Ruglið heldur áfram: Ofurlaun skilanefndarmanna

Mánaðarlaun skilanefndarmanna og slitastjórna í Glitni, Kaupþingi og gamla Landsbankanum námu allt frá þremur til fimm milljónum króna á mann í fyrra. Líkur eru á að þau verði jafn há á þessu ári.

Skilanefndir og slitastjórnir eru ekki á launaskrá gömlu bankanna heldur fá þær greiddar sem verktakar fyrir sérfræðistörf. Féð rennur ekki beint í vasa nefndarmanna heldur lögfræðistofa og endurskoðendafyrirtækja sem nefndarmenn starfa hjá. Fyrirtækin greiða þeim laun og standa skil á launatengdum gjöldum.

Kostnaðurinn fellur undir innlendan sérfræðikostnað í yfirliti Glitnis og Kaupþings um rekstrarkostnað skilanefnda í fyrra en er tilgreindur hjá Landsbankanum. Þar nam hann 178 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum síðasta árs.

Í skilanefndum bankanna sitja sjö lögfræðingar og endurskoðendur en í slitastjórnunum sitja níu með sama bakgrunn. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er kostnaður skilanefnda miklu hærri en slitastjórna.
Starfsmenn skilanefnda eru með í kringum 25 þúsund krónur á tímann, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Þetta er í samræmi við meðallaun lögfræðinga hér á landi en þau þykja ekki há í alþjóðlegum samanburði. Dæmi er um að lögfræðistofur í Bretlandi rukki allt að 650 pund á tímann. Það gera um 130 þúsund íslenskar krónur.

Skilanefndir bankanna þriggja þurfa að gera óformlegu kröfuhafaráði (ICC) grein fyrir öllum kostnaði.

Hvorki náðist í Árna Tómasson, formann skilanefndar Glitnis, né þá Steinar Guðgeirsson, formann skilanefndar Kaupþings, og Lárentsínus Kristjánsson, formann skilanefndar Landsbankans, vegna málsins í gær.-(visir.is)

Hvernig má það vera að  það líðist að skilanefndarmenn hafi 3-5 millj.,kr., í laun á mánuði á sama tíma og 16000 manns eru atvinnulausir og laun verkafólks eru innan við 200 þús. á mánuði. Ríkisstjórnin lýsti því yfir að enginn ætti að hafa hærri laun en rúmar 900 þús. á mánuði. Illa hefur gengið að framfylgja því.

 

Björgvin Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband