Þriðjudagur, 23. febrúar 2010
Kaupþing felldi niður ábyrgðir starfsmanna fyrir 47,3 milljarða skuldum.Skattskylt
Starfsmenn Kaupþings sem fengu skuldir sínar við bankann felldar niður gætu þurft að greiða allt að sautján og hálfan milljarð króna í skatt. Þetta má ráða af áliti sem Ríkisskattstjóri hefur sent frá sér.
130 starfsmenn Kaupþings fengu 47,3 milljarða króna að láni frá bankanum til hlutabréfakaupa. Gamla stjórn bankans ákvað á stjórnarfundi tveimur vikum áður en að bankinn féll að fella niður allar persónulegar ábyrgðir starfsmannanna vegna lánanna.
Skattyfirvöld hafa undanfarið unnið að áliti um hvort að niðurfellingarnar á lánunum séu skattskyldar. Samkvæmt heimildum barst Arion banka, sem tók lánin yfir, álitið fyrir helgi. Í því kemur fram að niðurfellingin myndi skattskyldar tekjur þar sem aðeins tiltekinn hópur starfsmanna fékk þessi lánakjör á grundvelli starfssambandsins við bankann og því má líta á þetta sem hluta af launakjörum. Ljóst er að nái þetta fram að ganga munu skattaskuldir þeirra sem töldu sig hafa sloppið með skrekkinn verða himinháar - eða allt að sautján og hálfur milljarður króna.
Meðal þeirra sem fengu lán og fá væntanlega háan reikning frá skattinum eru Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Kristján Arason. Lánveitingar til þeirra þriggja nema tæplega 15 milljörðum króna.
Ekki er þó víst að sautján og hálfur milljarður skili sér í ríkiskassann, þar sem skattlagningarrétturinn kann að vera erlendis í einhverjum tilfellum auk þess sem greiðslugeta viðkomandi getur verið slæm.
(visir,is)
Sú ákvörðun Kaupþings að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna vegna þessara lána er furðuleg og mikil spurning hvort hún stenst lög. Alla vega er nú komið í ljós að hér er um skattskyld hlunnindi að ræða og gætu skattar numið17,5 milljörðum kr. Öll stjórn á Kaupþingi orkar mjög tvímælis,svo sem háar bónus greiðslur og himinhá lán til eigenda og tengdra aðila.Allt þetta þarf að rannsaka til þess að athuga hvort lög hafa verið brotin.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.