Miðvikudagur, 10. mars 2010
Hver víkur fyrir Ögmundi?
Þingflokkur Vinstri grænna hefur að undanförnu skipst í tvær fylkingar. Annarsvegar þá sem fylgja formanninum Steingrími J. Sigfússyni að málum og hins vegar þá sem halla sér meira að Ögmundi Jónassyni. Þetta hefur endurspeglast í Icesave, afstöðunni til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins.
Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, segir að fyrir vikið hafi stjórnin virkað eins og minnihlutastjórn. Hún hafi ekki getað treyst á það að hún hafi þingmeirihluta fyrir sínum málum. Samfylkingarmenn eru þreyttir á ástandinu og áhrifamenn innan beggja stjórnarflokka vilja að Ögmundur verði aftur ráðherra svo sameina megi Vinstri græn að baki ríkisstjórninni.
Mikill ráðherrakapall gæti fylgt endurkomu hans í ríkisstjórn. Jóhanna Sigurðardóttir mun þó áfram leiða stjórnina, Steingrímur J. stýra fjármálaráðuneytinu og Össur Skarphéðinsson sjá um utanríkismálin. Aðrir kunna að færast til.
Hjá Samfylkingu vilja menn halda í utanflokksráðherranna, Gylfa Magnússon og Rögnu Árnadóttur. Eitthvert þeirra Álfheiðar Ingadóttur, Svandísar Svavarsdóttur eða Jóns Bjarnasonar gæti því þurft að víkja fyrir Ögmundi.
Gunnar Helgi segir að meðan stjórnin haldi fylgi sínu óskertu geti hún látið reka á reiðanum. En Icesave málið sem sé í ákveðinni kreppu og allt sem hangi á því bæði endurskoðun AGS og lánin frá Norðurlöndunum, kalli á viðbrögð fyrr en síðar. Hann bendir líka á að stjórnin muni verða viðkvæm fyrir því þegar fylgi hennar fari á þverra samkvæmt könnunum. Það verði fyrr en síðar verði ekki breyting á hennar málum. Þeirra breytinga er að vænta með uppstokkun í ráðherraliðinu öðru hvoru megin við Páska.(ruv.is)
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.