Föstudagur, 26. febrúar 2010
Kjararáð lækkar laun ríkisforstjóra
Ríkisstjórnin boðaði snemma síðasta sumar að enginn ríkisforstjóri eða embættismaður skyldi vera með hærri laun en sjálfur forsætisráðherrann sem hefur 935 þúsund krónur á mánuði. Að auki fær forsætisráðherrann greitt fyrir að leysa forsetann af þegar hann er í útlöndum, bílahlunnindi og sérstaka greiðslu í svokallaðan starfskostnað.
Kjararáð ákveður laun og starfskjör hundruða embættismanna og 11. ágúst færði síðan Alþingi tugi ríkisforstjóra undir ráðið með lögum. Laun í um 40 opinberum fyrirtækjum og stofnunum voru undir. Nokkurn tíma hefur tekið að klára málið enda ýmis vafamál um hvað gilda skuli um dótturfyrirtæki og deildarstjóra þegar vinnuhlutfall er ekki 100%. Þá voru menn líka í vafa um hvort laun bankastjóra nýju bankanna skyldu vera með í þessum pakka.
Samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar var á sjötta tug embættismanna og ríkisforstjóra með hærri laun en forsætisráðherra í fyrra. Að auki voru hátt í 350 læknar með hærri laun en ráðherrann. Eftir hádegið í dag er að vænta úrskurðar Kjararáðs um launalækkun 23 í þessum hópi. Þeirra á meðal eru forstjóri Landspítalans, Seðlabankastjóri og bankastjóri Landsbankans.
Engin þeirra á eftirleiðis að vera með hærri grunnlaun en forsætisráðherrann. Heildarlaunin geta eftir sem áður, að minnsta kosti í einhverjum tilfellum, verið hærri og jafnvel miklu hærri.(ruv.is)
Það er fagnaðarefni að kjararáð skuli nú loks vera að lækka laun ríkisforstjóra en það hefur dregist alltof lengi. Að sjálfsögðu á enginn að hafa hærri laun en forsætisráðherra.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.