Sunnudagur, 14. febrúar 2010
Er gjaldþrot glæpur?
Það ríkir mikil reiði í þjóðfélaginu vegna bankahrunsins og út í þá sem bera ábyrgð á því.Mikið af fyrirtækjum er gjaldþrota eða við það að verða gjaldþrota og hið sama er að segja um einstaklinga.Fjöldi þeirra er einnig gjaldþrota eða við það að missa eignir sínar.Almenningur er að vonum óánægður með þetta ástand.Menn freistast til þess að hafa stór orð um gjaldþrot fyrirtækja og margir telja jafnvel að það sé glæpur að láta fyrirtæki fara í gjaldþrot.En engin gerir sér leik að því að láta fyrirtæki fara í gjaldþrot. Og hið sama er að segja um einstaklinga. Menn reyna allt til þess að bjarga fjármálum sínum áður en þeir lýsa sig gjaldþrota.Ef ekki er um undanskot eigna að ræða er ekkert ólöglegt við gjaldþrot.En margir líta á það sem mikla niðurlægingu.Sumir harðsvíraðir atvinnurekendur hafa hins vegar lýst fyrirtæki sín gjaldþrota oftar en einu sinni og blikna ekki við slíkt.Ég fullyrði þó að þeir séu fleiri sem verða fyrir miklu áfalli við að missa stjórn á fjármálum sínum hvort sem um fyrirtæki eða heimili er að ræða.
Menn stimla alla útrásarvíkinga sem glæpamenn.En vissulega er mjög misjafnt hvernig rekstur var í útrásinni og hversu varlega eða óvarlega var farið.T.d. var Marel í útrás en stjórnendur fyrirtækisins virðast allan tímann hafa haft góða stjórn á rekstri og fjármálum fyrirtækisins. Og fleiri dæmi má finna um útrásarfyrirtæki sem hafa verið vel rekin og ekki lent í neinum stórum fjárhagsvandræðum.Stærstu útrásarfyrirtækin eru umdeildust svo sem Baugur, starfsemi Sjóvá í Asíu,starfsemi Ólafs Ólafssonar erlendis,Icesave,starfsemi Björgólfs Thor erlendis,Bakkavör og síðast en ekki síst útrás bankanna erlendis,kaup á útibúum og önnur fjárfesting ytra.Erfitt er þó fyrir almenning að átta sig á því hvort umrædd starfsemi ytra hafi á einhvern hátt brotið lög. Fyrst og fremst virðist hafa verið um óvarkárni og glannaskap að ræða.Einhver dæmi munu einnig um að farið hafi verið á svig við lög.T.d. er spurning hvort fjárfesting Sjóvá í Asíu hafi ekki verið ólögleg alla vega að nota bótasjóðinn í fjárfestingu ytra.Ólafur Ólafsson virðist tengjast markaðsmisnotkun Kaupþings og sennilega hafa allir bankarnir gerst sekir um markaðsmisnotkun. Hvort einhver lögbrot felast í stofnun Icesave reikninganna skal í ósagt látið en þar var alla vega um mikla óvarkárni að ræða og glannaskap og eftirlitsstofnanir brugðust. Rannsakað verður að sjálfsögðu við öll gjaldþrot hvort um ólögmæt undanskot eigna hefur verið að ræða.Almenningur gerir kröfu til þess að hart verði tekið á öllum lögbrotum og að hinir seku hljóti makleg málagjöld.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:00 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.