Fimmtudagur, 25. febrúar 2010
Velferðarríkið okkar:Með 155 þús. á mánuði með 3 börn
Sesselja er ein þeirra sem sagt hefur verið upp á spítalanum í miklum niðurskurði. Hún segist halda 80% starfi hjá Barnaspítala hringsins til 1. maí en sér hafi verið boðið lægra starfshlutfall á Landspítalanum. Hún segir að útborguð laun hennar séu um 155 þúsund á mánuði en hún er einstæð með þrjú börn. Samkvæmt neysluviðmiði Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna eiga henni að duga 143.900 krónur á mánuði en þar er ekki gert ráð fyrir rekstri bifreiðar.
Sesselja segir að allir sínir peningar fari í mat. Hún hafi haft fyrirvinnu en svo sé því miður ekki lengur. Hún hafi þó getað leyft börnunum að vera í tómstundum þar sem hún hafi ekki verið ein um að framfæra þeim og vonandi verði það áfram. Hún segir að launin dugi vel fram yfir miðjan mánuð en þá þurfi að fara að skera niður og spá í hverja einustu krónu. Hún telur að þetta hafi ekki bitnað á börnunum sínum enda séu þau nægjusöm. Þau hafi haft það ágætt hingað til en nú séu verri tímar framundan. Hún sjái ekki fram á að hún muni hafa efni á öllu því sem hún hafi haft efni á hingað til.
Margrét Pétursdóttir, verkakona og varaþingmaður VG, sagði að það þýddi ekki að líta á ástandið rómantískum augum og hugsa hvað allir verði duglegir að bjarga sér; Fara í Pollýönnu-leikinn og hugsa að fólkið í Afríku hafi það miklu verra. Sesselja tekur undir þetta að hluta og segist upplifa það að fólk vilji ýta ástandinu hjá þeim sem glíma við fátækt til hliðar og líta á björtu hliðarnar og lifa sínu lífi. Hún geri það sjálf og reyni að hugsa ekki um þetta á hverjum degi.
Margrét Pétursdóttir benti á að margir væru eflaust búnir að nota allt sitt sparifé og fá þá hjálp frá ættingjum sem í boði sé. Forgangsröðun stjórnvalda virki arfavitlaus á fólk. Hún spyr hvernig hægt sé að setja 100 milljarða í nýtt sjúkrahús þegar við liggi að loka þurfi sjúkrahúsinu sem er fyrir. Almenningur sé ekki að hugsa um að nýja sjúkrahúsið verði hagkvæmt þegar fram í sæki; almenningur hugsi um það sem gerist í dag.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra bendir á að búið sé að grípa til margvíslegra úrræða sem séu að gagnast mörgum. Það megi ekki gleymast. Í einum bankanum sé búið að vinna úr málum þúsund heimila. Það breyti þó ekki því að fjöldi fólks eigi í miklum erfiðleikum; líklega einhversstaðar á bilinu 12-35%. Skýrslur og kannanir séu misvísandi. Við séum að ganga í gegnum mjög erfitt tímabil en verðum að vona að þetta reynist tímabundið ástand sem vari í aðeins 2-3 ár.
Aðspurður um aðstæður Sesselju sem hefur 155 þúsund krónur í útborgaðar í lok mánaðarins segir Steingrímur að erfitt sé að standa frammi fyrir slíkum dæmum og erfitt að sjá hvernig fólk geti komist af til lengri tíma. Fólk eigi að geta nýtt sér þau úrræði sem í boði eru eins og að borga bara vexti af lánum meðan ástandið er hvað erfiðast. Ef menn geti tekið út séreignasparnað eigi þeir að gera það til fleyta sér í gegnum þetta tímabil. En sumir komist í þær aðstæður að úrræðin dugi ekki og þá eigi fólk að leita sér aðstoðar og snúa sér til sveitarfélagsins. Fólk eigi frekar að gera það heldur en að gefast upp eða brotna niður.(ruv.is)
Kjör Sesselju eru slæm og ljóst,að hún getur ekkert veitt sér neitt með 155 þús. á mánuði.Hún lifir ekki mannsæmandi lífi. Hún rétt skrimtir. Hið sama er að segja um einhleypa ellilífeyrisþega,sem hafa einungis tekjur frá almannatryggingum.Þeir hafa 155 þús. eftir skatt.Þeir lifa heldur ekki mannsæmandi lífi. Kjör þessa fólks eru ekki til marks um gott velferðarkerfi.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þessi lífskjör sem Skjaldborgar Ríkistjórn fólksins er að skaffa þeim sem eru varnarlausir í þjóðfélaginu eru satt að
segja í anda þess sem eg bjóst við.
Það að halda heimili fyrir þessa upphæð er ekki hægt nema í skamman tíma.
Þá fara að hlaðast upp skuldir og fólk fer á götuna.
Það er bara þannig.
Eldri borgarar fá útborgað 130 þús frá Tryggingarstofnun eftir skatt og eftir að búið er að taka af þeim þær hækkanir sem
hugsanlega gætu orðið á Lífeyri þeirra frá sjóðum.
Þeir fá minna en öryrkjar þótt veikir seu.
Á að setja þetta fólk í úyrymingarbúðir ?
kv. ERLA M
Erla Magna Alexandersdóttir, 25.2.2010 kl. 11:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.