Sunnudagur, 14. mars 2010
Verður samsteypustjórn í Bretlandi eftir kosningar?
Hvorug þessara fylgiskannana bendir til þess að annar hvor stóru flokkanna, Verkamannaflokkurinn eða Íhaldsflokkurinn, tryggi sér meirihluta þingsæta í kosningunum. Samkvæmt könnun sem Sunday Times birtir fengi Íhaldsflokkurinn þrjátíu og sjö prósenta fylgi, það er fjórum prósentustigum meira fylgi en Verkamannaflokkurinn. Þetta er einu prósentustigi minna en í sambærilegri könnun fyrir viku. En þrátt fyrir meira fylgi fengi flokkurinn samt mun færri þingmenn. Það er vegna kjördæmaskipanar í Bretlandi. Samkvæmt könnuninni í Sunday Times er þriðji stærsti flokkurinn, Frjálslyndir demókratar, með 17% fylgi.
Í könnun Sunday Telegraph, sem birt er í dag, er forskot Íhaldsmanna á Verkamannaflokkinn hins vegar sjö prósentustig, tveimur minna en í könnun, sem blaðið birti í síðasta mánuði. Gengi það eftir fengju þeir aðeins fleiri þingsæti en Verkamannaflokkurinn, þó ekki þingmeirihluta. Þessi könnun, í Sunday Telegraph, mælir Íhaldsmenn með 38% fylgi, Verkamannaflokkinn með 31% og Frjálslynda demókrata með 21%.
Ef marka má þessar kannanir bendir flest til þess að næsta ríkisstjórn Bretlands verði minnihlutastjórn, sú fyrsta frá 1974. Margir fjárfestar og efnahagssérfræðingar telja næsta óvíst að veik stjórn geti ráðið fram úr efnahagsvanda Breta. Þeir telja meðal annars nauðsynlegt að draga stórlega úr ríkisútgjöldum.
Sérfræðingar í breskum efnahagsmálum spá því að fjárlagahallinn í ár muni nema 178 milljörðum punda, jafnvirði um 34 þúsund milljarða króna. (ruv.is)
Samkvæmt þessum skoðanakönnunum verður erfitt að mynda stjórn í Bretlandi eftir kosningar.Trúlega verður mynduð samsteypustjórn,annað hvort Verkamannaflokks og Frjálslyndra eða Íhaldsflokks og Frjálslyndra. Einnig er hugsanlegt að mynduð verði minnihlutastjórn.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.