Fimmtudagur, 4. mars 2010
Þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram
Ágreiningur um kostnað Breta og Hollendinga af fjármögnun vegna greiðslu lágmarkstrygginga reikningseigenda stendur í veginum fyrir samningum um lausn Icesave-málsins.
Heimildir Fréttablaðsins herma að Bretar og Hollendingar hafi sæst á hugmyndir Íslendinga um lausn. Í þeim felst að Íslendingar greiði höfuðstól lánsins og fjármögnunarkostnað. Deilan snýst um hve hár sá kostnaður er. Talsvert ber í milli, eftir því sem heimildarmenn segja, en bilið sé ekki óbrúanlegt.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra vill ekki staðfesta þetta. Hann segir ótímabært að ræða innihald viðræðnanna.
Ljóst er að vonbrigða gætir í herbúðum stjórnarliða með að ekki hafi þokast nær samkomulagi á fundi samninganefndanna í London í gær.
Staðan skýrðist ekki að ráði og það er enn ekkert á borðinu sem gefur tilefni til mikillar bjartsýni um að þetta muni klárast á næstunni," sagði Steingrímur í samtali við Fréttablaðið í gærkvöldi.
Samninganefndirnar funduðu í húsakynnum lögmannsstofunnar Slaughter and May sem er bresku viðræðunefndinni til ráðgjafar.
Fundurinn fór fram í mikilli vinsemd og var mjög gagnlegur," var það eina sem Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu vildi segja í gærkvöldi. Guðmundur er einn fimm samningamanna Íslands. Íslenska nefndin sat yfir útreikningum fram á kvöld í gær en hún nýtur ráðgjafar bresku lögmannastofunnar Ashurst.
Allar líkur eru á að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram á laugardag. Í henni verður kosið um gildi laga sem Alþingi samþykkti 30. desember. Kjör samninganna sem þar liggja til grundvallar eru talsvert lakari en Bretar og Hollendingar hafa nú boðið upp á. Í röðum stjórnarflokkanna er talið mikilvægt að samkomulag - eða í það minnsta drög að samkomulagi - verði undirritað síðar í dag eða á morgun. Á þeim bæjum er það talin mikil fjárhagsleg áhætta að málið sitji enn fast þegar lögin verða felld á laugardag, eins og skoðanakannanir sýna ótvírætt.
Formenn stjórnarflokkanna kynntu stöðu málsins fyrir þingflokkum sínum síðdegis í gær. (visir.is)
-
Það er synd að ekki skuli hafa náðst samkomulag fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Það liggur á borðinu tilboð um betri samning og því er erfitt að samþykkja þann samning,sem er verið að greiða atkvæði um. Fólk er alveg ringlað og veit ekkert hvað það á að kjósa,
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.