Sunnudagur, 28. mars 2010
Óraunhæft að ætla að sameina 80 ríkisstofnanir
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, telur raunhæft að skera niður og sameina allt að 80 ríkisstofnanir á næstu tveimur til þremur árum. Þetta kom fram í ræðu ráðherra á flokkstjórnarfundi samfylkingarinnar í gær. Þá ætlar hún að beita sér fyrir setningu laga um sérstaka rannsókn á einkavæðingu bankanna verði málinu ekki gerð ítarleg skil í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.
Jóhanna fór yfir aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum í ræðu á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag.
Fram kom í máli Jóhönnu að hún telur rétt sameina ráðuneyti og fækka ráðherrum úr 12 í níu strax þessu ári. Þá boðaði hún frekari niðurskurð í ríkisfjármálum og telur raunhæft að fækka ríkisstofnunum úr 200 í 120 á næstu tveimur til þremur árum. Meðal annars með því að sameina stofnanir og endurskoða verkaskiptingu þeirra á milli.
"Óhætt er að segja að hér yrði um að ræða umfangsmestu breytingar og uppstokkun sem átt hefur sér stað í ríkisrekstri á Íslandi," sagði Jóhanna í ræðu sinni.
Jóhanna sagði að útgerðarmenn væru að reyna fella ríkisstjórnina með allsherjar áróðursstríði. Hún sakaði þá ennfremur um að ógna stöðugleikanum í samfélaginu til að koma í veg fyrir allar breytingar á kvótakerfinu.
"Útgerðarmenn hafa svarað öllum tillögum stjórnvalda með hótunum. Það er stundum stór á þeim kjafturinn eins og á skötuselnum."
Jóhanna gagnrýndi Framsókn og Sjálfstæðisflokk sérstaklega.
"Okkar vandi var og er uppsafnaður vandi frá óstjórnarárum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. - niðurstaðan af hrunadansi helmingaskiptaflokkanna og skipbrot einkavinavæðingar bankanna og nýfrjálshyggju í efnahagsmálum"
Hún sagði að sjálfstæðismenn ættu enn eftir að gera hreint fyrir sínum dyrum.
Enn hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki treyst sér til þess að gera grein fyrir fjárframlögum sem hann fékk á tímum þegar stórir hagsmunaaðilar voru á höttunum eftir eignum ríkisins," sagði Jóhanna en Sjálfstæðisflokkurinn hélt um 150 nöfnum styrktaraðila leyndum af þeim sem styrktu flokkinn.
Í þessu ljósi verði að rannsaka einkavæðingu bankanna sérstaklega
"Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þessu verða gerð skil í rannsóknarskýrslunni, en ég hef þegar ákveðið að verði þau ekki ítarleg mun ég beita mér fyrir setningu laga um sérstaka rannsókn á einkavæðingunni," sagði Jóhanna.(visir.is)
Það er sjálfsagt og eðlilegt að reyna að spara eitthvað í ríkisrekstrinum en ekki má ganga fram með offorsi í því efni.T.d. er ekkert vit í því að fara í fjölduppsagnir ríkisstarfsmanna eins og ástandið er í atvinnumálum í dag., Það mundi aðeins þýða það að ríkisstarfsmenn,sem misstu vinnuna færu beint á atvinnuleysisbætur.Það væri lítill og vafasamur sparnaður. Það er sjálfsagt unnt að sameina einhverjar ríkisstofnanir en ég tel það algerlega óraunhæft að ætla að sameina 80 ríkisstofnanir,ekki nema setja eigi nýja yfirstjórn yfir tvær ríkisstofnanir,sem myndu eftir sem áður starfa að mestu óbreyttar og með jafnmörgum starfsmönnum og áður. Það er ekkert gagn í slíkri sameiningu og væri aðeins sýndarmennska.Tökum dæmi: Ætti að sameina embætti ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra.Hætt er við því að ekkert sparaðist við slíka sameiningu og aðeins yrði sett ný silkihúfa yfir nýja sameinaða stofnun en fyrri stofnanir störfuðu í raun áfram óbreyttar. Og þannig má nefna fleiri dæmi.Nú er t.d. verið að sameina vinnueftirlitið og vinnumálastofnun.Ég efast um að mikið sparist við það nema þá að unnt sé að fækka um 1 forstjóra.En verkefni þessara tveggja stofnana eru mjög ólík og áreiðanlega ekkert unnt að fækka starfsmönnum í þeim. Hugmyndir um að sameina hina nýju stofnun og Tryggingastofnun tel ég algerlega óraunnhæfar.Þar eru verkefnin svo gerólík.Það má ekki sameina aðeins til að sameina,þ.e. til að sýnast.Það verður að vera eitthvað vit í sameiningunni og unnt að ná fram einhverjum raunhæfum sparnaði.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.