Laugardagur, 13. mars 2010
Samdráttur meiri í Finnlandi og Danmörku 2008 og 2009 en á Íslandi
Samdráttur í þjóðarframleiðslu Finna og Dana var meiri en hjá Íslendingum á árunum 2008 og 2009. Þetta kemur fram í nýju fréttabréfi Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands en þar er fjallað um samdrátt efnahagslífsins hér á landi í samanburði við hinar Norðurlandaþjóðirnar og aðrar vestrænar þjóðir. Aðlögun íslenska þjóðarbúsins í kjölfar hrunsins virðist hafa gengið vonum framar.
Í greininni sem skrifuð er af Stefáni Ólafssyni prófessor við HÍ er stuðst við nýjar tölur frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins og nýlegar tölur frá Hagstofa Íslands um þróun þjóðarframleiðslunnar á Íslandi á árinu 2009. Niðurstaðan er að samdráttur þjóðarframleiðslu á Íslandi var 6,5% á árinu 2009, en á árinu 2008 jókst þjóðarframleiðslan um 1,0%. Samanlagður er samdráttur þjóðarframleiðslu á Íslandi árin 2008 og 2009 því 5,5%," segir í í greininni.
Mjög mikill samdráttur varð í þjóðarframleiðslu Finna á árinu 2009, eða um 7,8%. Ísland var með 6,5%, Danmörk 5,1%, Svíþjóð 4,9% og loks varð aðeins um 1,5% samdráttur í Noregi á árinu 2009 að því er fram kemur í greininni. Ef litið er á bæði árin, 2008 og 2009 saman, þá er heildarsamdráttur þjóðarframleiðslu í kreppunni mestur í Finnlandi (6,6%) og næst mestur í Danmörku (6,0%). Ísland er í þriðja sæti með samtals 5,5% samdrátt, litlu meira en Svíþjóð (5,1%). Hagvöxtur í Danmörku hefur verið talsvert minni en á Íslandi á síðustu árum og almennt er Dönum ekki spáð miklum hagvexti á næstu árum af bæði OECD og Eurostat," segir ennfremur.
Þá segir að athygli veki í ljósi hins mikla áfalls er varð með fjármálahruninu á Íslandi að samdráttur þjóðarframleiðslu skuli ekki vera meiri en raun ber vitni. Áður hafði verið spáð allt að 10% samdrætti þjóðarframleiðslu á árinu 2009 (bæði af AGS, OECD og Seðlabanka Íslands). Spáð er frekari samdrætti hér á landi á árinu 2010 og Seðlabanki Íslands hefur í janúar fært spá sína niður frá því sem áður var, m.a. vegna óvissu er tengist töfum við afgreiðslu Icesave-málsins."
Í fréttabréfinu er einnig fjallað um umfang atvinnuleysis á Norðurlöndunum í fyrra og kemur fram að atvinnuleysi var mest í Finnlandi og Svíþjóð, en Ísland telst vera í þriðja sæti með 7,8% fyrir fjórða ársfjórðung, samkvæmt umreikningi OECD á tölum Hagstofu Íslands. Hagstofa Íslands mældi atvinnuleysið á fjórða ársfjórðungi sem 6,7% en með stöðlunaraðferð OECD hækkar það í 7,8%. Skráð atvinnuleysi eins og Vinnumálastofnun mælir það er almennt hærra, sem nemur rúmlega 1 %-stigi. Tölur OECD eru hins vegar sambærilegastar við tölur annarra landa."
Stefán segir að samdráttur efnahagslífs og tengdur atvinnuleysisvandi á Íslandi undir lok ársins 2009 sé því í meðallagi í hópi norrænu þjóðanna. Má telja það nokkurt undrunarefni í ljósi hrunsins," segir hann í greininni.
Þegar litið er til fleiri þjóða kemur í ljós að Ísland er í 10. sæti af 35 löndum, þegar samdráttur þjóðarframleiðslu er metinn. Af þeim 9 þjóðum sem eru með meiri samdrátt þjóðarframleiðslu en Íslendingar standa Eystrasaltsþjóðirnar (Lettland, Eistland og Litháen) áberandi verst og samdráttur í Írlandi var einnig mikill (10,5%), eða nærri helmingi meiri en hjá Íslendingum. Finnar eru svo í 5. sæti á þessum ófaralista. Að meðaltali dróst þjóðarframleiðsla aðildarríkja Evrópusambandsins saman um samtals 3,4% á árunum 2008 og 2009."
Þá voru 20 þjóðir með meiri atvinnuleysisvanda en Íslendingar undir lok ársins 2009 af þessum 35 vestrænu þjóðum. Stefán segir að þjóðirnar við Eystrasalt standi verst, auk Spánverja, Íra og ýmissa þjóða í Austur-Evrópu. Meðaltal Bandaríkjanna og Evrópusambandsins er nærri 10%, eða talsvert meira en atvinnuleysi Íslendinga.
Að lokum segir Stefán að aðlögun íslenska þjóðarbúsins í kjölfar hrunsins virðist því hafa gengið vonum framar, enn sem komið er, þ.e. hvað þjóðarframleiðslu og atvinnuleysi snertir. Þessi staðreynd ætti að auka Íslendingum bjartsýni um möguleika á öflugri endurreisn þjóðarbúskaparins."(visir.is)
Þetta eru mjög athyglisverðar upplýsingar. Mörgum mun koma á óvart,að samdráttur skuli hafa verið meiri 2008 og 2009 í Finnlandi og Danmörku en á Íslandi.Atvinnuleysi var einnig meira í Finnlandi og í Svíþjóð en á Íslandi.Ei að síður er ástandið enn slæmt hér,einkum er atvinnuleysið mikið og taka þarf tilit til þess að Íslendingar eru óvanir atvinnuleysi.Finnar hafa hins vegar búið við atvinnuleysi í mörg ár.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:55 | Facebook
Athugasemdir
Passar fínt að nota 2008 með í meðaltalsútreikningi eða hvað? Bankarnir hrundu jú fyrst það haust svo fram til sept-okt 2008 var enn verið að sukka á Íslandi eins og hver dagur væri sá síðasti meðan hin tvö löndin sáu fram á veginn og skertu sína eyðslu
nollinn (IP-tala skráð) 13.3.2010 kl. 13:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.