Laugardagur, 3. apríl 2010
Hafró vill ekki auka kvótann
Í sjálfu sér höfum við engu við okkar ráðgjöf að bæta frá því í fyrra," segir Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar. Menn verða að hafa hugfast að ákveðin nýtingarstefna í þorski er í gildi og almennt ekki inni í myndinni að auka aflaheimildir á þessu fiskveiðiári, frá okkar bæjardyrum séð. Vitaskuld getur komið til aukningar strax á næsta fiskveiðiári ef nýjar upplýsingar og úttekt að vori á fiskistofnunum gefur tilefni til þess."
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra lýsti yfir áhyggjum af atvinnuástandi víða um land vegna yfirvofandi hráefnisskorts í grein í Fréttablaðinu á fimmtudag. Lokanir í landvinnslu eru yfirvofandi og þær munu standa vikum saman að óbreyttu. Í ljósi þessa telur forsætisráðherra rétt að það verði skoðað að auka aflaheimildir.
Ríkisstjórnin mótaði hins vegar í fyrra nýtingarstefnu í þorskveiðum til fimm ára, eins og Jóhann vísar til, og sendi Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES) bréf þess efnis í lok maí. Samkvæmt nýtingarstefnunni verður veiðiráðgjöf Hafró fylgt og byggt á því að veiðihlutfall sé aldrei meira en tuttugu prósent af viðmiðunarstofni. Þessi nýtingarstefna er, frá hendi vísindamanna Hafró, talin grundvöllur þess að tryggja sterkari hrygningarstofn og bætta nýliðun á næstu árum.
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði aðspurður um orð forsætisráðherra að grundvallaratriðið sé að standa vörð um sjávarauðlindina til lengri og skemmri tíma; lög og reglur takmarki auk þess aðgerðir. Jón segist sem ráðherra ábyrgur fyrir málaflokknum þegar allt kemur til alls og það sé á hans ábyrgð að ákveða hvort aflaheimildir verði auknar.
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir nauðsynlegt að auka aflaheimildir í þorski úr 150 í 200 þúsund tonn nú þegar, eins og sambandið hafi mælt með um árabil.
Ég fagna því að stjórnvöld séu tekin að skoða þetta í alvöru og efast ekki um að um þetta náist samstaða í ríkisstjórninni." Örn segir ástæðulaust að hafa áhyggjur af þorskstofninum. Sjómenn um allt land votti að fiskgengd sé nú áþekk því sem best gerist. Þess vegna sé sárgrætilegt að ræða við útgerðarmenn um uppsagnir vegna hráefnisskorts.(visir.is)
Afstaða Hafró kemur ekki á óvart.En ef til vill er unnt að auka veiðiheimildir tímabundið eins og forsætisráðherra talaði um og síðan gæti aukningin hugsanlega gengið aftur til baka. Það er mjög mikilvægt að auka atvinnu strax í vor til þess að setja innspýtingu í atvinnulífið.Það er lífsnauðsynlegt.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:43 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.