Þriðjudagur, 23. febrúar 2010
Mikil aukning útgjalda hins opinbera sl. 30 ár.íhald og Framsókn stjórnaði mestallan tímann
Út eru komin Hagtíðindi í efnisflokknum þjóðhagsreikningar um útgjaldaþróun hins opinbera, þ.e. ríkis, sveitarfélaga og almannatrygginga. Meginmarkmið ritsins er að gefa yfirlit um umfang og þróun útgjalda hins opinbera á árunum 1998-2008. Áherslan er á útgjaldaþróun helstu málaflokka hins opinbera með tilliti til fjárhæða, hlutfalla og vaxtar að raungildi, en einnig á einstök verkefni og verkefnasvið hins opinbera á þessu árabili. Þá er stuttlega fjallað um útgjaldaþróunina frá árinu 1980.
Af helstu niðurstöðum má nefna að frá árinu 1980 hafa útgjöld hins opinbera vaxið um nálægt 11 prósentustig af landsframleiðslu eða úr 34,1% af landsframleiðslu í 44,8% árið 2008 (192 milljarða króna yfirtaka ríkissjóðs á töpuðum kröfum Seðlabanka Íslands 2008 er þá ekki meðtalin). Á sama tíma jukust útgjöld ríkissjóðs úr 27,5% af landsframleiðslu árið 1980 í 32,2% árið 2008 og útgjöld sveitarfélaga úr 7,1% af landsframleiðslu 1980 í 14,0% 2008. Mikill vöxtur í útgjöldum sveitarfélaga skýrist m.a. af yfirtöku verkefna frá ríkissjóði (eins og grunnskólans) en einnig hefur þjónusta þeirra vaxið jafnt og þétt. Útgjöld almannatrygginga hafa hins vegar vaxið minna á þennan mælikvarða eða úr 6,8% af landsframleiðslu 1980 í 7,4% árið 2008.
Á föstu verðlagi (miðað við verðvísitölu samneyslunnar) hafa útgjöld hins opinbera vaxið úr 1.087 þúsund krónum á mann árið 1980 í 2.071 þúsund króna árið 2008 (án yfirtöku) og því nánast tvöfaldast (91% vöxtur) á mann á þessu tímabili. Á sama tíma jukust útgjöld ríkisjóðs úr 875 þúsund krónum á mann í 1.492 þúsund krónur 2008 (án yfirtöku) og er raunvöxturinn rúmlega 70%. Útgjöld sveitarfélaga á mann hafa aukist mun meira eða nánast þrefaldast (185% vöxtur) á tímabilinu á þennan mælikvarða. Útgjöldin námu 226 þúsund krónum á mann 1980 en voru 646 þúsund krónur árið 2008. Útgjöld almannatrygginga hafa vaxið úr 217 þúsund krónum á mann 1980 í 341 þúsund krónur árið 2008 og er raunvöxturinn því 57% á umræddu (heimasíða Hagstofu)
Athyglisvert er að útgjöld hins opinbera skuli hafa aukist svona mikið og þar á meðal útgjöld ríkisins þegar haft er í huga að Sjálfstæðisflokkurinn fór með stjórnarforustu mestan hluta umrædds tímabil en sá flokkur þykist á móti miklum ríkisútgjöldum.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.