Þriðjudagur, 16. mars 2010
Börnum þrælað út í kakóframleiðslu
Næstum helmingurinn af kakói sem framleitt er í heiminum er unnið í barnaþrælkun á Fílabeinsströndinni. Þar er börnum þrælað út, allt niður í átta ára að aldri. Börnunum er í sumum tilfellum smyglað frá nærliggjandi löndum eins og Malí inn í Fílabeinsströndina. Þar er 40% af öllu kakói í heiminum framleitt og selt áfram til heimskunnra fyrirtækja á borð við Nestlé og Mars.
Dönsku fyrirtækin Toms og Cocio nota einnig vörur sem börn framleiða. Fjallað er um barnaþrælkunina í sjónvarpsþætti á dönsku sjónvarpsstöðinni DR 2 í kvöld. Í þættinum er meðal annars rætt við litla stúlku sem heitir Mariam Marico. Hún segir að ókunnug kona hafa lokkað sig yfir á Fílabeinsströndina með loforðum um að hún gæti nælt sér í pening fyrir vinnu. Og rútubílstjórar sem hafa fengið það hlutskipti að flytja börnin frá heimilum sínum þangað sem þeim er þrælað út, staðfesta að barnaþrælkunin eigi sér stað. Þeir segja að á þessum vettvangi hafi mansal tíðkast um langt skeið.
Árið 2001 skrifuðu heimsins stærstu kakóframleiðendur undir sameiginlega yfirlýsingu þess efnis að þeir myndu hætta að nota börn við framleiðslu sína fyrir árið 2008. Þetta samkomulag virðist ekki hafa verið virt. (visir,is)
Þetta er til háborinnar skammar. Sameinuðu þjóðirnar ættu þegar að taka í taumana og stöðva þessa barnaþrælkun.
Björgvin Guðmnundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.