Föstudagur, 19. mars 2010
Skilanefnd Kaupþings rannsakar 20 félög og félagasamstæður í skattaskjólum
Skilanefnd Kaupþings hefur tekið rúmlega 20 félög og félagasamstæður í þekktum skattaskjólum til sérstakrar athugunar vegna tugmilljarða viðskipta þeirra við gamla Kaupþing. Fjöldi félaga innan hverrar samstæðu er á bilinu tvö til 250 og eru þau staðsett á Bresku Jómfrúareyjum, Ermasundseyjum, á Kýpur, í Panama og Lúxemborg. Eigendur margra þeirra eru Íslendingar búsettir erlendis.
Umfangsmikil rannsóknarvinna á háttsemi gamla Kaupþings hófst af hálfu skilanefndar bankans strax þegar hún tók til starfa í október 2008. Þetta kemur fram í skýrslu fyrir kröfuhafa.
Tilgangurinn er að rekja slóð fjármuna og skoða útlán bankans fyrir hrun með það að markmiði að endurheimta fjármuni. Hefur skilanefndin notið aðstoðar sérfræðinga í réttarrannsóknum frá Grant Thornton í Bretlandi og erlendra lögmanna.
Rannsóknin hefur meðal annars beinst að lánum til tengdra aðila og stærri viðskiptavina bankans, óreglulegum viðskiptum og viðskiptum við eða í gegnum dótturfélög erlendis.
Skilanefndin hefur nú þegar tekið yfir 20 félög og félagasamstæður til sérstakrar athugunar vegna viðskipta þeirra við bankann fyrir hrun. Fjöldi félaga innan sömu samstæðu er á bilinu tvö til 250, en í sumum tilvikum er um skúffufélög að ræða, sem fengu tugi milljarða að láni hjá bankanum.
Félögin eru í flestum tilvikum staðsett í þekktum skattaskjólum - á Bresku Jómfrúareyjunum, Ermasundseyjunum, á Kýpur, í Panama og Lúxemborg, að því er heimildir fréttastofu herma. Eigendurnir eru margir búsettir erlendis, en oft Íslendingar.
Vinnan við að rekja slóð fjármuna er gríðarlega flókin en ásamt því að vera skattaskjól eru mörg þessara landa þekkt fyrir takmarkað gegnsæi, þannig að erfitt getur verið að nálgast upplýsingar um félögin. Í mörgum tilfellum verður slóðin köld í Lúxemborg og erfitt að nálgast frekari gögn og upplýsingar.(visir.is)
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.