Fimmtudagur, 11. febrúar 2010
ASÍ: Heimilin sitja á hakanum.Hagsmunir rukkara í fyrirrúmi
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands segir að aðgerðir stjórnvalda vegna greiðsluvanda heimilanna hafi verið í skötulíki.
Í ályktun miðstjórnarinnar frá í gær er gagnrýnt að milljörðum hafi verið varið til skilanefnda bankanna sem hafa það hlutverk að lágmarka tjón og hámarka eignir, eins og segir þar. Verðmæti heimilanna og velferð fjölskyldnanna í landinu séu hins vegar ómetanlegir hagsmunir allrar íslensku þjóðarinnar. Stjórnvöld eiga að hafa kjark og þor til að setja heimilin í landinu í fyrsta sæti, segir miðstjórn ASÍ.
Löggjöfin í dag er sniðin að þörfum kröfuhafa og rukkara, segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, í samtali við Fréttablaðið. Bæta þurfi samningsstöðu fólks gagnvart bönkunum.
Við erum alltaf að fá dæmi um hvað er farið hrikalega illa með fólk, segir Gylfi. Hann nefnir dæmi um að vegna þriggja mánaða vanskila upp á 100.000 krónur séu lán gjaldfelld í heild og lögfræðikostnaður reiknaður af höfuðstólnum. Í stað 100.000 króna þurfi skuldari þá að greiða 1,3 milljónir. Það er alltaf verið að gera þetta. Það á að setja lög sem banna þetta. Þetta er sjálftaka lögfræðinga. Fólk hefur enga samningsstöðu og missir húsnæði sitt, segir Gylfi. Það á að setja lög sem vernda fólk en ekki rukkarana.
Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra sagði í umræðum á Alþingi í síðustu viku að Íslendingar hefðu áratugareynslu af bönkum sem ekki höfðu sýnt sérstakan áhuga á því að þjóna fólki heldur þvert á móti að hundelta það. Löggjöfin sé óeðlilega kröfuhafavæn. Réttindi skuldara hafa verið fyrir borð borin áratugum saman, sagði Árni Páll. Ráðherrann, sem er lögfræðingur að mennt, sagði að íslenskir lögfræðingar væru aldir upp við það að líta á það sem glæp að fólk borgi ekki skuldir sínar og sýna mjög takmarkaðan skilningi á því að fólk getur lent í þeim aðstæðum að það fái ekki risið undir skuldum sínum og eigi þess vegna rétt á að losna við þær.
Gylfi segir að þrátt fyrir hvöss orð ráðherrans og stjórnvalda hafi úrbætur látið á sér standa. Við viljum að menn tali minna og geri meira og að þessi afstaða fari að birtast í lagasetningu, segir hann. Það er ekki nóg að lýsa afstöðu, það þarf að fara með mál í gegnum Alþingi.(visir.is)
Ég er sammála gagnrýni ASÍ. Það er sorglega lítið gert fyrir heimilin í skuldavanda þeirra og brýnt að gera frekari umbætur og róttækar lagfræringar.Það hefur allt snúist um hagsmuni fjármagnseigenda,skuldareigenda.Er ekki röðin komin að heimilunum?
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.