Miðvikudagur, 31. mars 2010
Samfylkingin kjölfestan á erfiðum tímum
Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar ræddi m.a. um hlutverk og erindi Samfylkingarinnar á sveitarstjórnarstigi á krepputímum í ræðu sinni á flokksstjórnarfundinum á laugardag. Það væri sögulegt hlutverk jafnaðarmanna að vera leiðandi afl á tímum sem þessum. Samfylkingin væri kjölfestan sem væri treystandi á erfiðum tímum. Sveitarstjórnarfólk flokksins hefði tekið sér stöðu með fjölskyldunum, börnunum og starfsfólki sveitarfélaga á krepputímum og málefnalegar áherslur flokksins hefðu víða náð fram að ganga. Framundan blasti við að leggja þyrfti áherslu á atvinnumálin í samstarfi við ríki og einkaaðila sem og að vinna þyrfti að úrlausnum í húsnæðismálum innan sveitarfélaganna.
Dagur fjallaði sérstaklega um málefni Reykjavíkur og ruglið sem hefur viðgengist undir stjórn Sjálfstæðisflokksins. Hann benti t.d. á að skuldir Orkuveitu Reykjavíkur væru nú um 240 milljarðar króna, en hefðu verið um 55 milljarðar í upphafi kjörtímabilsins. Jafnframt benti hann á kaup á tveimur húsum við Laugaveg sem hefði átt að friða, en kaupverðið væri á núvirði einn milljarður króna sem myndi t.d. duga fyrir ókeypis máltíðum fyrir öll reykvísk skólabörn í gegnum kreppuna. Dagur nefndi fjölmörg mál sem væru í frestun hjá meirihlutanum, svo sem einkavæðing sorphirðu ofl. sem biðu handan við hornið svo sem hækkun á gjaldskrá Orkuveitunnar um 20-30%, úrlausnir í málefnum strætó, slökkviliðsins og fleiri stofnana. Allt eru hugmyndir sem meirihlutinn setti í frest vegna þess að meirihlutinn mætti andspyrnu í borgarstjórn.
Í ræðu sinni benti Dagur jafnframt á hve stuttur tími leið frá risastyrkjum sem bárust til Sjálfstæðisflokksins og dæma um hraðeinkavæðingu svo sem á Hitaveitu Suðurnesja, einkaviðræðum við stofnun Landsvirkjun Hydro Invest og stofnunar Geysis Green Energy sem reyndist vera dulbúin einkavæðing á vettvangi Orkuveitu Reykjavíkur . Þessi atriði og fleiri hefði ekki verið sett í samhengi t.d. af fjölmiðlum og öðrum rannsóknaraðilum.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.