign í lok desember 22,6%.
(visir.is)
Þetta er mikil eign og bent hefur verið á að lífeyrissjóðirnir á Íslandi séu að tiltölu jafnmikil eign og olíusjóðurinn norski sem skapað hefur ríkidæmi Norðmanna ( olíuvinnslan).Við þurfum að fara vel með lífeyrissjóðina og ekki hætta þeim í brask erlendis., Hins vegar getur sjóðurinn hjálpað okkur út úr kreppunni með því að lána hóflega og af mikilli varkárni til verkefna innan lands,sem geta skapað vinnu og dregið úr atvinnuleysi.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:33 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.